Veiðitölur

 Möguleg vistfræðileg og erfðafræðileg áhrif af innflutningi lagardýra

 

Um gerð og eðli íslenskra ferskvatnsvistkerfa. Möguleg vistfræðileg og erfðafræðileg áhrif af innflutningi lagardýra. Greinargerð unnin af Sigurði Guðjónssyni framkvæmdastjóra Veiðimálastofnunar að beiðni Landssambands veiðifélaga.

 

 
 

                                       Vistfræði
Íslensk ferskvatnsvistkerfi eru afar fjölbreytileg að gerð og eðli.  Því veldur fjölbreytileg jarðmyndun landsins.  Jarðmyndanir eru mjög ólíkar að gerð, frá allgömlu blágrýtisbergi  upp í ung hraun. Eiginleikar vatna eru mjög mismunandi eftir gerð og eðli berggrunnsins sem einnig hefur afgerandi áhrif á landslag. Á blágrýtissvæðum landsins eru dragár ríkjandi þar sem ár falla frá bröttu fjalllendi til sjávar, en einnig svokölluð heiðavotlendisvötn sem renna um flatar jökulmórenur um ótal tjarnir og vötn í grónu votlendi.  Á yngri hluta landsins eru bæði dragár á móbergssvæðum svo og lindár.  Þessi jarðfræðilega umgjörð skapar, auk ólíkra veðurskilyrða, mjög fjölbreytilegt umhverfi í fersku vatni. Hér á landi eru afar fáar tegundir lífvera.  Því veldur lega landsins fjarri öðrum löndum og sá jarðsögulega stutti tími sem liðinn er frá síðustu ísöld.  Við höfum því einstaka þróunarfræðilega umgjörð þar sem fáar tegundir lífvera aðlagast í afar fjölbreyttu umhverfi.  Því er lífríki landsins mjög sérstakt og í sumum tilfellum algerlega einstakt. Má í því sambandi nefna vatnakerfi sumra lindáa sem vart eiga sinn líka í veröldinni.  Sem dæmi þá eru hér einungis 6 tegundir ferskvatnsfiska meðan til dæmis 42 tegundir finnast í Noregi og enn fleiri á meginlandi Evrópu. Sama gildir um aðrar tegundir lagardýra, svo sem skordýr, krabbadýr og lindýr.  Vegna þessa er lífríki Íslands jafnframt viðkvæmt fyrir breytingum eins og innflutningi lífvera. Innflutningur lífvera sem ekki finnast hér er mjög varasamur.  Þetta á við um fisktegundir, krabbadýr eða lindýr sem síðan sleppa úr eldi eða er sleppt út í íslenska náttúru og geta valdið ómetanlegum og óafturkræfum vistfræðilegum breytingum og skaða.

 

                                        Erfðafræði
Íslenskir ferskvatnsfiskar hafa þróast hér í einangrun frá síðustu ísöld.  Í 10 árþúsundir hafa stofnar þessarra tegunda aðlagast í sínu umhverfi.  Rannsóknir hafa sýnt að stofnar laxfiska (lax, urriði, bleikja) hafa myndast og þróast í hverju vatnakerfi. Í stærri vatnakerfum geta verið margir slíkir stofnar.  Þessi stofnar eru ólíkir að arfgerð öðrum slíkum stofnum og skyldleiki þeirra dvínar með vaxandi fjarlægð.  Þannig eru erlendir laxastofnar ólíkir íslenskum laxastofnum að erfðum.  Okkar fáu tegundir nýta búsvæði sem ella væru nýtt af öðrum tegundum og mynda enn fleiri stofna en þar sem margar tegundir eru.  Þannig verða til margir stofnar í sama vatni og er þekktasta dæmið margar stofngerðir bleikju í Þingvallavatni.  Fleiri dæmi eru til staðar en ekki öll jafn sýnileg.  Þannig eru margir erfðafræðilega ólíkir laxastofnar í stærri vatnakerfum. Rannsóknir sýna að erlendir stofnar fiska eru ólíkir íslenskum fiskstofnum í arfgerð. Innflutningur slíkra framandi stofna, sem síðan geta sloppið eða beinlínis verið sleppt á skilgreint eldissvæði, blandast þeim innlendu stofnum sem fyrir eru.  Um þetta eru til mörg dæmi. Verður þar með erfðablöndun og geta erfðaeiginleikar innlendra stofna glatast og þar með stofnar, sem eru aðlagaðir aðstæðum í umhverfi sínu, í gegnum mörg þúsund ára náttúruval.  Við þetta tapast líffræðilegur fjölbreytileiki og ef til vill mikilvægir nytjastofnar. Þarna eru gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir í húfi auk ómetanlegs skaða á íslenskri náttúru.  Einnig eru í húfi erfðalindir framtíðarinnar fyrir fiskeldi ef fjölbreytileikanum er eytt.  Nýlegar rannsóknir í Bretlandi (Oxford) sýna að eldislax á mun auðveldara með að hrygna í náttúrunni og blandast náttúrulegum laxi en haldið var áður.  Þar með hefur hættan af eldislaxi sem sleppur úr eldi og leitar í ár verið stórlega vanmetin.  Ný rannsókn háskólanema í Færeyjum sýnir einnig að mun meira sleppur af eldislaxi en áður hefur verið talið. Niðurstöður þessa nýju rannsókna benda til að hættur fyrir náttúrulega stofna samfara laxeldi (fiskeldi) sé mun meiri en áður var talið.

 

                                  Sjúkdómar og sníkjudýr
Sjúkdómar lagardýra eru sumir staðbundnir sem og sníkjudýr.  Í náttúrunni hafa dýr aðlagast sýklum og sníkjudýrum svæðisins að einhverju leyti. Flutningur dýra bíður þeirri hættu heim að framandi sýklar berist í nýtt umhverfi, þar sem ekkert mótefni er til hjá dýrastofnum svæðisins. Þekking manna á sýklum og sníkjudýrum lagardýra, sem og  faraldsfræði þeirra er takmörkuð.  Þessi sýklar og sníkjudýr geta magnast í eldi, þar sem mikil lífmassi er á litlu svæði.  Meðhöndlun sjúkdóma og mótefnaframleiðsla gegn ákveðnum sjúkdómum hefur hins vegar tekið framförum.  Sú þekking nægir hins vegar engan veginn til að tryggja að ekki verði stórslys við flutning lagardýra þannig að smitberar berist í eða á dýrunum eða í eldisvökva þeirra.  Umrædd tilskipun (EB 91/67) leitast við að taka á þeirri hættu, en benda verður á að sjúkdómaeftirlit er erfitt viðfangs og er bæði þekking og greiningaraðferðir dýrasjúkdóma ekki á því stigi að öruggt megi telja að ekki leynist sjúkdómar í eldisdýrum eða í eldisvökva.  Sama gildir um sníkjudýr.  Mörg dæmi væri hægt að nefna um sjúkdóma t.d. í fiskum sem borist hafa á milli landa í dýrum sem höfðu vottorð um heilbrigði.  Þarna er því einnig mikil áhætta tekin bæði fyrir íslenskt fiskeldi og náttúrulega stofna.