Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
15. júlí 2009

Kæra LV til umhverfisráðuneytisins vegna fyrirhugaðs laxeldis í Dýrafirði

Hinn 3. júní sl. úrskurðaði Skipulagsstofnun að fyrirhugað 2.000 tonna laxeldi í Dýrafirði skyldi undanþegið mati á umhverfisáhrifum. Aðalfundur LV, haldinn að Laugarvatni 12. – 13. júní sl., fjallaði um þessi mál og fól stjórn LV að kæra þessa ákvörðun Skipulagsstofnunar til umhverfisráðherra, sbr. V. ályktun aðalfundarins sem er að finna í fréttabréfi LV.  

 

Í bréfi LV til umhverfisráðherra, dagsettu 3. júlí sl., er þessi ákvörðun kærð og er viðkomandi kæru að finna hér fyrir neðan.

 

Umhverfisráðherra,

Svandís Svavarsdóttir

umhverfisráðuneytinu

Skuggasundi 1

150 Reykjavík

 

 

Efni:  Kæra vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar um að 2000 tonna laxeldi í Dýrafirði skuli undanþegið mati á umhverfisáhrifum.

 

Landssamband veiðifélaga kærir með bréfi þessu ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 3.  júní s.l.  um framangreint efni. 

 

Málsástæða  helstu rök

Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar á undanförnum áratugum til laxeldis í sjókvíum við Ísland.  Þau áform, misjafnlega stórtæk, hafa runnið út í sandinn.   Margvíslegar ástæður og áföll í eldinu hafa leitt til þessarar niðurstöðu og miklir fjármunir tapast.  Nú hin síðari ár hafa stjórnvöld heimilað sjókvíaaeldi á laxi af norskum eldisstofni sem fluttur var til landsins á níunda áratugnum.  Landssamband veiðifélaga mótmælti innflutningnum á  sínum tíma í ljósi þess að laxastofnar í íslenskum ám eru ómengaðir af erfðaefni  erlendra laxastofna og mikilvægt er að varðveita þá verðmætu auðlind sem í því felst.  Landssamband veiðifélaga hefur ítrekað bent á að með stórfelldu laxeldi  á norskættuðum laxi  í sjó er verið að stefna  íslenskri veiðiauðlind í hættu vegna erfðamengunar frá strokulaxi úr kvíum sem leita mun í íslenskar ár til hrygningar.  Ísland hefur algera sérstöðu varðandi gott ástand náttúrulegara laxastofna hér.  Á Íslandi eru ennþá metgöngur af laxi í árnar sbr. stangveiðina  s.l. sumar meðan aðrar þjóðir við Atlantshaf reyna að koma í veg fyrir að lasastofnar þeirra deyi út.

Hér er því um verðmæta auðlind að ræða og nýting hennar leggur drjúgan skerf til þjóðarbúsins.  Í því sambandi vill LV benda á skýrslu sem unnin var af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands árið 2003 um efnahagslega þýðingu  veiði í ám og vötnum á Íslandi .  Skýrsluna má finna í heild á vefsíðu LV angling.is og vísast til hennar.

 

                Í kjölfar þess að deilur voru um sjókvíaeldi á norskættuðum laxi við Ísland setti þáverandi ráðherra reglugerð árið 2004 um friðunarsvæði umhverfis landið þar sem ekki var heimilt að ala frjóa laxa í sjókvíum.   Undanskilin eru svæði fyrir Austurlandi aðallega og Vestfjörðum.   Á grundvelli þessarar reglugerðar var sjókvíaeldi á frjóum norskættuðum laxi stundað í Mjóafirði og Berufirði.

Engin tæmandi rannsókn hefur verið gerð á mögulegum áhrifum þeirrar starfsemi á laxastofna í ám á Austurlandi enda skammt síðan eldið hófst. Því er óraunhæft að ætla að  mögulegra áhrifa þess sé  farið að gæta í arfgerð laxa þar.  Því verður enginn lærdómur af þeirri starfsemi dreginn þegar meta  skal hvaða áhrif fyrihugað þauleldi á laxi í Dýrafirði kann að hafa á villta laxastofna.  Það er nauðsynlegt í því tilviki að umhverfismat leiði í ljós far laxa fyrir Vestfjörðum.  Það er vitað mál að lax hópar sig í hafi og heimkynnalausir  kynþroska strokulaxar,  sem leita í ferskvatn til hrygningar eru líklegir til að fylgja fari  villtra laxa á svæðinu.

Landssamband veiðifélaga mótmælir því að niðurstöður úr norskum rannsóknum um far strokufiska úr sjókvíum verði yfirfærðar á Ísland án undangenginna rannsókna.  Vísbendingar um flæking eldislaxa sem sluppu úr sláturkvínni í Norðfirði árið 2003 benda til þess að annað stjórni fari strokulaxa hér við land en hafstraumar einir og sér.

2

 

Þá eru fullyrðingar um að eldislax sem sleppur úr sjókví komist ekki af í villtri náttúr og drepist  varhugaverðar.  Þessar fullyrðingar verður að skoða í ljósi þess að svipaðar röksemdir voru hafðar uppi  um minkinn þegar hann var fluttur til landsins á sínum tíma.  Þau mistök hafa orðið íslenskri náttúru dýrkeypt og ekki er boðlegt að taka slíka áhættu með laxastofna okkar að órannsökuðu máli.  Eins og áður er bent á er reynslan af rekstri sjókvíaeldisstöðva á laxi  ekki til marks um að þar sé um mikla efnahagslega eða atvinnuhagsmuni að ræða. 

