28. júní 2015

Veiðidagur fjölskyldunnar 2015

Veiðidagur fjölskyldunnar var haldinn í dag sunnudaginn, 28. júní. Landsmönnum gafst kostur á að veiða án endurgjalds í fjölmörgum vötnum víðsvegar um landið.

 

Landssamband Stangaveiðifélaga hefur staðið fyrir Veiðidegi fjölskyldunnar í á þriðja áratug ásamt veiðiréttareigendum. Hugmyndin á bak við daginn er að kynna stangveiði sem fjölskylduíþrótt. Í ár voru 32 vötn í boði á veiðideginum.

Veiðidagur fjölsyldunar 2015 Mynd ©LS

 

 

18. júní 2015

Frá Aðalfundi LV 2015

Aðalfundur Landssamband veiðifélaga var haldinn á Breiðdalsvík dagana 12. – 13. júní.

Fundinn sátu 35 fulltrúar frá 27 veiðifélögum, auk gesta. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa þá hélt Þröstur Elliðason erindi um „Uppbyggingu laxastofna í Jökulsá á Dal og Breiðdalsá og Guðni Magnús Eiríksson um „Veiðieftirlit í sjó og vöktun stroklaxa.“

 

Allmargar ályktanir voru samþykktar á fundinum og verða þær birtar síðar á angling.is

 

Á fundinum fór fram kjör formanns LV. Óðinn Sigþórsson, Einarsnesi, sem gegnt hefur formannsembætti  sl. 15 ár, gaf ekki kost á endurkjöri. Tveir gáfu kost á sér sem formenn LV, þeir Jón Helgi Björnsson, Laxamýri, og Sveinbjörn Eyjólfsson, Hvanneyri, og hlaut Jón Helgi kosningu.

 

Stjórn LV er því þannig skipuð:

Jón Helgi Björnsson, Laxamýri, formaður.

Þorgils Torfi Jónsson, Hellu, varaformaður.

Jón Benediktsson, Auðnum, ritari.

Jón Egilsson, Sauðhúsum, gjaldkeri.

Guðmundur Wiium Stefánsson, Fremri Nýp, meðstjórnandi.

 

Til vinstri. Nýkjörinn formaður LV, Jón Helgi Björnsson. Til hægri. Fráfarandi formaður LV, Óðinn Sigþórsson.
 

 

18. júní 2015

Lax- og silungsveiðin 2014 – samantekt

Laxveiðin

Miklar sveiflur hafa orðið í laxveiði á stöng á undanförnum árum. Laxveiði á stöng sumarið 2014 minnkaði mikið á milli ára og var einungis um helmingur þess sem hún var 2013 en lík því sem veiðin var 2012. Ekki hafa áður sést jafnmiklar breytingar í veiði milli ára hér á landi.  Skýringar þess er einkum að leita í breytingum á afföllum laxa í sjó en ekki er þekkt með vissu hvaða þættir eru þar ráðandi. Þegar um jafnmiklar sveiflur er að ræða eru fá viðmið sem nota má til að spá fyrir um nýhafið veiðitímabil.

 

Sumarið 2014 var stangveiði á laxi í ám á Íslandi alls 33.598 laxar en af þeim var 13.616 (40,5%) sleppt aftur og var heildarfjöldi landaðra stangveiddra laxa (afli) því 19.982 laxar. Af veiddum löxum var meiri hluti þeirra eða alls 22.180 með eins árs sjávardvöl (smálaxar) (66%) en 11.413 (34%) laxar með tveggja ára sjávardvöl eða lengri (stórlaxar). Alls var þyngd landaðra laxa (afla) í stangveiði 55.769 kg.

 Sumarið 2014 veiddust flestir laxar í Ytri-Rangá alls 3.070 laxar, næst flestir í Eystri-Rangá 2.529 og í þriðja sæti var Blanda og Svartá í Húnavatnssýslu með 2.225 laxa. Hlutfall villtra smálaxa sem var sleppt var alls 35,4%  og 72% villtra stórlaxa.

10. júní 2015

27. maí 2015