Veiðitölur

Álitsgerð um eðli, réttarstöðu og heimildir veiðifélaga

 

 

Landssamband veiðifélaga fór þess fór þess á leit við Lagastofnun Háskóla Íslands með beiðni, dags. 3. desember 2010, að hún gæfi lögfræðilegt álit á tilteknum atriðum er varða heimildir veiðifélaga að lögum. Lagastofnun Háskóla Íslands fól undirrituðum að semja álitsgerðina og fer hún hér á eftir í heildsinni en einnig er hægt aækja álitsgerð hér sem word- eða pdf skjal.

 

 

ÁLITSGERÐ

 

um eðli, réttarstöðu og heimildir veiðifélaga

 

Stefán Már Stefánsson
Eyvindur G. Gunnarsson

 

 

 

LAGASTOFNUN

Janúar 2011

 

Efnisyfirlit

 

I.                    Viðfangsefnið

II.                 Hvert er eðli og réttarstaða veiðifélaga?

1.                                    Forsaga

2.                                    Skilgreining, markmið og skipulag

3.                                    Skipulag, stjórn og atkvæðisréttur

4.                                    Eignir veiðifélags, arðskrár og ábyrgð á skuldbindingum

5.                                    Eðli veiðifélaga

6.                                    Skylduaðild

7.                                    Umboðið

8.                                    Samantekt

III.               Hver eru mörkin milli lögbundinna og annarra verkefna veiðifélaga samkvæmt lax- og silungsveiðilögum?

1.                                    Almennt

2.                        Hvaða verkefni hvíla beinlínis á veiðifélögum samkvæmt lax- og silungsveiðilögum?

3.                        Hvaða önnur verkefni, sem ekki eru beinlínis talin upp í lax- og silungsveiðilögum, kunna að heyra undir verksvið veiðifélaga?

4.                        Geta veiðifélög sinnt verkefnum, sem falla utan lögbundins verksviðs þeirra, ef félagsmenn eru allir samþykkir?

5.                        Að hvaða marki er veiðifélagi heimilt að stunda rekstur í veiðihúsi félagsins utan lögbundins veiðitíma, t.d. hótel- og veitingarekstur?

IV.              Geta samkeppnislög takmarkað heimildir veiðifélaga til samkeppnisrekstar?

V.                 Skaðabótaskylda utan samninga

VI.              Niðurstaða í stuttu máli

I.

Viðfangsefnið.

Landssamband veiðifélaga fór þess fór þess á leit við Lagastofnun Háskóla Íslands með beiðni, dags. 3. desember 2010, að hún gæfi lögfræðilegt álit á tilteknum atriðum er varða heimildir veiðifélaga að lögum. Lagastofnun fól okkur undirrituðum að semja álitsgerðina og fer hún hér á eftir. 

 

Í samráði við Landssamband veiðifélaga höfum við nánar tiltekið afmarkað viðfangsefnið með eftirfarandi hætti:

 

1.      Hvert er eðli og réttarstaða veiðifélaga?

2.      Hver eru mörkin milli lögbundinna verkefna veiðifélaga og annarra verkefna veiðifélags samkvæmt lax- og silungsveiðilögum?

a.       Hvaða verkefni hvíla beinlínis á veiðifélögum samkvæmt lax- og silungsveiðilögum?

b.      Hvaða önnur verkefni, sem ekki eru beinlínis talin upp í lax- og silungsveiðilögum, kunna að heyra undir verksvið veiðifélaga?

c.       Geta veiðifélög sinnt verkefnum sem falla utan lögbundins verksviðs þeirra ef allir félagsmenn eru samþykkir?

d.      Að hvaða marki er veiðifélagi heimilt að stunda rekstur í veiðihúsi félagsins utan lögbundins veiðitíma, t.d. hótel- og veitingarekstur?

3.      Geta samkeppnislög takmarkað heimildir veiðifélaga samkeppnisrekstrar?

4.      skaðabótaskylda utan samninga

 

Efnisskipan umfjöllunar okkar er með þeim hætti að í II.-V. kafla er leitað svara við þessum spurningum og tengdum álitaefnum, en í VI. kafla niðurstaða í stuttu máli.

 

II.

Hvert er eðli og réttarstaða veiðifélaga?

1.

Forsaga.

Fyrstu skráðu lagaákvæðin í íslenskum rétti um veiði eru í Grágás. Þar kom fram meginreglan um einkaveiðirétt landeiganda í landi sínu en hún hljóðaði svo: „Hver maður á að veiða fugla og fiska í sínu landi“, sbr. Konungsbók II, bls. 122 og Staðarhólsbók, bls. 506. Einkaveiðirétti landeiganda voru þó nokkur takmörk sett. Honum var m.a. bannað að þverleggja ár eða þvergirða þær með öðrum hætti, nema hann ætti einn alla ána og þá varð hann í vissum tilvikum að þola veiði annarra manna í landi sínu. Í Jónsbók (56. kap. landsleigubálks) var byggt á sömu meginreglu og í Grágás um einkarétt landeiganda til veiða í landi sínu. Af þessum ákvæðum má ráða að þau hafi einkum verið sett til að jafna veiði og koma í veg fyrir yfirgang. Hitt virðist ekki hafa vakað fyrir þeim er lögin settu að fiskur þyrfti friðunar við til að veiðin héldist. Ákvæðin í Jónsbók voru um margar aldir einu fyrirmælin um veiðirétt og veiði hér á landi.

 

Það var fyrst árið 1849 sem ný ákvæði voru sett um veiði hérlendis. Það ár var gefin út tilskipun um veiði á Íslandi en hún fjallaði einkum um dýraveiðar á landi og sela- og hvalveiðar, en tók ekki til veiði í vötnum og ám.

 

Þegar líða tók á 19. öld var farið að stunda laxveiði í meira mæli en áður. Deilur og málaferli tóku að spretta út af laxveiðum og ljóst varð að nauðsyn bæri til að sett yrði laxveiðilöggjöf sem væri fyllri en hin fábrotnu ákvæði Jónsbókar og svaraði betur breyttum viðhorfum á þessu sviði, m.a. um friðun. Laxafriðun var til meðferðar á Alþingi árin 1867, 1871 og 1873 en það var ekki fyrr en árið 1875 sem Alþingi samþykkti frumvarp sem varð að lögum nr. 16/1876, viðaukalög við 56. kap. landsleigubálks Jónsbókar, um friðun á laxi. Þá var laxafriðun enn til meðferðar á Alþingi árin 1877, 1879 og 1885.

 

Rekja má fyrsta vísinn til veiðifélaga til laga 6/1886 um friðun á laxi en þá var fyrsta sinn gert ráð fyrir heimild til þess að stofna félagsskap um veiði. Með lögum þessum voru ákvæði 56. kap. landsleigubálks Jónsbókar endanlega numin úr íslenskum rétti og jafnframt viðaukalögin frá 1876. Í lögunum frá 1886 voru ýmis nýmæli og miðuðu þau í flestum atriðum að aukinni friðun á laxi, nema þau fyrirmæli sem heimiluðu að þvergirða á, ef sú á væri í eigu eins manns. Þá má nefna að á veiðitíma var tekin upp friðun um ákveðinn tíma í viku hverri, svonefnd vikufriðun, viss notkun veiðitækja var bönnuð og heimiluð var stofnun veiðifélaga með vissum skilyrðum.

 

Árið 1909 voru fyrstu ákvæðin um friðun silungs sett með lögum nr. 55/1909, um samþykktir um friðun silungs og veiðiaðferðir í vötnum. Í lögunum voru þó ekki nein almenn ákvæði um friðun silungs heldur veittu þau heimildir til að gera samþykktir um friðun og veiði silungs ef 3/5 þeirra manna sem veiði áttu í vatni kröfðust þess.

 

Með lögtöku vatnalaga nr. 15/1923 voru hugmyndir um félagsskap um veiði þróaðar frekar með stofnun og starfrækslu vatnafélaga sem gat tekið til mismunandi vatnsnota, en í lögunum var að finna ákvæði er snertu veiði og veiðirétt. Fyrrnefnd lög nr. 5/1886 um friðun á laxi héldu þó áfram gildi sínu að því leyti sem þau vörðuðu laxveiði og selveiði og þá var heldur ekki hróflað við gildi laga nr. 55/1909.

 

Árið 1929 voru sett lög nr. 6/1929 um fiskiræktarfélög. Með lögunum var eigendum veiðiréttar í sama fiskihverfi heimiluð stofnun fiskiræktarfélaga. Heimildin var veitt eigendum veiðiréttar í sama fiskihverfi.

 

Með lögum nr. 61/1932 voru sett fyrstu heildstæðu lögin um lax- og silungsveiði, en þau lög voru afrakstur starfs nefndar sem atvinnumálaráðherra hafði skipað árið 1929 til þess „að endurskoða öll lagafyrirmæli um veiði í vötnum og ám og að semja frumvarp til nýrra laga um allt það, sem að veiði í vötnum og ám og fiskirækt [lyti]“. Megintilgangur laganna var að bæta hlut þeirra er borið höfðu skarðan hlut frá borði við skiptingu veiði úr ám og vötnum og að tryggja veiði til frambúðar með því að koma í veg fyrir ofveiði og rányrkju. Talið var að það hafi einkum verið þeir er byggju með ánum ofanverðum sem fram að setningu laganna hefðu haft of litla hlutdeild í veiðinni.

