2. febrúar 2016

Nýting kalkþörungasets í Miðfirði

Eftirfarandi er bréf Landssambands veiðifélaga sem sent var 18 janúar sl. til Úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál en þar eru gerðar athugasemdir við fyrirhugaða nýtingu kalkþörungasets í Miðfirði. Athugið að hægt er að sækja viðkomandi bréf sem pdf-skjal eða word-skjal, sjá nánar hér fyrir neðan. 

 

Ákvörðun Skipulagsstofnunar 9. desember  2015, að nýting kalkþörungasets í Miðfirði, 1.200 rúmmetrar á ári í 30 ár,  skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

 

Landssamband veiðifélaga kærir hér með þá ákvörðun Skipulagsstofnuar að nýting á 1.200 rúmmetrum á ári af kalkþörungaseti í Miðfirði skuli undanþegin umhverfismati og gerir þá kröfu að felld verði úr gildi sú ákvörðun Skipulagsstofnunar, dagsett 9. desember 2015, að nýting kalkþörungasets í Miðfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

26. janúar 2016

10.000 tonn af eldislaxi í Arnarfirði

Eftirfarandi er bréf Landssambands veiðifélaga sem sent var 18 janúar sl. til Umhverfisstofnunar en þar eru gerðar athugasemdir við tillögu að starfsleyfi fyrir framleiðslu á 10.000 tonnum af laxi í Arnarfirði á vegum Arnarlax hf. Athugið að hægt er að sækja viðkomandi bréf sem pdf-skjal eða word-skjal, sjá nánar hér fyrir neðan.

 

Athugasemdir við tillögu að starfsleyfi fyrir framleiðslu á 10.000 tonnum af laxi í Arnarfirði á vegum Arnarlax hf.

 

Vísað er í tillögu Umhverfisstofnunar að starfsleyfi fyrir Arnarlax hf. vegna framleiðslu á allt að 10.000 tonnum á ári af laxi í Arnarfirði í Vesturbyggð.

 

Landssamband veiðifélaga leggst eindregið gegn umræddri tillögu að starfsleyfi og telur að með umræddri framkvæmd séu stofnar villtra laxfiska settir í stórfellda hættu. Jafnframt telur Landsambandið að umhverfismatsskýrslan dagsett í júní 2015 og unnin af Verkís sé, hvað varðar mat á áhrifum á villta stofna laxfiska, ófullkomin og sýni ekki þau neikvæðu áhrif sem framkvæmdin hefur á stofna villtra laxfiska á svæðinu eða þá stórfeldu áhættu sem tekin er með framkvæmdinni með veiðiár á Íslandi.

Eldislax © Sumarliði Óskarsson
 

26. janúar 2016

Vilja framkvæmdir við Svartá í umhverfismat

Fulltrúar Fiskistofu, Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra eru sammála um að gera þurfi umhverfismat vegna fyrirhugaðrar virkjunar Svartár í Þingeyjarsveit. Fiskistofa segir ána vera sjaldgæfa á heimsvísu.

 

Þetta kemur fram í umsögnum sem skilað hefur verið til Skipulagsstofnunar. Óskað var eftir þeim vegna hugsanlegrar matsskyldu virkjunarinnar. Hún á að framleiða 9,8 megavött en til þess að framkvæmd sem þessi fari sjálfkrafa í umhverfismat þarf hún að framleiða 10 megavött eða meira. Skipulagsstofnun þarf aftur á móti að meta hvort þörf sé á slíku mati og kallaði því eftir umsögnunum.

 

Fyrirhugaðrar virkjunarframkvæmdir í Svartá í Þingeyjarsveit Mynd ©Ruv.is