Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
29. október 2009

Veiðitími lax

Lax- og silungsveiðar hafa eflaust verið stundaðar frá upphafi landnáms, enda eru mikil hlunnindi fólgin í fjölmörgum ám og vötnum umhverfis landið. Löggjöf um veiðimál er mjög gömul og fyrstu lögin eru frá árinu 930. Einning er að finna ákvæði um veiðirétt í Járnsíðu og Jónsbók. Veiðar á lax og silung hérlendis byggja nú á lax- og silungsveiðilögunum, sem voru samþykkt árið 2006.

Fram kemur í 17. grein laga um lax- og silungsveiði;  „Laxveiðar eru heimilar á tímabilinu frá 20. maí til 30. september ár hvert, en þó aðeins í 105 daga innan þess tímabils“. Jafnframt segir.  „Fiskistofu er heimilt, að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar, að lengja veiðitíma í allt að 120 daga og allt til 31. október ár hvert í þeim veiðivötnum þar sem fyrst og fremst er veitt úr stofnum sem viðhaldið er með viðvarandi sleppingum seiða“.   

 

Það styttist því í lok veiðitímabilsins þetta árið og við tekur bið fram til vors en laxveiðar eru heimilar frá 20 maí eins og fyrr segir. Þessi friðun er mikilvæg til að hlífa hrygningarfisk og tryggja nýliðun.

 

Á íslandi hrygnir laxinn á haustin, frá september til nóvember, en það er breytilegt hvenær slíkt á sér stað. Sem dæmi má nefna að lax á Norðurlandi og Austurlandi hrygnir fyrr en á Vesturlandi og Suðurlandi. Það sem skýrir þetta er munur á hitastigi en árnar á Norður– og Austurlandi kólna fyrr. 

 

Það er mismunandi hve frjósamar árnar eru og hve langan tíma það tekur seiði að ná sjógöngustærð. Margt hefur þar áhrif eins og hitastig, fæðuframboð og fleira. Í frjósömum ám er algengasti dvalartími frá hrygningu fram að sjógöngu er 3-4 ár en dæmi eru um að slíkt taki einungis 2 ár. Það er því ljóst að afkomendur þess hrygningarstofns sem nú er að athafna sig í ám landsins, mun koma fram í veiði í fyrsta lagi árið 2012 en megnið af þessum hrygningar árgang mun koma síðar. Það hefur allt sinn tíma.