 

Með lögum nr. 61/1932 voru gerðar nokkrar breytingar frá fyrra réttarástandi. Hert var á takmörkunum á ráðstöfunarrétti manna yfir veiði. Bannað var að skilja veiðirétt að nokkru eða öllu frá landareign hvort heldur var fyrir fullt og allt eða um tiltekinn tíma, en undantekningar voru þó gerðar frá því. Í lögunum var auk þess að finna frekari breytingarákvæði sem ekki verður getið hér.

 

Þá var í lögum nr. 61/1932 kveðið á um að skylda mætti menn, að vissum skilyrðum uppfylltum, til þátttöku í fiskræktarfélögum. Ennfremur var þar sérstakur kafli um veiðifélög. Var mönnum samkvæmt ákvæðum laganna heimilt að gera með sér félagsskap um veiði í þeim tilgangi, í fyrsta lagi, að félagið sjálft léti stunda veiði, og í öðru lagi, að félagið seldi á leigu rétt til stangveiði. Þegar aukinn meiri hluti manna hafði í samræmi við nánari reglur í lögunum samþykkt félagsstofnun var öllum öðrum skylt að gerast félagar. Hér var því um að ræða heimild manna til að stofna veiðifélag en ekki skyldu nema þegar ákveðin skilyrði voru fyrir hendi. Samkvæmt lögunum skyldi gera veiðifélagi skrá sem sýndi þann hluta veiði eða arðs af veiði sem koma ætti í hlut hverrar jarðar eða jarðarhluta sem veiðiréttur fylgdi í vatni eða vötnum á félagssvæðinu. Veiði eða arði af henni skyldi jafna eftir veiðimagni eða áætluðu veiðimagni jarðanna og skyldi í því efni hafa hliðsjón af veiðiskýrslum undanfarinna 10 ára, ef til væru.

 

Árið 1957 voru sett ný heildarlög um lax- og silungsveiði, nr. 53/1957. Að því er varðar veiðifélög sérstaklega var ákvæðum um niðurjöfnun veiði og skiptingu arðs í veiðifélögum breytt. Horfið var frá þeirri reglu, sem var í eldri lögum, að við niðurjöfnun og skiptingu arðs skyldi miðað við veiðireynslu á jörðum tiltekin ár aftur í tímann. Þess í stað var litið til þriggja atriða, þ.e. aðstöðu við netaveiði og stangveiði á jörð, landlengdar jarðar að veiðivatni og hrygningar- og uppeldisskilyrða fisks á jörð.

 

Með lögum nr. 38/1970 (sbr. endurútgefin lög nr. 76/1970) urðu m.a. breytingar á félagslegu skipulagi veiðimála. Þannig voru fiskiræktarfélög lögð niður enda höfðu þau ekki náð þeirri hylli og útbreiðslu sem vænst var þegar ákvæði um þau voru leidd í lög. Þá voru veiðifélög gerð að skylduaðildarfélögum. Samkvæmt því skyldu veiðifélög starfa við öll fiskihverfi landsins, m.a. á afréttum, þar sem slík félög gátu náð yfir fleiri en eitt fiskihverfi eftir aðstæðum. Var þannig ætlun löggjafans að breyta því fyrirkomulagi að veiðifélög störfuðu við sum fiskihverfi en ekki önnur enda var stjórn og rekstur veiðimála í góðu lagi þar sem veiðifélög störfuðu.

 

Árið 1929 voru sett lög um fiskiræktarfélög, nr. 6/1929. Með lögunum var stofnun fiskiræktarfélaga heimiluð. Heimildin var veitt eigendum veiðiréttar í sama fiskihverfi. Til fiskiræktar voru í lögunum taldar hvers konar aðgerðir sem ætla mætti að sköpuðu eða ykju fiskimagn vatna, svo sem klak, innflutningur fiskseiða, friðun á fiski og eyðing sels og annars veiðivargs. Slík ákvæði voru í lögum til ársins 1970 er þau voru lögð niður sem áður segir.

 

Löggjöf á þessu réttarsviði var loks tekin til heildarendurskoðunar árið 2006 og þá lögtekin fimm lagafrumvörp þar sem eldri löggjöf var skipt upp í fimm samstæða flokka., þ.á m. lög nr. 61/2006 um lax og silungsveiði. Þar voru m.a. tekin upp ákvæði um markmið og ákveðið að Landbúnaðarstofnun (nú Fiskistofa) skyldi fara með tiltekna stjórnsýslu á þessu sviði. Þar er nú einnig að finna ákvæði um að ákvarðanir félagsfunda eða félagsstjórnar veiðifélags séu nú kæranlegar til Fiskistofu sem getur fellt þær úr gildi og veiðifélögum hefur auk þess verið gert skylt að taka upp í samþykktir sínar ýmis ákvæði sem ekki þurfti áður í því skyni að gera rekstur og ákvarðanatöku veiðifélaga skýrari og skilvirkari. Tilhögun atkvæðisréttar hefur einnig verið breytt en að því verður nánar vikið síðar.[1] 

 

2.

Skilgreining, markmið og starfsemi.

Samkvæmt 3. gr. lax- og silungsveiðilaga er veiðifélag skilgreint sem félag allra veiðiréttarhafa í sama fiskihverfi, veiðivatni eða landsvæði, sbr. 38. gr., en í þeirri grein eru umdæmi veiðifélaga nánar skilgreind.

 

Samkvæmt 1. gr. laganna er markmið þeirra að kveða á um veiðirétt í ferskvatni og skynsamlega, hagkvæma og sjálfbæra nýtingu fiskstofna í ferskvatni og verndun þeirra. Í því skyni að ná þessum markmiðum er mönnum skylt að hafa með sér félagskap um skipulag veiði í hverju fiskihverfi. Um þetta eru nánari reglur í 37. gr. laganna. Segir í greininni að hlutverk veiðifélaga séu m.a. eftirfarandi:

 

a. að sjá til þess að reglum laga þessara og samþykktum viðkomandi félags um veiðistjórnun og veiðiaðferðir sé framfylgt á félagssvæðinu,

b. að stunda fiskrækt á félagssvæðinu, eftir því sem þörf krefur, til að tryggja vöxt og viðgang fiskstofna og sjálfbæra nýtingu þeirra,

c. að skipta veiði eða arði af veiði milli félagsmanna í samræmi við rétt þeirra,

d. að ráðstafa rétti til stangveiði í fiskihverfi í heild eða að hluta með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi, en þó þannig að gætt sé markmiða laganna um sjálfbæra nýtingu,
e. að hafa að öðru leyti með höndum verkefni þau sem því eru falin í lögunum og varða framkvæmd þeirra.

 

Varðandi c. lið 37. gr. skal tekið fram að samkvæmt 5. gr. lax- og silungsveiðilaga fylgir eignarlandi hverju veiðiréttur í vatni eða fyrir því landi. Vegna eðlis þessara réttinda og réttinda annarra sem kunna að eiga veiðirétt í sama vatni getur eigandi veiðaréttar þó ekki veitt að vild úr vatni sínu. Þvert á móti þarf hann eftir stofnun veiðifélags að sætta sig við að félagið taki til allrar veiði og að öllum sé óheimilt að veiða í vatni frá félagssvæðinu nema samkvæmt heimild frá félaginu. Í e. lið 37. gr. er fjallað um önnur verkefni sem getið er í lögunum. Hér er t.d. átt við III. og IV. kafla laganna þar sem gert er ráð fyrir að veiðifélög komi að stjórnun veiði og fyrirmælum um veiðitæki og veiðiaðferðir, t.d. að setja reglur um veiðitíma og veiðitakmarkanir á tilgreindum fisktegundum í einstökum veiðivötnum. Veiðifélög setja ennfremur reglur á félagssvæðum sínum um möskvastærð silungaveiðineta, stangveiða í straumvatni og veiða í stöðuvatni og fleiri starfssvið veiðifélaga mætti hér nefna. Í sumum tilvikum er veiðifélag umsagnar- eða álitsgjafi, sbr. t.d. 2. og 3. mgr. 4. gr. (áður en landbúnaðaráðherra eða Fiskistofa setur reglur eða reglugerðir) og 1. og 2. mgr. 24. gr. (áður en Fiskistofa tekur ákvarðanir um friðanir gegn veiði) o.fl. Starfsemi veiðifélaga tekur einnig til skýrslugerðar, sbr. 3. mgr. 13. gr. 

 

Félagsmenn veiðifélags eru allir þeir sem skráðir eru veiðiréttarhafar á félagssvæðinu samkvæmt 12. gr. en um atkvæðisrétt þeirra fer samkvæmt 40. gr. Þá er rétt að taka fram að sjálfstæðar eignir veiðifélags tilheyra þeim fasteignum á félagssvæðinu sem veiðirétt eiga, og í arðskrárhlutfalli. Með þessu er áréttuð sú eignarréttarstaða í skiptum veiðifélags og félagsmanna að félagið sjálft er ekki handhafi neins konar eignarréttarheimilda, heldur teljast sjálfstæðar eignir félagsins tilheyra einstökum félagsmönnum og veiðiréttarhöfum í samræmi við hlutdeild þeirra í félaginu á grundvelli arðskrár.

 

3.

Skipulag, stjórn og atkvæðisréttur.

