27. ágúst 2015

Ágæta áhugafólk.

Heildarveiðin úr gagnagrunnsám LV stendur nú í 36.421 laxi, sen er rétt um þriðjungi yfir meðaltali síðustu 10 ára miðað við sömu dagsetningar.

Enn heldur vikuveiðin áfram að dvína, en þó fremur hægt.  Síðustu 7 dagar skiluðu 4.009 löxum á land úr gagnagrunnsánum okkar 25.  Athyglivert er að 37 % af vikuaflanum kemur úr tveim ám, það er Miðfjarðará með 742 laxa og Ytri Rangá með 735.  Hér er rétt að staldra aðeins við og skoða Miðfjarðarána, sem nú er í fyrsta sæti af sjálfbæru ánum.  Hvergi finn ég meiri vikuafla úr neinni slíkri á síðan við fórum að safna þessum tölum árið 2006.  Hef þó ekki leitað af mér allan grun.  En ljóst er að síðan 1974 hafa 7 sumur skilað minni heildarafla úr ánni en á land kom þar í síðustu viku.  Aðeins tvisvar áður hefur heildarafli Miðfjarðarár losað 4.000 fiska.  Áin er greinilega að bæta sig stórlega frá öllum fyrri árum sem heimildir eru til um.  

 

26. ágúst 2015

Lax­ar á Kóla­skaga smitaðir af sveppa­sýk­ingu

"Hættu­leg sveppa­sýk­ing hef­ur upp­götv­ast í atlants­hafslaxi í nokkr­um af þekkt­ari laxveiðián­um á Kola­skaga í Rússlandi" segir í frétt á vef Morgunblaðsins mbl.is og er þar vísað til þess er kemur fram í fréttamiðlinum Barents Observer. Hér fyrir neðan er þýðing á þeirri frétt.

 

Veiðimenn í nokkrum af stærstu laxveiðiám Kólaskaga hafa undanfarið tilkynnt um afar mikið af laxi sem er sýktur af sveppasýkingu er kallast „Saprolegnia“. Samkvæmt niðurstöðum sérfræðinga, sem rannsakað hafa ástand laxastofna á viðkomandi svæðum, þá er umrædd sveppasýking talin veruleg ógnun við alla þá laxastofna sem þar er að finna. „Útbreiðsla þessa faraldurs getur einungis kallast vistfræðilegt stórslys“ segir í frétt Artic TV sem staðsett er í Murmansk Rússlandi. Í nokkur skipti hafa borist fréttir og verið tilkynnt um óviðunandi aðstæður og framkvæmd fiskeldis sem fyrirtækið Russkoye More stendur fyrir á svæðinu.

Pechenga fjörður á Kólaskaga Rússlandi  Mynd© www.google.com/maps
 

20. ágúst 2015

Kæra veiðiáhugafólk.

Enn helst óvenjulega góð veiði og dregst minna saman en algengast er á þessum árstíma.  Því stefnir nú allt í mjög gott veiðisumar.  Síðastra vika skilaði 4.947 löxum á land úr gagnagrunnsánum okkar 25.  Það kemur heildaraflanum þar upp í 32.412 fiska, sem er ríflega þriðjungi yfir meðalafla í þessum ám síðan 2006. 

Vikuaflinn hefur ekki dregist saman um nema 37 laxa, sem er ótrúlega gott.  Jafn mikil veiði á viku hefur ekki sést svo síðla sumars síðan árin 2007 og 2008, en þá  veiddust meira en 5000 laxar á einni viku bæði árin, nálægt mánaðamótum ágúst – september.   Það tengist áreiðanlega þeim frægu maðkahollum, sem oft mokveiddu í ýmsum ám þegar fluguveiðitímanum þar lauk.

 

13. ágúst 2015

6. ágúst 2015