Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum

12. september 2019

Nýjar veiðitölur

Komnar eru nýjar veiðitölur á vef Landsambands Veiðifélaga. Samantektin er frá veiði í lok miðvikudags 11. september.

 

Það er haustbragur á sumum þeim veiðitölum sem hafa borist og kemur það ekki á óvart þar sem styttist í að lokatölur berist úr þeim ám þar sem veiði hófst fyrst í sumarbyrjun. Komin er ein lokatala úr Búðardalsá sem lokaði 9. september með samtals 98 laxa. En þó árnar okkar fari að loka ein af annari, þa verður víða veitt til loka september. Síðan mun veiði halda áfram í Rangánum fram í október. Ekki er úrkomuleysi fyrir að fara þessa dagana og vatnsbúskapur með ágætum. Veiði hefur víða tekið töluverðan kipp í kjölfarið og skila margar ár góðri veiðiviku. Það telst helst til tíðinda að Þverá/Kjarará hefur bæst í hóp þeirra vatnakerfa sem farið hafa yfir 1000 laxa markið og er veiðitalan komin í 1025 laxa.

 

5. september 2019

Nýjar veiðitölur

Komnar eru nýjar veiðitölur á vef Landsambands Veiðifélaga. Samantektin er frá veiði í lok miðvikudags 4. september. Veiðin síðustu veiðiviku ber þess merki að liðið er fram á haust og styttist í að  lokatölur berist úr þeim ám þar sem veiði hófst fyrst í sumarbyrjun.

 

Ekki hafa borist veiðitölur úr öllum vatnakerfum en þær verða settar inn þegar þær berast. Það getur verið erfitt að ná tölum í hús þegar vel er liðið á veiðitímabilið, eins og lesa má í frétt með samantektinni fyrir viku síðan.

 

Breyting varð á listanum okkar eftir síðustu veiðiviku en Ytri-Rangá fór upp um eitt sæti og er nú í þriðja sæti.

 

Sem fyrr er Eystri-Rangá efst á listanum okkar með samtals 2782 laxa en síðasta veiðivika skilaði 130 löxum. Það munar 1391 löxum á henni og Selá í Vopnafirði sem er í 2. sæti með samtals 1391 laxa.

 

Í öðru sæti er Selá í Vopnafirði með samtals 1391 laxa sem er 78 löxum meiri veiði en á svipuðum tíma í fyrra en þá höfðu veiðst 1283 laxar.  Veiðivikan gekk vel, skilaði 91 löxum og  er veiðin nú orðin 51 löxum meiri en loka veiðitala í fyrra sem var 1340 laxar.

 

2. september 2019

Nýr framkvæmdastjóri Landssambands Veiðifélaga

Elías Blöndal Guðjónsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Landssambands veiðifélaga. Hann tekur við af Árna Snæbjörnssyni sem hefur verið framkvæmdastjóri landssambandsins frá árinu 2003.

 

Elías hefur starfað sem framkvæmdastjóri Bændahallarinnar ehf. frá árinu 2016 og mun áfram gegna því starfi samhliða vinnu fyrir landssambandið. Elías er lögfræðingur og hefur meistarapróf frá Háskólanum í Reykjavík. Hann starfaði hjá Bændasamtökum Íslands frá 2010-2016 og sat í stjórn Hótel Sögu ehf. frá 2014-2018. Elías rak jafnframt eigið fyrirtæki í sölu veiðileyfa frá 2010-2016.

 

Um leið og Árna Snæbjörnssyni er þakkað fyrir störf sín í þágu sambandsins er nýr framkvæmdastjóri boðinn velkominn.

 

2. september 2019,

Jón Helgi Björnsson,

formaður Landssambands veiðifélaga.

 

29. ágúst 2019

22. ágúst 2019

22. ágúst 2019