Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
15. ágúst 2008

Laxveiðin í sumar

Laxveiðisumarið 2008 er nú ríflega hálfnað.  Mjög góð laxveiði hefur verið um allt land.  Það sem hefur einkennt þetta laxveiðisumar er að laxveiðin fór vel af stað í upphafi veiðitíma víðast hvar. Bæði kom smálaxinn (1 ár í sjó) snemma og í miklum mæli í ár á Vestur- og Suðurlandi jafnhliða því sem stórlax (2 ár í sjó) skilaði sér vel í árnar á Norður- og Austurlandi þar sem hann er jafnan í hærra hlutfalli en í öðrum landhlutum.

Miðað við sumarið 2007 er það mjög frábrugðið, en þá fór veiði mjög hægt af stað en tók svo verulegan kipp þegar komið var fram í ágúst og endaði í mjög góðu sumri. Þá var mjög úrkomulítið vor og sumarbyrjun auk þess sem snjóalög voru með minna móti. Árnar voru því vatnslitlar fram eftir sumri.

 

Helstu blikur á lofti hvað laxgengd varðar eru að smálax á Norðausturlandi sé ekki í þeim mæli sem væntingar voru um.  Seiðavísitölur hafa verið góðar í ám þar undanfarin ár og gönguseiði gengu með eðlilegum hætti til sjávar í fyrravor, þannig að skýringanna er ekki að leita í ánum.  Smálaxinn af þessu landsvæði hefur því líklega lent í erfiðum skilyrðum í hafinu einhvern hluta tíma síns þar.  Þetta bendir einnig til að verðandi smálax og stórlax á Norðausturlandi séu ekki á sömu beitarsvæðum í hafinu.  Í byrjun smálaxagöngunnar á NA-landi kom nokkuð af s.k. “örlöxum”, laxar sem voru einungis 800-1200 g að þyngd.  Þeir voru kynþroska þannig að þeir hafa dvalið veturinn úti í sjó en eru ekki að koma inn eftir sumardvöl í sjó, eins og þekkt er í undantekningar tilvikum. Í þeim tilvikum ná laxar ekki kynþroska. 

 

Ef veiði í ágúst og september verður í samræmi við fyrri hluta sumarsins má búast við því að laxveiðisumarið 2008 verði með þeim bestu frá því skráningar hófust.  Hluti af þessari góðu veiði er samt tengd því að nú er farið að sleppa veiddum löxum aftur lifandi í árnar í verulegum mæli. Hluti þeirra veiðist aftur og hækkar veiðitöluna þó laxgengdin sé sú sama.  Einnig hafa hafbeit/gönguseiðasleppingar til stangveiði verið tíðkaðar í nokkrum ám síðustu árin og hækkar það heildarveiðina á landinu öllu.  Samanburð á veiðitölum frá fyrri tíð við veiðitölur í dag þarf því að gera með það í huga.  

 

Þessa frétt er að finna á vef Veiðimálastofnunar