               

Í  niðurstöðu Skipulagstofnunar kemur fram að stofnunin telur mikilvægt að „eldið verði á stað þar sem minnstar líkur eru á að kvíar opnist af slysni“   Af þessu má ráða að stofnunin teli meginástæðu þess að lax sleppur úr kvíum séu áföll vegna veðurs eða líkra  utanaðkomandi þátta.  Rannsóknir sýna á hinn bóginn að mannlegi þátturinn vegur þarna ekki síður.   Mistök við meðferð eldsifiskjar, slóðaskapur í umhirðu eldisbúnaðar og  eða vöntun á fjárhagslegu bolmagni rekstraraðila til að standa eðlilega að rekstrinum  leiða víða til þess að stöðugt útstreymi eldisfiskjar er frá eldisstöð.  Slíkt var reyndin þegar mannleg mistök urðu þess valdandi að 3000 eldislaxar sluppu úr sláturkví í Norðfirði árið 2003 og kynþroska stokulax gekk í austfirskar ár til hrygningar.  Staðsetning á fyrirhugðu eldi framkvæmdaraðilans ein og sér,  er því engin trygging fyrir því að lax sleppi ekki og getur því ekki orðið grundvöllur til að undanþiggja framkvæmdina í Dýrfirði  umhverfismati.   Vakin er athygli á því sem fram kemur í umsögn Veiðimálastofnunar að reikna má með að einn lax sleppi úr sjókvíaeldi  fyrir hvert tonn sem alið er.

 

                Landssamband veiðifélaga vísar til umsagnar Fiskistofu og  tekur undir það sjónarmið að eldisstöðvar utan friðunarsvæða reglugerðar frá 2004 skuli ekki skjálfkrafa undanþegnar umhverfismati.  Afleiðingar þauleldis  á laxi fyrir Vestfjörðum eru algjörlega óþekktar þar sem slíkt eldi hefur ekki verið stundað á því svæði áður.   LV tekur einnig  undir aðrar röksemdir sem fram koma í umsögn Fiskistofu og gerir að sínum. 

 

                Vakin er athygli ráðuneytisins á röngum staðhæfingum sem fram koma í kafla um matsákvörðunin sem ber yfirskriftina viðbrögð framkvæmdaraðila.  Þar fullyrðir framkvæmdaraðilinn að enginn náttúrulegur laxastofn sé í ám norðan Dýrafjarðar.  Þá fullyrðir framkvæmdaraðili að 90% af stangveiddum laxi úr íslenskum á sé upprunninn úr seiðasleppingum og náttúrlegt got (hrygning) hafi lítið gildi.  Hér er um alrangar fullyrðingar að ræða.  LV vísar um þetta  til ársskýrslu Veiðimálastofnunar  um sjálfbærar laxveiðiár og  síðan þær ár þar sem endurheimtur laxa byggja á seiðasleppingum.   Vegna fullyrðinga um kynbættar seiðasleppingar í  laxveiðiár í Djúpi skal upplýst að 20- 30 þúsund seiðum hefur verið sleppt þar undanfarin ár.  Öll seiði eru alin undan klakfiski úr viðkomandi á eins og reglugerð kveður á um.   Ljóst má vera að hafi Skipulagsstofnun tekið eitthvert mið af framangreindum fullyrðingum framkvæmdaraðilans kallar það eitt og sér á að ákvörðun stofnunarinnar verði breytt.

 

Vakin athygli á að úrlausn Skipulagsstofnunar er ekki að fullu í samræmi við tilkynningu  framkvæmdaraðila.  Í ákvörðunn Skipulagsstofnunar er tilkynnt 2000 tonna  ársframleiðsla  á laxi undanþegin umhverfismati.  Að auki kemur fram að stofnunin telur að fyrstu árin eigi að binda eldið við 1000 tonna framleiðslu á laxi.  Í þessu sambandi vekur LV athygli ráðuneytisins á að skv. lögum 106/2000 er  hlutverk Skipulagsstofnunar á þessu stigi máls einskorðað við matsákvörðunina sjálfa.  Það er síðan umhverfismat sem á eðli málsins samkvæmt á að leiða í ljós hvaða forsendur m.a. varðandi stærð lífmassa eldisstöðvar eru lagðar  til grundvallar útgefnu rekstraleyfi til framkvæmdaaðilans.  Ákvarðanir þar um eru lögum samkvæmt ekki á hendi Skipulagsstofnunar.  Af þessu  verður ekki annað séð en Skipulagsstofnun leggist í raun   gegn veitingu leyfis fyrir framkvæmdinni eins og hún er þó tilkynnt til stofnunarinnar. 

Hið sama kemur raunar fram í umsögn Veiðimálastofnunar þar sem stofnunin leggst gegn því að framkvæmdaraðili fá leyfi til framleiðslu 2000 tonna ársframleiðslu á laxi en leyfið verði fyrstu árin

 

3

 

miðað við 1000 tonna framleiðslu.  Þessi sjónarmið verða í reynd að túlkast andstæð því að hin tilkynnta framkvæmd, þ.e.a.s. 2000  tonnaársframleiðsla á laxi, verði undanþegin umhverfismati.

 

Landssamband veiðifélaga tekur fram að kæra þessi beinist ekki að þeim hluta matsákvörðunar sem lýtur að fyrirhugðuð  eldi  framkvæmdaraðilans á 2000 tonnum af regnbogasilungi en gerir kröfu um að tilkynnt framkvæmd um allt að 2000 tonna eldi Dýrfiskjar á frjóum norskur laxi fari í umhverfismat.

 

 

Reykjavík, 3 júlí 2009

 

 

f.h. Landssambands veiðifélaga

 

 

 

 

Óðinn Sigþórsson formaður

 

 

Hér er að finna word-skjal með viðkomandi kæru