28. ágúst 2014

Til veiðiáhugamanna.

Nú er heildarveiðin í gagnagrunnsánum okkar komin í 16.800 laxa.  Í liðinni viku var aðeins 1346 fiskum landað í þeim ám.  Það er lítill afli, miðað við þennan tíma, og nálægt 800 löxum minna en veiðst hafði um þessi mánaðamót árið 2012.  Greinilegt sýnist að þetta árið verður talið með lakari veiðisumrum.

Aflatölunum, sem birtast á vefnum okkar, sem og Textavarpinu, er raðað eftir heildarveiði.  Aflahæstu árnar efst.  Ýmsir hafa vakið máls á því að réttara væri að miða við afla á hverja stöng, eða jafnvel hvern veiðidag.   Því miður yrðu það þó nokkuð flóknir útreikningar, þar sem stangafjöldi er oft breytilegur yfir veiðitíman og árnar opna missnemma.  Samt hef ég nú tekið saman afla á hverja stöng eftir þeim heimildum sem ég hef um stangafjölda í einstökum ám.  Þar eru þó hugsanlega einhverjar skekkjur, sem ég biðst velvirðingar á.  Smellið á „meira“ til að fá þær tölur upp á skjáinn.

 

24. ágúst 2014

Ágætu veiðimenn.

Frá síðasta miðvikuegi hef ég verið á flækingi og í lélegu netsambandi.  Hef því ekki getað sent neitt yfirlit.  Nú er ráðin bót þar á.  Og skemmst er frá því að segja að 20. ágúst var heildarveiðin í gagnagrunnsánum okkar komin upp í 15.454 laxa.  Vikuna þar á undan var alls landað 1.759 fiskum í sömu ám.  Næsta miðvikudag ætla ég svo að reyna að fara eitthvað betur yfir tölurnar.

Með kveðjum.  Þorsteinn.

 

18. ágúst 2014

Vilja óháða rannsókn á fiskeldi

Verndarsjóður villtra laxastofna telur að laxeldiskvíarnar í Patreksfirði og Arnarfirði séu tifandi tímasprengjur.

 

Orri Vigfússon, formaður Verndarsjóðs villtra laxastofna (NASF), hefur sent Sigurði Inga Jóhannessyni, umhverfis- og auðlindaráðherra, bréf þar sem sjóðurinn óskar eftir því að tafarlaust verði gerð óháð rannsókn á því fiskeldi sem nú fer fram á Vestfjörðum.

 

„Í sumar bárust fréttir fyrst frá íbúum á staðnum um að eldisfiskur væri byrjaður að veiðast í sjó, árósum og ám vestra - og að hann væri að búa sig undir að hrygna," segir í bréfinu, sem einnig var sent umhverfis- og sjávarútvegsnefnd Alþingis. „Síðan hafa Fiskistofa og Veiðimálastofnun staðfest með afgerandi hætti að þarna er á ferðinni lax sem sloppið hefur úr eldiskvíum. Upplýsingar og skýringar frá fiskeldisfyrirtækjunum sjálfum á því hvernig þetta gerðist eru vægast sagt ótrúverðugar."

Eldislax ©Sumarliði Óskarsson

14. ágúst 2014