Í 39. gr. lax- og silungsveiðilaga er vikið að stofnun veiðifélags. Ljóst er að ákvæðið gerir ráð fyrir aðalfundum í félaginu og gert er ennfremur ráð fyrir að tiltekin lágmarksákvæði skuli vera í samþykktum um félagsmálefni. Þar á m.a. að kveða á um verkefni félagsins, skipun og starfssvið félagsstjórnar, málsmeðferðarreglur, reikninga félagsins og endurskoðun. Ennfremur á þar að geta um meðferð arðs og greiðslu kostnaðar af starfsemi félagsins. Samþykktir eru staðfestar af Fiskistofu og birtar í B-deild Sjórnartíðinda.

 

Í lögunum er gengið út frá því að skipulag og stjórn veiðifélags sé með þeim hætti sem tíðkast í sambærilegum félögum á fjármálasviði. Þannig fer aðalfundur með æðstu stjórn félagsins en aukafundi skal halda ef félagsstjórn sér ástæðu til eða ef ¼ félagsmanna æskir þess og tilgreinir fundarefni. Á milli aðalfunda fer félagsstjórn með málefni félagsins. Hún er kosin á aðalfundum og fer með flest verkefni félagsins milli aðalfunda. Hún getur fengið menn sér til aðstoðar við framkvæmd einstakra starfa, formaður stjórnar er fulltrúi félagsins út á við og hefur umsjón með störfum félagsins og fjárreiður.

 

Veiðirétthafi er sá einstaklingur sem á hverjum tíma fer með rétt fasteignar til veiði. Fiskistofa skal ákveða umdæmi veiðifélags að höfðu samráði við veiðiréttarhafa á væntanlegu félagssvæði. Á félagssvæði veiðifélags fylgir eitt atkvæði hverri jörð sem veiðirétt á í samræmi við ákvæði laganna. Hið sama gildir um veiðifélag sem einungis tekur til veiðivatna á afréttum í þjóðlendu. Með jörð í framangreindum skilningi er átt við þær jarðir, þar á meðal eyðijarðir, sem fullnægðu skilyrðum laga til að teljast lögbýli við gildistöku eldri jarðalaga, nr. 65/1976, sbr. 1. mgr. 40. gr. lax- og silungsveiðilaga. Um málefni sem ekki er kveðið sérstaklega á um í lögum eða samþykktum félagsins ræður afl atkvæða. Þó segir í 7. mgr. 40. gr. laganna að sé lagt fyrir fund í veiðifélagi að ráðast vegna starfsemi félagsins í framkvæmdir, sem hafa fjárútlát í för með sér er nema a.m.k. 25% af tekjum félags af veiði á því starfsári, geti hver félagsmaður krafist þess að ákvörðun ráðist með greiðslu atkvæða er hafi vægi í samræmi við arðskrá félagsins. Gildir þá hver eining í arðskrá sem eitt atkvæði. Í samþykktum veiðifélags er heimilt að ákveða að regla þessi um atkvæðagreiðslur gildi í fleiri tilgreindum tilvikum sem varða ákvarðanatöku í veiðifélagi. Hér er sem sagt um undantekningu frá meginreglu 1. mgr. 40. gr. (eitt atkvæði fylgi hverri jörð sem á veiðirétt) sem gengur út á að eigi að ráðast í framkvæmdir á vegum félagsins af tiltekinni stærðargráðu geti hver félagsmaður krafist þess að ákvörðun ráðist með greiðslu atkvæða er hafi vægi í samræmi við arðskrá félagsins. Þessari reglu ber að beita með málefnalegum hætti þannig að tilgangi hennar verði náð.[2]

 

Þá er, eins og áður segir, gert ráð fyrir að í samþykktum veiðifélags sé heimilt að ákveða að sama regla um atkvæðagreiðslur gildi í fleiri tilvikum sem varða ákvarðanatöku á vettvangi veiðifélags.

 

4.

Eignir veiðifélags, arðskrár og ábyrgð á skuldbindingum.

Sjálfstæðar eignir veiðifélags tilheyra þeim fasteignum á félagssvæðinu sem veiðirétt eiga og í arðskrárhlutfalli, sbr. 6. mgr. 37. gr. lax- og silungsveiðilaga. Samkvæmt þessu virðast veiðifélög ekki geta átt neinar sjálfstæðar eignir.

 

Samkvæmt 41. gr. er veiðifélagi skylt að láta gera skrá er sýni hluta þann af veiði eða arð af veiði sem koma skal í hlut hverrar fasteignar, lögaðila eða einstaklings er veiðirétt á í vatni á félagssvæði. Þá skal við niðurjöfnun veiði eða úthlutun arðs m.a. taka tillit til aðstöðu til netaveiði og stangveiði, landlengdar að veiðivatni, vatnsmagns og stærðar vatnsbotns og loks hrygningar- og uppeldisskilyrða fisks. Ýmis ákvæði eru í lögunum til að ákveða arðskrá en meginreglan er að atkvæði 2/3 hluta allra atkvæðisbærra félagsmanna þarf til samþykktar henni. Ef arðskrá er ekki samþykkt þarf að ákveða hana með matsgerð.

 

Kostnað af starfsemi veiðifélags skulu félagsmenn greiða í því hlutfalli sem þeir taka arð, sbr. 1. mgr. 42. gr. lax- og silungsveiðilaga. Í greinargerð sem fylgdi frumvarpi til laganna segir að sú skipan sé í góðu samræmi við meginreglur íslensks réttar um óskipta sameign.[3]

 

Fjárráðstafanir á vegum veiðifélaga geta verið umtalsverðar. Þar má m.a. nefna samninga um gerð mannvirkja svo sem veiðihúsa og aðgengi að þeim, gerð fiskivega og fleira í þeim dúr. Samningar um þessi atriði fara fram í nafni veiðifélaganna sjálfra. Því er eðlilegt að spurt sé hvort og með hvaða hætti félagsmenn beri ábyrgð á félagsskuldbindingunum. Hér er í fyrsta lagi þess að geta að félagið er fjárhagslegt persónulegt félag, sbr. nánar kafla II.5. Það bendir ótvírætt til þess að félagsmenn beri fulla, ótakmarkaða og solidariska ábyrgð á félagsskuldbindingum. Þetta er einnig út af fyrir sig meginreglan um sérstaka sameign. Hér verður einnig að hafa í huga að sjálfstæðar eignir veiðifélags tilheyra þeim fasteignum á félagssvæðinu sem veiðirétt eiga, og í arðskrárhlutfalli. Veiðifélag á því ekki viðkomandi eignir heldur tilheyra þær einstökum félagsmönnum. Þetta þýðir að félagið á engar eignir sem geta verið andlag fullnustugerða þó að þær séu þinglýstar á félagið eða skráðar heldur einstakir félagsmenn.[4]  Þetta merkir m.a. að þýðingarlaust er að hefja aðför á hendur félaginu heldur verður að snúa sér að einstökum félagsmönnum. Þeir félagsmenn sem kunna að innleysa viðkomandi kröfur eiga síðan endurkröfurétt á aðra í þeim mæli og eftir því hlutfalli sem þeir taka arð í félaginu.

 

Framangreind skipan breytir þó engu um það að það er stjórn veiðifélags sem ráðstafar umræddum eignum ef því er að skipta. Hún breytir heldur engu um það að veiðifélag getur eftir atvikum átt aðild að dómsmálum, einnig þó að kröfur á hendur því kunni að beinast að eignum þess, sbr. t.d. Hrd. í máli 443/2005. 

 

5.

Eðli veiðifélaga.

Áður en lengra er haldið verður að greina hvers konar réttarfyrirbrigði veiðifélög eru. Greining af því tagi er nauðsynleg þar eð hún gefur vissar vísbendingar um hvaða meginreglur gildi um þau og hvernig túlka beri þær heimildir sem um þau gilda. 

 

Félögum er oft skipt upp í fjárhagsleg félög og ófjárhagsleg. Einkenni ófjárhagslegra félaga er að ekki er stefnt að fjárhagslegum ávinningi með starfsemi þeirra, hvorki fyrir félagið né félagsmenn þess. Ófjárhagsleg félög eru mörg og ólík og um þau hefur ekki verið sett heildarlöggjöf á Íslandi. Hér má t.d. nefna almenn félög (eða samtök), sem eru skipulagsbundin, varanlegur félagsskapur tveggja eða fleiri aðila sem stofnað er til með einkaréttarlegum löggerningi í því skyni að vinna að ófjárhagslegum tilgangi. Sem dæmi má nefna stjórnmálafélög, íþróttafélög, skákfélög, stéttarfélög og menningarfélög.[5]

 

