Veiðitölur

Laxalús ( Lepeophtheirus salmonis)

 

 

Spurningar og svör

 

 

Hvað er laxalús?

Laxalús er sníkjudýr og lifir á laxfiskum af

ættkvíslum Salmo, Salvelinus og Oncorhynchus á norðlægum slóðum.

 

Hvar lifir laxalús?

Laxalús lifir í söltu vatni og þegar hún finnst á fiski í ferskvatni, þá er gefur það til kynna að fiskur er nýgenginn úr sjó.

 

Hvernig lítur laxalús út?

Lúsin er flöt og er líkaminn þrískiptur. Fremsti hlutinn er skálarlaga og myndar einskonar sogskál en á útlimunum eru krókar sem dýrið notar til að halda sér föstu á yfirborði fisksins. Litur á lúsinni er oftast brúnn en getur einnig fengið á sig gullitan eða grænlitan blæ. Lúsin er sérkynja og er kvendýrið nokkru stærra en karldýrið, sérstaklega þegar tveir langir eggjastrengir liggja aftan úr því, sjá myndir. Lengd lúsarinnar getur orðið um 15 mm en með eggjastrengjum getur kvendýrið orðið allt að 25 mm að stærð.

 

Hvernig er lífsferill laxalúsar?

Lífsferill laxalúsar er einfaldur og þarf hún aðeins fiskinn sem hýsil. vendýrið losar eggin beint út í sjóinn og geta þau skipt hundruðum í einu. Kynþroska kvendýr hafa fundist á öllum árstímum. Hvert dýr losar mikinn fjölda eggja á ári en fjöldi eggja er háð hitastigi. Þroskun og klak eggjana tekur um einn mánuð við 10°C og eftir einn mánuð til viðbótar er lirfan orðin fullþroska og búinn að mynda egg. Lífsferillinn gengur hraðar við hærra hitastig. Áður fyrr var talið að laxalús fjölgaði sér ekki í sjó sem væri kaldari en 5°C og lúsin hyrfi um veturinn. Nýjar rannsóknir hafa sýnt að hrygning getur átt sér stað við 2°C en við þetta hitasig eru fár lirfur sem ná copepodid stigi. Yfir vetrarmánuðina eru egg lúsarinnar minni og meiri afföll eru á þeim en á sumrin. Greint er á milli 10 ólíkra þroskastiga í lífsferli lúsarinnar en hvert stig afmarkast af hamskiptum. Þrjú fyrstu lirfustigin lifa frjálst í efri lögum sjávar en á fjórða lirfustiginu (eftir 3 hamskipti) hefst sníkjulífið. Þá festir dýrið sig við yfirborð laxfisksins og þroskunin heldur áfram. Næstu fjögur sig (þrjú hamskipti) eru föst á fisknum og geta ekki hreyft sig en sjúga blóð og aðra líkamsvökva úr fisknum sé til viðurværis. Síðustu þrjú stig dýrsins geta hreyft sig um hýsilinn en talið er að fullorðna stigið valdi fisknum hvað mestum skaða. Jafnframt er talið að kvendýrið valdi meiri skaða en karldýrið, því það virðist vera meira staðbundið á fisknum og myndar því gjarna stærri og dýpri sár á hverjum stað.

 

Getur laxalús valdið laxfiskum skaða?

Laxalús leggst á fisk á öllum aldri og getur fjölgað sér mjög ört ef aðstæður eru góðar. Hægt er að finna töluverðan fjölda af lús á hverjum fisk. Lúsin heldur sig gjarna á hreisturlitlum  og hreisturlausum líkamshlutum fisksins, t.d. á höfðinu og nærir sig á húðfrumum, slími og blóði. Í verstu tilfellum étur hún höfuðbeinin upp að ofan þar til heilinn blasir við. Sárin sem lúsin myndar leiða til blóðleysis og vökvaójafnvægis hjá fiskinum og geta dregið hann til dauða. Einnig er mjög algengt að aðrir sjúkdómsvaldar eins og bakteríur og sveppir komist inn um sárin og auki enn á vandræðin. Laxalúsin hefur valdið gífurlegu tjóni í eldi laxfiska í sjókvíum og hefur veruleg áhrif á lífsmöguleika villtra laxfiska.

 

Hvaða áhrif hefur eldi laxfiska í kvíum á fjölda laxalúsa?

Eldi laxfiska í kvíum í sjó hefur haft veruleg neikvæð áhrif á villta laxfiskastofna víða erlendis. Rannsóknir á Írlandi hafa sýnt að laxfiskar hafa hæstu sýkingartíðnina á svæðum þar sem laxeldi er stundað. Kvíaeldi getur orðið til þess að  smitmagnið (fjöldi lúsalirfa) verði mjög mikið. Gönguseiði sem eru á leið á haf út þurfa að fara í gegnum ský af laxalúsalirfum. Talið er að ef um 11 lúsalirfur ná að festa sig á seiðið, þá eigi það ekki afturkvæmt upp í ána sem hrygningarfiskur. Þetta vandamál er jafnvel enn meira hjá villtum sjóbirting, þar sem hann heldur sig mun nær ströndinni en laxinn, en einmitt við ströndina er smitmagnið mjög mikið. Í nýlegri norskri rannsókn var komist að þeirri niðurstöðu að laxalús gæti valdið því að 30-50% sjóbirtings dræpist á svæðum þar sem fiskeldi væri stundað í miklum mæli. Ekki eru til ábyggilegar rannsóknir á áhrifum laxalúsa á sjóbleikju.

 

Hvað er gert í fiskeldi til að leysa vandamálið?

Meðhöndlun gegn lúsinni er á marga vegu, oft eru sérstökum baðlyfjum blandað í eldisvatnið til að aflúsa eldisfisk. Mismunandi aðferðum er beitt við sjálfa böðunina, fiski er dælt um borð í brunnbát og meðhöndlaður, eldisfiski er smalað úr eldiskví yfir í dúkklædda kví þar sem böðun fer fram. Ný aðferð sem lofar góðu er að blanda efnum, sem laxalús forðast, í fóður fiskanna og með því að fóðra laxinn í ferskvatni áður en honum er sleppt í sjóeldiskvíar þá hefur reynst unnt að halda honum lúsafríum í allt að tíu vikur á eftir.

Tilraunir hafa verið gerðar með fiska af varafiskaætt (Labridea) til að aflúsa eldislax í kvíum. Í noregi hafa eldismenn notast við svokallaðan berggylte sem er fremur stór fiskur af varafiskaætt. Hann er hafður með eldislaxi í kvíum og étur laxalýsnar af laxinum.

 

 

 

 

Heimildir

 

Björn Theodórsson

 

 

Upplýsingar fengnar úr;

 

Kennslurit um fisksjúkdóma eftir Ólaf Sigurgeirsson.

 

Hugsanleg áhrif eldislaxa á náttúrulega laxastofna, greinagerð eftir Valdimar Inga Gunnarson Sjávarútvegsfræðing.

http://www.veidimalastjori.is