Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
3. september 2009

Veiðitölur 2. sept. 2009.

Veiðin í viðmiðunaránum okkar er nú komin upp í 37.968 laxa.  Á svipuðum tíma í fyrra voru 43.181 lax kominn á land.  Mismunurinn er 5.213 laxar og fer vaxandi eftir því sem á veiðitímann líður.  Samt er sumarið frekar aflasælt og vel yfir meðaltali síðustu 10 ára.  Ýmsar ár eru að ná frábærri veiði, svo sem húnvetnsku árnar flestar.

Sama má segja um ýmsar smærri ár, víða um land.  Mér finnst stundum að stóru og nafntoguðu árnar skyggi óþarflega mikið á sumar smærri árnar, þar sem aðeins er veitt á 2 eða 3 stengur.  Margar þeirra gefa ótrúlega góða veiði á hverja stöng.

 

 

Efst í þeim flokki er Laxá á Ásum.  Hún hefur gefið 552 laxa á hvora stöng, það sem af er sumri, eða tæplega 9 laxa á dagstöng.  Þá kemur Leirvogsáin, með 388 laxa á hvora stöng.  Næst er líklega Búðardalsá á Skarðsströnd með að minnsta kosti 350 laxa á stöng.  (Mig vantar nýjustu tölur þaðan)  Eftir mínum heimilum er röðin síðan þannig:  Þriðja kemur Andakílsá, með 198 laxa á stöng, þá Flókadalsá í Borgarfirði með 195 laxa, og næst Hrútafjarðaráin með 177 laxa á hverja stöng.  Veiði er nú lokið í Laugardalsá, og endaði hún í 501 laxi.  Það gerir 168 laxa á hverja stöng.  Auk þessa veiddust fáeinir laxar í Laugarbólsvatni.  Vel getur verið að þarna vanti aðrar ár með svipaða veiði, en mig skortir heimildir um afla í allt of mörgum ám.

Að lokum skal þess getið að sambærilegar meðaltölur úr þeim af viðmiðunaránum okkar, sem nota 6 eða fleiri stengur og hafa sjálfbæra laxastofna eru 150 laxar á hverja stöng, það sem af er sumri.