Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
3. september 2003

Kafari leitar eldislaxa

Samkvæmt frétt sem birtist 3 september á vef ríkisútvarpsins ruv.is, hefur kafari leitað eldislaxanna sem sluppu úr geymslukvínni í höfninni á Neskaupsstað. Kafarinn hefur leitað "í ám allt frá Reyðarfirði norður í Loðmundarfjörð".

 

 

"Kafarinn fann nokkra laxa við ósa Fjarðarár í Mjóafirði en annars hefur hann einungis orðið var við villta laxa. Ákvörðun um framhald leitarinnar verður tekin í dag". Samkvæmt vef Síldarvinnslunar sluppu alls 2928 laxar úr geymslukvínni 20 ágúst. Aðgerðir til að ná eldislaxinum fólust m.a í því að leggja 60 net í Norðfirði, fyrirdráttarnet og einnig voru veiðar reyndar með dragnót. Alls er talið að um 100 laxar hafi veiðst og eru því rúmlega 2800 laxar lausir og óvíst hver afdrif þeirra verða. Það er ljóst að tilraunir til að veiða þann eldislax sem slapp hafa borið afar takmarkaðann árangur og leiðir það óhjákvæmilega hugann að því hvað gerist þegar norskur eldislax sleppur úr kvíum í eldi, þar er um að ræða margfallt fleiri einstakinga en voru í geymslukvínni í Norðfirði.

 

Hér að neðan kemur fram hvaða lög gilda um viðkomandi mál;

 

Í lögum um lax- og silungsveiði nr. 76/1970, með síðari breytingum, kemur eftirfarandi fram í 62. gr. laganna lið 4 sem orðast svo: "Jafnframt skulu í rekstrarleyfi vera ákvæði um varúðarráðstafanir til að koma í veg fyrir að fiskur sleppi vegna eldis eða flutnings á fiski og áætlun um aðgerðir til að endurheimta fisk sem sleppur."

 

72. gr. laganna orðast svo:
"1. Fiskeldisstöð sem missir út eldisfisk er heimil, þrátt fyrir friðun á villtum fiski á svæðinu, veiði innan 200 metra frá stöðinni, enda sé það utan netlaga og veiðimálastjóra hafi verið tilkynnt um það. Heimild þessi takmarkast við þrjá sólarhringa frá því að fiskur slapp út ef þetta gerist á göngutíma laxfiska og skal framkvæmd í samráði við fulltrúa veiðimálastjóra.
2. Ef fiskeldisstöð hefur ekki byrjað veiði skv. 1. mgr. innan 12 klukkustunda eftir að hún missir út eldisfisk getur veiðimálastjóri gefið út almenna heimild til veiði á svæðinu með sömu skilyrðum og fram koma í 1. mgr.
3. Leyfishafa rekstrarleyfis er skylt að tilkynna embætti veiðimálastjóra ef fiskeldisstöð missir út eldisfisk".

 

Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu Veiðimálastjóra