Veiðitölur

 

MINNISBLAÐ.

 

DAGS:                        17. nóvember 2008

 

TIL:                 Landsambands veiðifélaga

 

FRÁ:               Karli Axelssyni hrl.

 

EFNI:              Hvernig standa beri að uppgjöri á greiðslu arðs þegar ný arðskrá tekur gildi fyrir veiðifélag.

 

Vísa til samtals okkar í morgun þar sem álitaefni þessu tengd voru reifuð.

 

Í 41. gr. laga um lax- og silungsveiði er í 1. mgr. mælt fyrir um skyldu veiðifélaga til  þess að gera arðskrá.  Um gerð slíkrar arðskrár og endurnýjun er síðan nánar fjallað í 3. – 7. mgr. 41. gr., sem og í VII. kafla laganna. Nær undantekningarlaust mun það vera þannig að arður til einstakra félagsmanna veiðifélags er ákvarðaður á ársgrundvelli, í samræmi við almanaksárið.  Til greiðslu hans mun þó koma með mjög mismunandi hætti.  Í einhverjum tilvikum er hann greiddur út fyrirfram, eða á fyrri hluta árs.  Í öðrum tilvikum dreifast greiðslur yfir árið.  Í enn öðrum tilvikum kemur til greiðslu arðs eftir á eða við lok árs. Álitaefnið lýtur nánar tiltekið að því hvernig við skuli bregðast og standa að uppgjöri þegar ný arðskrá tekur gildi á yfirstandandi veiðiári.

 

Í 5. mgr. 41. gr. kemur fram að ný arðskrá öðlist gildi tveimur mánuðum eftir birtingu í Lögbirtingarblaði.  Er sú regla fortakslaus. Á þeim grundvelli og með hliðsjón af framangreindu er það afdráttarlaus skoðun mín að uppgjöri viðkomandi veiðiárs beri að haga þannig að fram að gildistöku nýrrar arðskrár beri að miða við eldri arðskrá en frá og með gildistöku nýrrar arðskrár beri að miða við hina nýju arðskrá.  Sem dæmi má taka að ný arðskrá öðlist gildi frá og með 1. ágúst viðkomandi árs.  Arði yrði þá úthlutað á grundvelli eldri arðskrár til og með 1. ágúst en á grundvelli nýju arðskrárinnar eftir þann tíma. 58% af arði viðkomandi veiðiréttarhafa á því ári yrði því greiddur í samræmi við eldri arðskrá en 42% af arði í samræmi við yngri arðskránna.

 

Þú spyrð sérstaklega hvernig hagi þá til í þeim tilvikum að hluti eða jafnvel allur arðurinn hefur fyrirvaralaust þegar verið greiddur fyrir yfirstandandi ár við gildistöku nýrri arðskrár. Ég tel lang líklegustu niðurstöðuna vera þá að veiðiréttarhöfum beri að sæta endurskoðun arðgreiðslna til samræmis við þær breytingar sem leiðir af nýrri arðskrá. Gæti þá mögulega komið til endurgreiðslna einstakra veiðiréttarhafa en hugsanlega leiðréttingar við arðútgreiðslu vegna næsta veiðiárs þar á eftir. Öllum veiðiréttarhöfum má vera ljóst þegar yfir stendur endurskoðun arðskrár og geta ekki að lögum borið fyrir sig þann ókunnugleika sem skapað getur mönnum endranær rétt til fyrirvaralausra greiðslna.  Ég mæli þó almennt með því að við útgreiðslu arðs í þeim veiðifélögum þar sem að yfir stendur endurskoðun arðskrár sé greitt með skýrum fyrirvara um þær leiðréttingar sem leiða kann af nýrri arðskrá.

 

Sé frekari upplýsinga eða reifunar óskað þá treysti ég því að þið verðið í sambandi.

-kax

 

 

Hér er hægt að sækja minnisblað sem pdf-skjal