Fjárhagsleg félög eru félög sem keppa að fjárhagslegum ávinningi samkvæmt markmiði sínu eða starfsemi. Fjárhagsleg félög má flokka í persónuleg félög, fjármagnsfélög og gagnkvæm félög. Til persónulegra félaga teljast félög þar sem þátttaka í félagi er persónulegs eðlis, t.d. þannig að vinnuskylda hvíli á félagsmönnum. Sem dæmi um persónuleg félög má nefna sameignarfélög, samlagsfélög, evrópsk fjárhagsleg hagsmunafélög, óvirk félög og samvinnufélög. Einkenni fjármagnsfélaga er að í þeim er myndað stofnfé til að standa undir rekstri félagsins með þeim hætti að félagsmenn inna einungis af hendi tiltekna fjárhæð í þágu tilgangs félagsins, sem síðan ræður úrslitum um réttindi þeirra og skyldur. Áhætta félagsmanna er takmörkuð við þá fjármuni sem þeir hafa innt af hendi til félagsins og félagsaðildin krefst hvorki sérþekkingar né persónulegrar þátttöku í starfi félagsins. Hlutafélög, einkahlutafélög og samlagshlutafélög teljast til fjármagnsfélaga. Þriðja tegund fjárhagslegra félaga eru gagnkvæm félög eða gagnkvæm ábyrgðar- og tryggingafélög. Einkaréttarlegir lífeyrissjóðir, bátaábyrgðarfélög og Samvinnutryggingar gt. eru og voru dæmi um gagnkvæm félög.[6]

 

Ekki er fyllilega ljóst í hvaða félagaformi veiðifélög voru í upphafi meðan fullkomið frelsi ríkti til stofnunar þeirra. Þó má ætlað að þau hafi verið stofnuð af eigendum veiðiréttar til að nýta sem best afrakstur hans. Þannig má ætla að hér hafi verið um fjárhagsleg félög að ræða með þeim hætti að þátttakan var persónulegs eðlis enda tæpast unnt að gera ráð fyrir því að aðrir ættu aðild en eigendur veiðiréttar á því svæði sem félag tók til. Sú ákvörðun löggjafans að gera veiðifélög smám saman að lögbundnum skyldufélagasamtökum um sérstaka sameign hefur e.t.v. ekki breytt eðli þeirra neitt verulega.

 

Þátt fyrir skylduaðild að veiðifélögum og einstök ófrávíkjanleg ákvæði lax- og silungsveiðilaga er það þó þannig að stofnun, skipulag og starfræksla veiðifélaga fer í verulegum atriðum fram á forsendum félagaréttar. Þetta á t.d. við ákvæði samþykktanna að því leyti sem þau ákvæði teljast ekki lögbundin, starfsemi stjórnar, félagafundi o.fl. Bent hefur verið á að þau hafi nú augljósa samstöðu með húsfélögum, sbr. lög um fjöleignarhús nr. 26/1994 og vatnafélögum skv. vatnalögum nr. 15/1923.

 

Miðað við tilgang veiðifélaga, aðild það þeim og önnur atriði er eðlilegt að telja þau til fjárhagslegra félaga enda er markmið þeirra m.a. að kveða á um skynsamlega, hagkvæma og sjálfbæra nýtingu fiskstofna. Þá er og augljóst að aðild að þeim tengist einungis rétthöfum á viðkomandi svæði. Því er um félag að ræða sem tekur mikið mið af sameiginlegum hagsmunum þeirra.

 

6.

Skylduaðild.

Hér er ekki ástæða til að rekja í löngu máli að hvaða marki stjórnarskráin heimilar að ákveða megi að skylduaðild sé að veiðifélögum en þó skal bent á að í 2. mgr. 74. gr. hennar segir:

 

Engan má skylda til aðildar að félagi. Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.

 

Forsendur lax- og silungsveiðilaganna um skylduaðild voru þær að vegna réttinda annarra væri hún bráðnauðsynleg. Talið var að hagsmunir viðkomandi aðila væru svo nánir og samofnir að nauðsynlegt hefði reynst að leggja á þá skyldu til að virða hagsmuni hvors eða hvers annars með því að standa að sameiginlegu félagi í þessu skyni.[7] Hafa ber einnig í huga að ýmis sérstök ákvæði lax- og silungsveiðilaga sem gilda fyrir veiðifélög eru óundanþæg þannig að veiðifélag getur ekki og má ekki kveða á um aðra skipan en þar er ákveðin. 

 

Samkvæmt Mannréttindasáttmála Evrópu ríkir félagafrelsi en rétturinn til að standa utan félaga er þar ekki berum orðum verndaður. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur þó komist að þeirri niðurstöðu að 11. gr. sáttmálans verndi einnig réttinn til að standa utan félaga en með vissum skilyrðum þó, einkum þeim að hún þarf að stuðla að þjóðaröryggi, almannaheillum, til að firra glundroða eða glæpum, til verndar siðferði og heilsu eða réttindum og frelsi. Meðalhófsreglu skal jafnan gætt.

 

Þegar því er svarað hvort hið íslenska fyrirkomulag um skylduaðild að veiðifélögum sé nauðsynlegt í lýðræðisþjóðfélagi í skilningi 2. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmálans er að einhverju marki unnt að hafa hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem fram komu um það efni í dómi Mannréttindadómstólsins í máli Chassagnou o.fl. gegn Frakklandi frá 29. apríl 1999. Nauðsynlegt er þó þegar að benda á þann mun að sá dómur laut að skylduaðild að félagi um veiði villtra landdýra. Nýting eins veiðiréttarhafa, t.d. að laxveiðiá, þar sem villtur stofn fer um hefur önnur og meiri áhrif á sambærilega nýtingarmöguleika annars veiðiréttarhafa við sama veiðivatn heldur en nýting fleiri fasteignaeigenda á stofnum landdýra sem á og um land þeirra fara. Á Íslandi er ekki skylduaðild að félögum um veiði landdýra og umræða í þá veru óþekkt, enda engin marktæk efnisleg rök sem knýja á um slíka skylduaðild. Líta verður til þessarar staðreyndar þegar dómur í máli Chassagnou o.fl. gegn Frakklandi er skoðaður andspænis skylduaðildarfyrirkomulagi lax- og silungsveiðilaga.[8]

 

Þá verður jafnframt að horfa til þess að lax- og silungsveiðilög gera öllum veiðiréttarhöfum hérlendis skylt að vera aðilar að veiðifélagi, að því gefnu að þeir séu tveir eða fleiri í tilteknu fiskihverfi. Í því sambandi skiptir engu máli hvort um er að ræða opinbera aðila eða einkaaðila, hvar á landinu veiðiréttarhafar eru búsettir eða hver stærð landareigna er. Skyldan er þannig skilyrðislaus öndvert við aðstöðuna í máli Chassagnou o.fl. gegn Frakklandi þar sem ákveðin sjónarmið, þ.e. eiginleikar veiðiréttarhafa og lega og stærð landareignar, réðu því hvort aðilar voru skyldaðir til aðildar að veiðifélagi.[9]

 

Loks skal á það bent að ekki er kunnugt um það hérlendis að einstakir veiðiréttarhafar hafi mótmælt skylduaðild að veiðifélögum á þeim grundvelli að þeir séu alfarið andsnúnir veiðum af siðferðilegum ástæðum. Unnt er að fullyrða að allur meginþorri fólks er hlynntur því að fiskstofnar í ferskvatni hér á landi séu verndaðir og nýttir á skynsamlegan, hagkvæman og sjálfbæran hátt, eins og markmiðsyfirlýsing lagafrumvarps þessa hljóðar.[10]

 

Á þessum grundvelli var talið að ákvæði lax- og silungsveiðilaga um skylduaðild að veiðifélögum stæðust ákvæði mannréttindasáttmálans. Því til viðbótar hefur verið bent á að þar sem veiðifélög hefðu ekki verið starfandi hefði ríkt skipulagsleysi og fiskrækt vart verið hugsanleg vegna skorts á samstarfi. Slíkt ástand var einnig talið geta leitt til þess að einstakir veiðibændu kæmu ár sinni vel fyrir borð vegna skipulagsleysis á kostnað annarra. 

 

Samkvæmt þessu er hér lagt til grundvallar að reglur lax- og silungsveiðilaga standist 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar og Mannréttindasáttmála Evrópu. Engu að síður er eðlilegt að líta svo á að stjórnarskrárvarinn réttur manna til að standa utan félaga setji heimildum veiðifélaga skorður, eins og nánar er rakið hér á eftir.

 

7.

Umboðið.

Umboð til að gera löggerninga á vegum veiðifélags við þriðja mann er fyrst og fremst falið stjórn félagsins. Einnig er hugsanlegt að tilteknum manni sé falið prókúruumboð. Loks er hugsanlegt að enn öðrum sé falið umboð, t.d. framkvæmdastjóra. Stjórn félagsins nýtir umboð með því að rita firma félagsins. Það umboð er vítt og verður ekki takmarkað nema með þeim hætti að firma verði eigi svo ritað svo gilt sé, nema fleiri en einn af félagsmönnum geri það, sbr. 14. gr., sbr. einnig 18. gr. laga nr. 42/1903 um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð. Félagsstjórnin kemur annars fram út á við fyrir hönd félags og ritar firma þess. Venjulega nægir að sá meirihluti stjórnarmanna riti firma sem er nægjanlegur samkvæmt lögum og samþykktum til að taka löglega ákvörðun í málefnum félagsins.

Í rétti til ritunar firma felst réttur til að koma fram fyrir hönd félagsins við samninga og gerð annarra löggerninga svo og gagnvart dómstólum og stjórnvöldum þar sem nafnritun á vegum félagsins er nauðsynleg. Þetta er venjulega gert á þann hátt að þeir sem rita firma skrifa nafn fyrirtækisins og sitt eigið nafn þar undir án þess að taka þurfi fram að slíkt sé gert samkvæmt umboði. Það sem skilur réttinn til þess að rita firma frá öðrum tegundum umboða er fyrst og fremst umfang þess. Í því felst umboð til þess að binda félagið í sérhverju tilliti.

