Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
30. júní 2009

Laxastigar í Vopnafirði

Síðastliðið haust var lokið við laxastiga í Sunnudalsá í Vopnafirði, sem er hliðará Hofsár.  Við það opnast um 11 km af nýju svæði fyrir lax.  Ekki fékkst mat á það síðastliðið haust hve mikið af laxi gengur um stigann en þetta sumar mun koma full reynd á það því laxateljari hefur verið settur í stigann. Stiginn er mikið mannvirki og eru 16 þrep í honum auk inntaksþröskulds og langrar rennu frá honum að fyrsta stigaþrepi.  Um nokkurra ára skeið, fyrir tilkomu stigans, hafði laxi verið lyft upp fyrir fossinn og stundum fór lax fossinn í lágri vatnsstöðu.

Laxastigi©Veiðimálastofnun
 

Starfsmenn Veiðimálastofnunar könnuðu árangur þess og fundu laxaseiði langt upp eftir Sunnudal. Auk þess var áin botngerðarmetin til að áætla framleiðslugetu hennar af seiðum.  Niðurstaðan varð sú að laxgengd gæti aukist um 30-40% frá þeirri veiði sem áin hefur gefið neðan við foss á undanförnum áratugum.  Í framhaldi af því tóku eigendur veiðiréttar ákvörðun um að byggja stigann.

 

Einnig er fyrirhugað að koma fyrir nokkurra þrepa laxastiga í svo kallaðan efri foss í Selá í Vopnafirði.  Á sínum tíma (um 1970) var byggður laxastigi í neðri fossinn í Selá (Selárfoss) og við það jókst laxgengd verulega í ána.  Er það talin ein árangursríkasta fiskvegagerð hér á landi.  Þrátt fyrir að efri fossinn sé í um 300 m.h.y.s. eru mikil svæði þar fyrir ofan sem hentað getað laxi til hrygningar og uppeldis seiða.  Þegar hefur klak verið staðfest á þessu svæði, frá laxi sem fluttur var upp fyrir fossinn með bílum.

 

Þessa frétt er að finna á vef Veiðimálastofnunar