Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
18. júní 2009

Tilmæli til þeirra sem veiða, flytja og geyma riðlax til undaneldis

Í ljósi áberandi aukningar í tíðni nýrnaveikismits í villtum laxfiskum frá því haustið 2006 er brýnt að allir hagsmunaaðilar taki höndum saman svo snúa megi þróun mála. Umfang starfseminnar hefur vaxið stórum skrefum á liðnum árum. Síðastliðin tvö ár hafa tæplega 1.800 hrygnur verið kreistar á móti 240 hrygnum um aldamótin. Á sama tíma hafa litlar framfarir orðið í umgjörð þess er snýr að meðhöndlun á klakfiski og eldisstöðvum hefur ekki fjölgað.

 

Flestar vísbendingar eru í þá átt að ákveðnir þættir skipti höfuðmáli og ráði úrslitum um smit og smitmögnun í undaneldisfiski og skulu þau atriði ítrekuð hér:

 

Veiðar undaneldisfisks: Niðurstöður rannsókna benda eindregið til þess að göngufiskur sé almennt að koma nokkuð laus við nýrnaveikismit úr hafi og því nauðsynlegt að undan-eldisfiskur sé tekinn nýgenginn úr ánum og komið í geymslu við góðar aðstæður í smitfríu vatni. Mikilvægt er að fiskur sé óskaddaður.

 

Geymsla göngufisks við ána: Í mörgum tilfellum hefur þróun laxakista við árnar alls ekki fylgt eftir hvað stærð og geymslugetu varðar m.t.t. þeirrar miklu aukningar í fjölda fiska sem raun ber vitni hin allra síðustu ár. Þrengsli skapa kjöraðstæður til smitdreifingar og ætti ekki að geyma fleiri en tvo 2ja ára laxa eða fjóra smálaxa í 0,5m3 kistu og geymslutími ætti ekki að vera lengri en 2-3 dagar. Kistur úr tré ætti að forðast og ef nýttar eru tjarnir til geymslu skal áhersla lögð á að tryggja gott vatnsstreymi og að hitastig vatns stigi ekki um of.

 

Flutningur fiska í eldisstöð: Varast ber þrengsli við flutning og mikilvægt er að þrífa og sótthreinsa flutningskassa á milli flutninga til að draga úr smitálagi (sjá meðf. leiðbeiningar).

 

Geymsla fisks fram að hrognatöku: Á þennan þátt hefur mikið reynt hin síðari ár. Geymslurými hefur hvergi nærri fylgt eftir þeirri gífurlegu aukningu í fjölda fiska sem teknir hafa verið til kreistingar. Afar brýnt er að rúmt sé á fiski og reglan ætti að vera sú að geyma ekki fleiri en einn stofn í keri. Fiska úr þekktum „smituðum“ ám skal undir engum kringumstæðum geyma í bland við riðlax af öðrum vatnasvæðum. Auk geymslu-rýmis er ríkuleg vatnsendurnýjun í kerin (>0,5 líter/kg/mínútu) mikilvægur þáttur til að draga úr smiti.

 

Innlögn hrogna: Þetta er líklega sá þáttur sem best hefur fylgt þróun mála. Flestir aðilar hafa endurbætt hrognaaðstöðu með þeim hætti að hrognum mismunandi hrygna er haldið aðskildum sem komið hefur í veg fyrir óþarfa förgun heilbrigðra hrogna.

 

Slepping gönguseiða: Sú sleppiaðferð sem nú er langalgengust hefur komið vel út hvað endurheimtur varðar, en hún er ekki hagstæð m.t.t. smitvarna. Það að halda seiðum á mjög takmörkuðu svæði í „lokuðum“ tjörnum (í árvatninu) svo vikum skiptir er afar óheppilegt þegar kemur að sjúkdómavörnum, ekki síst ef villtir silungastofnar eiga þar aðgang. Með þessari aðferð er í raun stuðlað að því að allir fiskar taki smit, ef það á annað borð leynist í umhverfinu. Smitmögnun getur orðið umtalsverð áður en seiðum er sleppt á vit náttúrunnar. Það sem hægt er að gera til að draga úr smitálagi er að menn tryggi að í tjörnunum sé ekki að finna staðbundna villta laxfiska, ekki síst urriða- og bleikjustofna. Einnig gildir hin almenna regla um gott rými og ríkulegt vatnsstreymi.

 

 

Ítarefni og gagnlegar upplýsingar um nýrnaveiki á heimasíðum Matvælastofnunar og Keldna:

http://www.mast.is/flytileidir/dyraheilbrigdi/dyrasjukdomar/nyrnaveiki

http://www.keldur.hi.is/Apps/WebObjects/HI.woa/swdocument/1015058/Laxfiskar.pdf