 

Hugsanlegt er að einhverjum hafi verið veitt prókúruumboð á vegum félagsins. Prókúruhafi hefur þá umboð til að annast allt það sem snertir rekstur atvinnu hans og rita firmað, sbr. 25. gr. firmalaga. Í einstökum tilvikum er það álitamál hvaða löggerningar „snerta rekstur atvinnu“ félags. Ljóst er þó að umboðið er vítt því að segja má um marga löggerninga að þeir falli eða geti fallið undir það að snerta rekstur atvinnu veiðifélags. Prókúruumboð nær samkvæmt þessu t.d. til samninga um viðgerð og viðhald á veiðihúsi húsi og tækjum þess, greiðslu launa o.s.frv. Prókúruumboð nær hins vegar ekki til þess að selja eða veðsetja fasteignir enda er prókúruumboð berum orðum takmarkað að því leyti í 25. gr. firmalaga.

 

Einnig er hugsanlegt að framkvæmdastjóri sé ráðinn. Hefur hann þá umboð til að gera ýmsa gerninga sem talist geta fallið innan daglegs reksturs.

 

Samantekið má segja að umboðið til ritunar firmans sé víðast en hin tvö séu takmörkuð með þeim hætti sem áður var lýst. Ekkert þeirra má takmarka umfram það sem segir í lögum svo gilt sé gagnvart þriðja manni. Á hinn bóginn eru þessi umboð ekki víðari heldur en greinir í lögunum. Umboð til ritunar firmans getur því aldrei orðið víðara í veiðifélögum en leiðir af réttri skýringu 1. mgr. 37. gr. lax- og silungsveiðilaga, sem fjallar um hlutverk veiðifélaga, eða einstökum ákvæðum laganna. Samsvarandi gildir um hin tvö umboðin að því viðbættu að þau eru mun þrengri eins og rakið hefur verið.

 

Niðurstaðan af þessum hugleiðingum er sú að viðsemjandi veiðifélags getur unnið rétt gagnvart félaginu þótt heimild stjórnar eða annarra umboðsaðila félags hafi ekki verið fyrir hendi að því tilskyldu að viðkomandi umboðsaðili hafi haldið sig innan umboðs síns. Frá þessu er sú undantekning að viðsemjandi vinnur því aðeins slíkan rétt að hann hafi verið grandlaus um heimildarbrestinn.

 

Álitamál er hvaða afleiðingar það hefur fari stjórn út fyrir umboð sitt. Þó að stjórn taki ákvörðun sem telst bindandi gagnvart þriðja manni getur félagsmaður, sem telur á sér brotið, engu að síður sótt endurkröfu / skaðabótakröfu á hendur þeim stjórnarmönnum sem stóðu að viðkomandi samþykkt. Hinu sama gegnir fari félagsfundur út fyrir heimildir sínar.[11]

 

8.

Samantekt.

Áður en þeirri grundvallarspurningu er svarað hverjar séu starfsheimildir veiðifélaga utan lögboðinna tilvika eða tilvika sem liggja þar á mörkum verður að hafa í huga þau atriði sem rædd hafa verið í fyrri köflum. Aðalatriðin eru þessi varðandi fjárhagslegar ráðstafanir:

 

·        Skylduaðild að veiðifélögum þýðir að meta verður allar heimildir félagsfunda og stjórnar út frá ströngum mælikvarða hvort sem þær varða eðli heimildar eða umfang. Þetta gildir sérstaklega ef félagsaðili mótmælir tiltekinni ráðstöfun. Þetta er afleiðing þess að maður verður ekki skyldaður til að gerast aðili að félagi nema á tilteknum ströngum forsendum.

 

·        Hinar ríku persónulegu ábyrgðarreglur félagsmanna og það fyrirkomulag sem lögin hafa að geyma um eignir veiðifélaga benda einnig til hins sama, þ.e. ekki séu forsendur fyrir neinum félagsheimildum sem fara út fyrir lögákveðin tilvik eða liggja þar á mörkum.

 

Sem dæmi um þetta má nefna að stjórn veiðifélags samþykkti að veiðihús mætti vera opið að vetrarlagi fyrir veitingarrekstur og skemmtihald. Slíkt fengist væntanlega ekki staðist með hliðsjón af tilgangi veiðifélaga og ábyrgðarreglum (sjá nánar kafla III).  

 

III.

Hver eru mörkin milli lögbundinna og annarra verkefna veiðifélaga samkvæmt lax- og silungsveiðilögum?

1.

Almenn atriði.

Að framan er rakið að í lax- og silungsveiðilögum er gert ráð fyrir því að veiðifélög gegni tilteknum verkefnum lögum samkvæmt. Álitamál kann að vera hver þessi verkefni nákvæmlega eru. Í því sem hér fer á eftir verður greint milli nokkurra tilvika. Í fyrsta lagi verður tekið til skoðunar hvaða verkefni hvíli beinlínis og ótvírætt á veiðifélögum samkvæmt lax- og silungsveiðilögum (kafli III.2). Í öðru lagi verður athugað hvaða önnur verkefni, sem ekki eru beinlínis talin upp í lögunum, kunna að heyra undir verksvið veiðifélaga með réttri skýringu á lögunum (kafli III.3). Í þriðja lagi verður fjallað um það að hvaða marki veiðifélög geta sinnt verkefnum sem falla utan lögbundins verksviðs þeirra með samþykki allra félagsmanna (kafli III.4) og í fjórða lagi er vikið að því álitaefni að hvaða marki veiðifélagi er heimilt að nýta eignir sínar utan lögbundins veiðitíma (kafli III.5). Í IV. kafla verður vikið að samkeppnislegum álitamálum.

 

2.

Hvaða verkefni hvíla beinlínis á veiðifélögum samkvæmt lax- og silungsveiðilögum?

Ekki er í lax- og silungsveiðum kveðið á um það með tæmandi hætti hvaða verkefnum veiðifélög sinna. Helstu verkefna veiðfélaga er þó getið í 37. gr. lax- og silungsveiðilaga, eins og áður segir, sbr. kafla II.2.

 

Líta verður svo á að veiðfélagi sé skylt að sinna öllum þeim verkefnum sem þarna eru talin upp. Að jafnaði er erfitt í lögum að kveða með tæmandi hætti á um verkefni af þessu tagi. Þess vegna er skiljanlegt að löggjafinn hafi ákveðið að upptalningin sé ekki tæmandi enda gerir orðalag þess ráð fyrir því eins og áður hefur verið getið.

 

Í 1. mgr. 37. gr. lax- og silungsveiðilaga segir að vísu að hlutverk veiðifélaga „[sé] m.a. (auðkennt hér) eftirfarandi [...].“ Við teljum að þetta orðalag beri að skýra með hliðsjón af því að fjallað er um heimildir veiðifélaga á ýmsum öðrum stöðum í lögunum en í 37. gr. Þegar þessum heimildum sleppir teljum við hins vegar að heimildir stjórnar séu takmarkaðar samkvæmt fyrrgreindum sjónarmiðum í kafla II.8.  

 

Þess ber loks að geta að í d. lið 3. mgr. 39. gr. er gert ráð fyrir að í samþykktum veiðifélags séu ákvæði um „verkefni félagsins.“ Fyrirmynd að samþykktum hefur verið sett með reglugerð 1024/2006. Samþykktir veiðfélaga skulu staðfestar af Fiskistofu og birtar í B-deild Stjórnartíðinda. Enginn vafi er á því að okkar mati að heimildir í samþykktum verða að vera innan þess ramma sem skylduaðild að veiðifélagi setur og áður er rakin. Staðfesting Fiskistofu er trygging fyrir því að svo sé auk þess sem máli skiptir hvort andmæli gegn umræddum ákvæðum í samþykktunum hafi komið fram við setningu þeirra. Þetta má einnig orða þannig að ekki sé unnt til að skylda menn til aðildar að félögum og taka á sig þá persónulegu ábyrgð sem því fylgir nema innan þeirra marka sem lög ákveða eða sem a.m.k. styðjast við sjónarmið sem má fyllilega jafna til lögmæltra atvika. Af þessu má ráða að verkefni veiðifélags eru ekki einungis lögákveðin heldur er miðað við að félagsmenn geti að nokkru ráðið því sjálfir hver verkefnin eru.

Almennt má ætla að heimildir sem styðjast við ákvæði í félagssamþykktum og ganga lengra en hin lögákveðnu tilvik segja til um kunni að veita rýmri heimildir fyrir veiðifélag heldur en ef slík ákvæði væru alls ekki. Mörkin eru þó óljós í þessu efni.

 

3.

Hvaða önnur verkefni, sem ekki eru beinlínis talin upp í lax- og silungsveiðilögum, kunna að heyra undir verksvið veiðifélaga?

Það eru fyrst og fremst ákvæði lax- og silungsveiðilaganna sem ákvarða hver séu verkefni veiðifélaga. Engu að síður er beinlínis ráð fyrir því gert í lögunum, eins og áður segir, að verkefnin geti verið fleiri. Þeirri spurningu hvaða önnur verkefni, sem ekki eru beinlínis talin upp í lögunum, en geta fallið undir verksvið veiðifélaga, verður ekki svarað með einhlítum hætti, sem átt getur við í öllum þeim tilvikum sem á reynir. Við mat í þessum efnum er þó að okkar áliti til nokkurra atriða að líta, sem nánar eru rakin hér að neðan.

