Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
6. janúar 2010

Tvö ár frá klórslysinu í Varmá

Nú eru liðin rúm tvö ár frá klórslysinu í Varmá þegar mikið magn af óblönduðum klór rann frá sundlauginni í Hveragerði í Varmá. Klórslysið olli talsverðum fiskdauða í ánni og fundust dauðir fiskar á 4–5 km kafla neðan klórlekans. Rannsóknir Veiðimálastofnunar á seiðabúskap árinnar skömmu eftir slysið bentu til þess að nánast öll seiði hefðu drepist á a.m.k. tveggja km kafla neðan sundlaugarinnar. Óttast var að klórslysið gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir fiskstofna Varmár og í versta falli tæki það stofnana mörg ár að ná fyrri styrk.  

Seiðarannsóknir á árinu 2008 staðfestu enn frekar þann skaða sem varð á seiðabúskap árinnar en þá mátti þó sjá töluverð batamerki.  Á síðastliðnu vori var settur upp fiskteljari í Varmá. Er honum ætlað að skrá og telja fiska á göngu upp og niður ána. 

 

Er verkefnið unnið í samvinnu Veiðimálastofnunar, Veiðifálags Varmár og Þorleifslækjar og Stangaveiðifélags Reykjavíkur. Hefur teljarinn nú þegar gefið mjög áhugaverðar niðurstöður. Samkvæmt bráðabirgðatölum gengu á tímabilinu júní – nóvember á sl. ári tæplega 2200 fiskar upp ána og um 250 niður.  Þessir fiskar voru 20-90 cm langir. Stærsti hlutinn var undir 40 cm en þó voru tæplega 1000 fiskar yfir 40 cm.  Teljarinn greinir ekki milli tegunda laxfiska en að öllum líkindum voru þetta mest urriðar.  Þessar niðurstöður gefa vísbendingu um talsverða fiskgengd í Varmá á sl. ári en erfitt er að túlka þessar niðurstöður m.t.t. stöðu stofnsins í kjölfar kórslyssins því ekki voru til sambærilegar talningar fyrir slysið. Nú í janúar er teljarinn enn í virkni og stefnt að því að svo verði í allan vetur.

 

Þessa frétt er að finna á vef Veiðimálastofnunar.