23. júlí 2015

Ágætu veiðiáhugamenn.

Þó svo að þetta veiðisumar hafi byrjað á svipaðan hátt og sumarið sem leið þá hefur nú dregið verulega í sundur með þeim.  Í liðinni viku var landað 4.846 löxum úr gagnagrunnsánum okkar 25.  Þetta er ágætur afli og tíunda besta vikuveiði frá árinu 2006.  Heildarveiðin úr þessum 25 ám er komin í 11.940 laxa en meðaltal undanfarinna 10 ára er 10.642 fiskar.  Þetta eru ánægjulegar fréttir og það sem gerir þær enn betri er að nú sést mikið af laxi ganga í árnar vestanlands og í Húnaþingi.  Norðaustan- og Austanlands er þó minni fiskur á ferðinni ennþá, en slíkt er jú vanalegt og getur jafnað sig á næstunni.  Því geri ég ráð fyrir að von sé á góðri veiði áfram.  Athyglivert er hvað góð veiði er í Blöndu.  Hún er nú hæst yfir landið með 1.638 landaða laxa.  Þar hafa veiðst 645 fiskar í liðinni viku, sem jafngildir 6,6 löxum per stöng á dag.  Horfur eru á að langt sé í að lónið fyllist, þannig að búast má við góðri veiði þar langt fram eftir sumri.  Þó hefur granni hennar – Laxá á Ásum – skilað mun betri árangri, en þar er veiðin á dagstöngina rúmlega 17 laxar í liðinni viku.

16. júlí 2015

Ágætu lesendur.

Þá hefur fyrsta áin brotið 1000 laxa múrinn.   Úr Norðuránni eru komnir 1.068 fiska á land.  Blanda fylgir nokkuð fast á eftir með 993 laxa.  Af gagnagrunnsánum okkar 25 er það að frétta að heildar veiðitölur úr þeim eru nú 7.094 laxar, eftir 3.526 landaða fiska í liðinni viku.  Veiðin er greinilega að ná sér á strik.

Ef við berum þetta  saman við undanfarin ár þá er meðalveiðin úr ánum 25 nálægt 7.175 löxum síðan 2006.  Því má segja að veiðin núna sé órtúlega nærri pari.  Vonandi heldur veiðin áfram að batna þannig að tölurnar komist fljótlega upp fyrir meðaltalið.

 

 

15. júlí 2015

Sameining Veiðimálastofnunar og Hafrannsóknastofnunar

Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn á Breiðdalsvík dagana 12. – 13. júní 2015, ítrekar nauðsyn þess að við sameiningu Veiðimálasstofnunar og Hafrannsóknarstofnunar skapast tækifæri til að gera átak í að afla enn meiri upplýsinga um sjávarvist laxa.  Fundurinn hvetur sameinaða stofnun til að sinna þessum þætti.  

 

9. júlí 2015

4. júlí 2015