 

Veiðiréttarhöfum í hverju fiskihverfi ber skilyrðislaus skylda til þess að hafa með sér félagsskap um veiði. Þetta hefur þýðingu þegar metið er að hvaða marki veiðifélögum er almennt heimilt að stunda annan rekstur en mælt er fyrir um í lax- og silungsveiðilögum. Ástæðan er sú að ákvæði 1. málsl. 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar tryggir réttinn til að standa utan félaga, sbr. nánar kafla III.6. Skylda til þátttöku í veiðifélagi byggist á þeirri undantekningu sem takmarkar réttinn til að standa utan félags.

 

Augljóst er að við skýringu á því hvaða verkefni veiðfélagi er heimilt stunda ber að líta til þess að 2. málsl. 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar er í eðli sínu undanteking frá meginreglunni um rétt manna til að standa utan félags. Af þeim sökum ber að skýra þröngt ákvæði lax- og silungsveiðilaga sem fela í sér skyldu til að stofna veiðifélög. Ástæðan er sú að ákvæðin eru talin fela í sér eins konar takmörkun á samningsfrelsi, auk þess sem þau fari gegn meginreglunni um félagafrelsi.[12]

 

Með hliðsjón af framangreindu má slá því föstu að verkefni veiðfélags og sú starfsemi sem þar fer fram verði að vera í nánum efnislegum tengslum við lögbundið hlutverk félagsins. Af þessu leiðir að þótt verkefni veiðifélaga séu ekki nákvæmlega tilgreind í lax- og silungsveiðilögum setja fyrrgreindar lagaheimildir því skorður hvaða verkefnum veiðifélag sinnir.

 

Til stuðnings framangreindum skýringarkosti skal á það bent að með lax- og silungsveiðilögum var ætlunin að auka enn frekar en nú er réttaröryggi einstakra félagsmanna í veiðifélögum, m.a. með því að fjölga þeim atriðum sem veiðifélögum er gert skylt að taka upp í samþykktir sínar með það að markmiði að gera rekstur og ákvarðanatöku á vettvangi veiðifélaga skýrari og skilvirkari.[13]Í frumvarpi til laganna var tekið fram að af hinu aukna hlutverki veiðifélaga leiddi að gera yrði ríkar kröfur til vandaðrar málsmeðferðar af þeirra hálfu enda fjölluðu þau í störfum sínum um þýðingamikil réttindi manna og skyldur, þar á meðal stjórnarskrárvarin eignarréttindi. Því væri kveðið svo á að í samþykktum skyldu vera málsmeðferðarreglur. Í reglugerð, sem sett yrði um veiðifélög, yrðu nánari fyrirmæli um útfærslu samþykktanna, þ.m.t. málsmeðferðarreglur þar sem hliðsjón yrði höfð af grundvallarreglum stjórnsýsluréttarins.[14]Þau ákvæði er nú að finna í 6. gr. reglugerðar nr. 1024/2006.

 

Við mat á heimildum veiðifélags til þess að sinna verkefnum, sem eru ekki beinlínis lögmælt, verður einnig að líta til þess að veiðifélag er fjárhagslegt, persónulegt félag. Þannig bera félagsmenn beina, ótakmarkaða og solidariska ábyrgð á skuldbindingum félagsins. Þetta rennir frekari stoðum undir þá niðurstöðu, sem að framan greinir, að meta verði út frá ströngum mælikvarða hvaða verkefni falli undir verksvið veiðifélaga með réttri skýringu á lax- og silungsveiðilögum.

 

Samkvæmt framangreindu verða þau verkefni, sem ekki eru beinlínis talin upp í lax- og silungsveiðilögum, að vera í nánum efnislegum tengslum við hið lögbundna hlutverk veiðifélaga. Þau sjónarmið gilda um samþykktir veiðifélaga og starfsemi þess að öðru leyti. Félagsmenn í veiðifélagi verða því ekki skyldaðir að lögum til þátttöku í verkefnum sem ekki eru í nánum efnislegum tengslum við hið lögbundna hlutverk veiðifélags.

 

Þegar metið er hvaða verkefni eru í nánum efnislegum tengslum við hið lögbundna hlutverk veiðifélaga verður huga að tilgangi með veiðifélögum. Allar götur frá 1886 hefur í lögum verið gert ráð fyrir veiðfélögum hér á landi, en það var fyrst árið 1970 að skylduaðild að þessum félögum var lögfest. Af þeirri lagasetningu, sem gilt hefur um veiðifélög, má ráða að tilgangurinn með veiðifélögum sé fyrst og fremst tvíþættur; annars vegar að vernda fiskistofna og hins vegar að gæta hagsmuna félagsmanna varðandi skiptingu á veiði og arð af henni. Þessi markmið sækja nú lagastoð til 1. gr. lax- og silungsveiðilaga, auk þess nýmælis sem felst í sjálfbærri nýtingu fiskstofna. Tilvist veiðifélaga stuðlar að því að umrædd markmið náist. Af þessu leiðir, að okkar mati, að verkefni veiðfélags verða að vera til þess fallin að stuðla að þessum markmiðum. Önnur verkefni sem ekki stuðla að þeim markmiðum, sem hér voru nefnd, teljast ekki vera í nánum efnislegum tengslum við hin lögbundnu verkefni veiðifélaga samkvæmt réttri skýringu á lax- og silungsveiðilögum.

 

Í lögum hefur aldrei verið nákvæmlega útlistað með hvaða hætti veiðifélögum beri að sinna verkefnum sínum, t.d. hvort og að hvaða marki þeim sé rétt að fjárfesta í mannvirkjum og tækjum. Við teljum þó ekki vafa undirorpið að veiðifélög hafa töluvert svigrúm í þessum efnum, enda sé þetta gert með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi. Þó að í lax- og silungsveiðilögum sé hvergi vikið að veiðihúsum og rekstri þeirra hefur lengi verið gert ráð fyrir tilvist þeirra, m.a. í lögum, sbr. t.d. lög nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga sem gera ráð fyrir veiðihúsum sem andlagi fasteignaskatts. Þetta er rökrétt þegar horft er til þess að veiðihús er nauðsynlegur þáttur í hagkvæmri nýtingu veiðiréttar á viðkomandi veiðisvæði. Þannig gæti einstakur félagsmaður ekki sett sig á móti því að veiðifélag léti reisa veiðihús í þessum tilgangi. Með sama hætti verður að telja að kaup á vélum og öðrum tækjum, sem nýtast í störfum veiðifélags og stuðla að því að markmið laganna náist, falli innan verksviðs félagsins. Það er svo aftur á móti álitaefni hversu viðamikil fjárfesting er heimil svo ekki sé farið út fyrir ramma laganna, hvort heldur í mannvirkjum eða tækjum, en nánar verður vikið að því hér á eftir.

 

Að okkar mati er það ekki einungis skilyrði að starfsemi veiðifélags teljist lögbundin eða í nánum efnislegum tengslum við lögbundið hlutverk þess, heldur verður einnig að setja umfangi starfseminnar skorður í ljósi beinnar, ótakmarkaðrar og solidariskrar ábyrgðar félagsmanna á skuldbindingum veiðifélagsins svo sem áður var vikið að. Í þeim efnum verður að miða við að ekki sé gengið lengra en nauðsynlegt er til þess að ná þeim tilgangi sem að er stefnt með hinni skyldubundnu starfsemi veiðifélaga. Hér gildir hið sama og áður er rakið að meta verður svigrúm veiðifélags til að skuldbinda félagsmenn samkvæmt ströngum mælikvarða. Sem dæmi má nefna að fjöldi stanga og skynsamleg arðsnýting á viðkomandi veiðisvæði hlýtur að koma til skoðunar og vera leiðarljós við mat þess hversu stórt veiðihús telst nauðsynlegt að reisa. Af þessu er ljóst að áhættusamar skuldbindingar, sem ekki eru að öllu leyti nauðsynlegar til þess að ná hinum lögbundna tilgangi veiðifélags, verða ekki með réttu lagðar á herðar félagsins og þar með félagsmanna.

 

Það leiðir svo af eðli málsins að veiðifélag getur ekki rýmkað lögboðið starfssvið sitt með því að semja við verktaka um rekstur einstakra þátta starfseminnar. Þannig væri veiðifélagi t.d. óheimilt að semja við verktaka um að hann tæki að sér rekstur veiðihúss utan lögbundins veiðitíma ef gert væri ráð fyrir að sá rekstur væri í víðtækara mæli en leiðir af lax- og silungsveiðilögum.

 

Í stuttu máli er niðurstaðan sú að veiðifélögum er heimilt að sinna þeim verkefnum sem berum orðum eru nefnd í lax- og silungsveiðilögum og öðrum verkefnum sem eru í nánum efnislegum tengslum við þessi verkefni og eru til þess fallin að stuðla að því að markmiðum laganna verði náð. Í þessu sambandi er veiðifélagi heimilt að fjárfesta í mannvirkjum og öðrum tækjum, enda verði talið að þær fjárfestingar séu til þess fallnar að ná þeim tilgangi sem að er stefnt með lögunum.

 

4.

Geta veiðifélög sinnt verkefnum, sem falla utan lögbundins verksviðs þeirra, ef félagsmenn eru allir samþykkir?

Áður er rakið eðli veiðifélaga sem lögbundins félagsskapar sem setja verður þröngar skorður. Sú spurning kann þó að vakna að hvaða leyti veiðifélögum sé heimilt að sinna verkefnum sem falla utan lögbundins verksviðs þeirra ef allir félagsmenn eru því samþykkir. Í lax- og silungsveiðilögum er gert ráð fyrir nánar tilgreindri starfsemi veiðifélaga, auk þess sem telja má að veiðifélögum sé heimilt að sinna ýmsum verkefnum, sem eru ekki beinlínis orðuð í lögunum, en samrýmast tilgangi laganna og eru í nánum efnislegum tengslum við lögbundið hlutverk veiðifélaga. Lax- og silungsveiðilög eru sá lagarammi sem markar starfsemi veiðifélaga. Líta verður svo á að þau ákvæði laganna, sem hér skipta máli, séu ófrávíkjanleg. Líta má á Hrd. 263/1998 (Litli-Langidalur) í þessu sambandi.

 

Jörðin Litli-Langidalur var frá árinu 1932 talin til tveggja matshluta í fasteignamati, Litli-Langidalur fremri og Litli-Langidalur ytri. Í fasteignamati árið 1970 var jörðin þó metin sem einn hluti, en því mati var breytt með millimati ári síðar. Veiðifélag var stofnað árið 1970 í kjölfar gildistöku laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði. Á þeim vettvangi var um það deilt hvort líta bæri á Litla-Langadal sem eitt eða tvö lögbýli og þar með hvort jörðinni bæri eitt eða tvö atkvæði í veiðifélaginu. Að virtum lögum þar sem hugtakið lögbýli var skilgreint var ekki talið að fasteignamat jarðar leiddi umsvifalaust til þess að litið yrði á hana sem lögbýli. Verðmat í fasteignamati væri aðeins einn þáttur þess að jörð yrði talin lögbýli í merkingu ábúðarlaga og laga um lax- og silungsveiði. Ekkert þótti fram komið um að Litli-Langidalur fremri hefði eftir 1941 fullnægt skilyrðum ábúðarlaga til þess að teljast lögbýli. Ekki hefði verið sýnt fram á að svo hefði verið við stofnun veiðifélagsins árið 1970. Hefði Litli-Langidalur þannig verið eitt lögbýli, bæði í reynd og samkvæmt því fasteignamati, sem þá gilti. Hæstaréttur tók fram: „Ákvæði lax- og silungsveiðilaga um atkvæðisrétt eru ófrávíkjanleg og skiptir þá engu, hvort félagar í veiðifélagi hafi áður samþykkt, að einhver þeirra skyldi njóta betri réttar en áskilinn er í lögunum.“ Engin skilyrði voru til þess að lögum á árinu 1970 eða síðar að ábúandi Litla-Langadals færi með tvö atkvæði. Fór jörðin því aðeins með eitt atkvæði.

 

Sakarefni þessa máls varðar einungis atkvæðisrétt og hefur því ekki beint gildi umfram það atriði. Hér er því hins vegar slegið föstu að samningar um atkvæðisrétt geti ekki breytt gildandi lögum þar að lútandi.

Í ljósi þess að veiðifélög eru lögbundin félög sem byggjast á alveg sérstökum sjónarmiðum, sem m.a. eru áréttuð í tilgangsákvæði 1. gr. lax- og silungsveiðilaga, er að okkar mati varhugavert að fullyrða að veiðifélögum sé heimilt að sinna öðrum verkefnum en lögbundnum, jafnvel þótt allir félagsmenn séu því samþykkir.

 

5.

Að hvaða marki er veiðifélagi heimilt að stunda rekstur í veiðihúsi félagsins utan lögbundins veiðitíma, t.d. hótel- og veitingarekstur?

Í kafla III.3 að framan var komist að þeirri niðurstöðu að veiðifélögum er heimilt að hafa þá starfsemi með höndum sem er í nánum efnislegum tengslum við lögbundið hlutverk þeirra. Í þessum kafla verður það sérstaka álitaefni tekið til skoðunar að hvaða marki veiðifélagi sé heimilt að stunda rekstur í veiðihúsi félagsins utan lögbundins veiðitíma, t.d. hótel- og veitingarekstur. Telja verður að það ráðist af því hvort sá rekstur verði talinn í nánum efnislegum tengslum við lögbundið hlutverk félagsins á grundvelli þeirra sjónarmiða sem áður eru rakin.

 

Við mat í þessum efnum verður að okkar áliti að líta til þess að hér getur verið um að ræða hagkvæma nýtingu húseignar í eigu veiðifélags. Telja verður almennt að bygging og rekstur veiðihúsa tengist lögbundnu hlutverki veiðifélaga. Þá er til þess að líta að um áratuga skeið hafa veiðifélög reist veiðihús sem verið hafa í eigu félagsmanna. Ætla má að með húsum þessum hafi verið stefnt að því að hámarka arð af viðkomandi veiðisvæði og þannig hámarka arð af eigninni til hagsbóta fyrir alla veiðiréttareigendur. Að okkar mati samræmist það hlutverki veiðifélags sem fjárhagslegs félags að leitast við að hámarka arð af eign sinni. Þar sem veiðihús verða eðli máls samkvæmt ekki nýtt af stangveiðimönnum nema hluta úr ári má almennt telja það eðlilegan þátt í nýtingu eignarinnar að hafa af henni arð utan veiðitíma.

 

Þann fyrirvara verður þó að gera við framangreinda niðurstöðu að rekstur veiðhúss utan veiðitíma feli ekki í sér verulega aukna fjárhagslega áhættu fyrir félagið miðað við eðlilegan arð af viðkomandi veiðisvæði. Talið hefur verið að í ljósi skylduaðildar að veiðifélagi verði heimildir meirihluta í veiðifélagi til ráðstafana, sem mæta andstöðu tiltekins minnihluta, metnar út frá ströngum mælikvarða og verði sannanlega að rúmast innan þess tiltölulega þrönga valdsviðs sem veiðfélagi er ætlað að lögum og samþykktum einstakra félaga.[15]

 

Framangreindum skýringarkosti til stuðnings má benda á að hefði það verið vilji löggjafans að breyta þeirri nýtingu, sem tíðkast hefur lengi um rekstur veiðihúsa, þ.m.t. til nýtingar utan veiðitíma, hefði verið eðlilegt að það kæmi fram í lögum nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði eða athugasemdum með frumvarpi til laganna. Færa má að því rök að þessi þögn löggjafans kunni að vera vísbending um að hann hafi talið þessa nýtingu samrýmast tilgangi með veiðifélögum, jafnvel þótt nauðsynlegt hafi verið mæla fyrir um skylduaðild að félögunum. Ítreka verður þann áskilnað, sem að framan er gerður, að heimildir veiðifélaga til reksturs veiðihúsa verður að takmarka við sambærilegan rekstur og tíðkast hefur í veiðihúsum á veiðitímabili veiðisvæðisins.

 

Hér verður þó einnig að gera sama fyrirvara og getið er að framan að setja verður umfangi starfseminnar skorður í ljósi beinnar, ótakmarkaðarar og solidariskrar ábyrgðar félagsmanna á skuldbindingum veiðifélagsins. Með öðrum orðum má sá rekstur, sem fram fer í veiðihúsum utan lögbundins veiðitíma, ekki auka verulega skuldbindingar félagsmanna. Reksturinn verður því á þennan hátt að vera til hagsbóta fyrir félagsmenn.

 

Samkvæmt þessu er niðurstaða okkar sú að rekstur sem stundaður er í veiðihúsi utan lögbundins veiðitíma, t.d. hótel- og veitingarekstur, sé í nánum, efnislegum tengslum við lögbundið hlutverk veiðifélaga samkvæmt lax- og silungsveiðilögum.

 

Að því er varðar vélar og önnur tæki, sem eru í eigu veiðifélags, gildir hið sama og að framan greinir þess efnis að ekkert er því til fyrirstöðu að veiðifélag leigi út slíkan tækjabúnað utan veiðitíma.

 

IV.

Geta samkeppnislög takmarkað heimildir veiðifélaga til samkeppnisrekstar?

Í beiðni til okkar er spurt hvort samkeppnislög geti takmarkað heimildir veiðifélaga til rekstrar af samkeppnisástæðum. Hér er greint milli tveggja tilvika. Annars vegar hver sé réttarstaða veiðifélags gagnvart utanaðkomandi aðila sem er í samkeppni við veiðifélag um slíkan rekstur og hins vegar réttarstöðu félagsins gagnvart félagsmanni sem er í samkeppni við veiðifélag.

 

Samkvæmt 1. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 er markmið laganna að efla virka samkeppni í viðskiptum og þar með vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Markmiði þessu skal náð með því að vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri, vinna gegn skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum og auðvelda aðgang nýrra samkeppnisaðila að markaðnum.

 

Enginn vafi er á því að samkeppnislög gilda um starfsemi veiðifélaga en þó með þeim takmörkunum sem leiða af lax- og silungsveiðilögum varðandi veiðifélög. Samkeppnislög miða þannig við að veiðifélög stundi eftir atvikum samkeppni innan þeirra marka sem mælt er fyrir um í lax- og silungsveiðilögum. Engu breytir þótt veiðifélög séu lögbundin félög sem skylda menn til félagsskapar. Sú staða verður ekki ein og sér talin skekkja samkeppnisstöðu annarra aðila gagnvart veiðifélagi.

 

Þá skiptir heldur ekki máli hvort um er að ræða samkeppni við þriðja mann, sem stendur utan veiðifélags, eða félagsmann í veiðifélagi. Í þessu sambandi má nefna að í fjárhagslegum félögum, t.d. hlutafélögum, eru þess dæmi að einstakir hluthafar séu í samkeppnisrekstri við viðkomandi hlutafélag. Eignarhlutur viðkomandi hluthafa í hlutafélaginu breytir engu í þeim efnum.

 

Sem dæmi um hugsanlega andsamkeppnislega starfsemi veiðifélaga mætti nefna ef veiðifélag gerði samninga, hvort heldur þeir eru bindandi eða leiðbeinandi, um verðsamráð við félagsmenn eða þriðja aðila um starfsemi sem teldist í samkeppni á viðkomandi svæði. Slík háttsemi raskar samkeppni og er almennt bönnuð samkvæmt samkeppnislögum.

 

V.

Skaðabótaskylda utan samninga.

Hin beina, ótakmarkaða og solidariska ábyrgð félagsmanna á skuldbindingum veiðifélags felur ekki einungis í sér að félagsmenn bera ábyrgð á skuldbindingum sem félagið stofnar til á grundvelli samninga, heldur getur hún einnig leitt til ábyrgðar sem stofnast getur vegna skaðabótaskyldrar háttsemi utan samninga, hvort heldur athafna eða athafnaleysis, t.d. vegna líkamstjóns vegna ástands fasteignar, hálku, bleytu o.s.frv. Af þessum sökum er rétt að vekja sérstaka athygli á nauðsyn þess að félagsmenn í veiðifélögum hugi ávallt vel að því að allar tryggingar vegna rekstrar og fasteigna séu fullnægjandi. Hafi veiðifélag leigt út veiðiréttinn hvílir þessi skylda þó væntanlega þó á leigutaka.

 

VI.

Niðurstaða í stuttu máli.

Samandregnar niðurstöður okkar samkvæmt framansögðu eru í stuttu máli þessar:

 

  1. Miðað við tilgang veiðifélaga, aðild það þeim og önnur atriði er eðlilegt að telja þau til fjárhagslegra félaga. Aðild að þeim tengist einungis rétthöfum á viðkomandi svæði. Því er um félag að ræða sem tekur mið af sameiginlegum hagsmunum þeirra. Hefur það verið orðað svo að veiðifélög séu að þessu leyti skylduaðildarsamtök um sérstaka sameign og eigi þar samstöðu með húsfélögum samkvæmt lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

 

  1. Félagsmenn bera beina, ótakmarkaða og solidariska ábyrgð á skuldbindingum veiðifélags. Þetta er í samræmi við meginregluna um sérstaka sameign. Sjálfstæðar eignir veiðifélags tilheyra þeim fasteignum á félagssvæðinu sem veiðirétt eiga. Veiðifélag á því ekki viðkomandi eignir heldur tilheyra þær einstökum félagsmönnum. Þetta þýðir að félagið á engar eignir sem geta verið andlag fullnustugerða jafnvel þó að þær séu þinglýstar á félagið eða skráðar, heldur einstakir félagsmenn.

 

  1. Markmið lax- og silungsveiðilaga er að kveða á um veiðirétt í ferskvatni og skynsamlega, hagkvæma og sjálfbæra nýtingu fiskstofna í ferskvatni og verndun þeirra, sbr. 1. gr. laganna. Í því skyni að ná þessum markmiðum hefur löggjafinn skyldað menn til að stofna veiðifélög. Helstu verkefna slíkra félaga er getið í 37. gr., en þau varða einkum veiðistjórnun, veiðiaðferðir fiskrækt, vöxt og viðgang fiskstofna og sjálfbæra nýtingu þeirra, skiptingu arðs af veiði milli félagsmanna, rétt til stangveiði að gættri sjálfbærri nýtingu. Þá er svo fyrir mælt að veiðifélag skuli hafa að öðru leyti með höndum verkefni þau sem því eru falin í lögunum og varða framkvæmd þeirra. Þessi upptalning er þó ekki tæmandi, en gefur engu að síður skýra vísbendingu um að verkefni veiðifélaga eru í nánum tengslum við þessi markmið. Líta verður svo á að veiðfélagi sé skylt að sinna öllum þessum verkefnum.

 

  1. Þeirri spurningu hvaða önnur verkefni, sem ekki eru beinlínis talin upp í lax- og silungsveiðilögum, geta fallið undir verksvið veiðifélaga, verður ekki svarað afdráttarlaust. Að okkar mati er þó ljóst að þau verkefni, sem ekki eru beinlínis talin upp í lögunum, verða að vera í nánum efnislegum tengslum við hið lögbundna hlutverk veiðifélaga og markmið laganna. Í þessu sambandi verður að líta til þess að skylduaðild að veiðifélagi er í eðli sínu undantekning frá meginreglunni um rétt manna til að standa utan félags samkvæmt 74. gr. stjórnarskrárinnar. Því beri að skýra ákvæði laganna þröngt. Þá verður að okkar mati að setja umfangi starfseminnar skorður í ljósi beinnar, ótakmarkaðrar og solidariskrar ábyrgðar félagsmanna á skuldbindingum veiðifélagsins. Meta verður heimild veiðifélags til að skuldbinda félagsmenn út frá ströngum mælikvarða.

 

  1. Í ljósi framanritaðs og lögbundins hlutverks veiðifélags, sem byggist á sérstökum sjónarmiðum, er varhugavert að fullyrða að veiðifélögum sé heimilt að sinna öðrum verkefnum en þeim eru falin í lögum, jafnvel þótt allir félagsmenn séu því samþykkir, sbr. til hliðsjónar Hrd. 263/1999 (Litli-Langidalur).

 

  1. Rekstur sem stundaður er í veiðihúsi utan lögbundins veiðitíma, t.d. hótel- og veitingarekstur, er að okkar mati í nánum, efnislegum tengslum við lögbundið hlutverk veiðifélaga, enda sé umfangi rekstrarins settar eðlilegar skorður með hliðsjón af tilgangi lax- og silungsveiðilaga.

 

  1. Samkeppnislög taka til veiðifélaga eins og annarra félaga. Að okkar mati verður þó ekki séð að lögin komi í veg fyrir að veiðifélög stundi rekstur utan lögbundins veiðitíma, t.d. veitingarekstur. Ekki verður talið að skylduaðild að veiðifélögum breyti ein og sér neinu um þá niðurstöðu. Í þessu sambandi skiptir ekki máli hvort um er að ræða rekstur sem telja má í samkeppni við félagsmann eða aðila sem stendur utan félagsins.

 

  1. Áréttað er að hin beina, ótakmarkaða og solidariska ábyrgð félagsmanna á skuldbindingum veiðifélags felur bæði í sér að félagsmenn bera ábyrgð á skuldbindingum sem félagið stofnar til á grundvelli samninga og ábyrgðar sem stofnast getur vegna skaðabótaskyldrar háttsemi utan samninga, hvort heldur athafna eða athafnaleysis.

 

  1. Fari félagsstjórn eða félagsfundur út fyrir umboð sitt en ráðstöfun engu að síður bindandi gagnvart þriðja manni, getur félagsmaður, sem telur á sér brotið, sótt endurkröfu / skaðabótakröfu á hendur viðkomandi stjórnarmönnum eða öðrum félagsmönnum sem stóðu að ákvörðun.

 

 

Reykjavík, 14. janúar 2011,

 

 

Eyvindur G. Gunnarsson                                                              Stefán Már Stefánsson

 

 

 [1]              Þessi kafli er byggður á Alþt. 2005-2006, A-deild, bls. 3507-3510.

[2]              Alþt. 2005-2006, A-deild, bls. 3536.

[3]              Alþt. 2005-2006, A-deild, bls. 3539.

[4]              Sjá nánar Karl Axelsson og Arnar Þór Stefánsson, Um veiðfélög, Úlfljótur 2007, bls. 278-279.

[5]              Áslaug Björgvinsdóttir, Félagaréttur, Reykjavík 1999, bls. 66-67.

[6]              Áslaug Björgvinsdóttir, Félagaréttur, bls. 49-66.

[7]              Sjá nánar Karl Axelsson og Arnar Þór Stefánsson, Um veiðfélög, bls. 264-265.

[8]              Alþt. 2005-2006, A-deild, bls. 3513.

[9]              Alþt. 2005-2006, A-deild, bls. 3513.

[10]             Sjá hér nánar Alþt. 2005-2006, A-deild, bls. 3513-3514.

[11]             Sjá t.d. Karl Axelsson og Arnar Þór Stefánsson, Um veiðfélög, bls. 279.

[12]             Sjá Davíð Þór Björgvinsson, Lögskýringar, Reykjavík 2008, 176-177.

[13]             Sjá Alþt. 2005-2006, A-deild, bls. 3514.

[14]             Sjá Alþt. 2005-2006, A-deild, bls. 3535.

[15]             Sjá Karl Axelsson og Arnar Þór Stefánsson, Um veiðifélög, bls. 278-279.