Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
7. ágúst 2008

Nýjar veiðitölur.

Við athugun á veiðitölum vikunnar sést að áframhald er á mjög góðri veiði í flestum ám.  Nú hafa Rangárnar, Ytri og Eystri tekið forystuna.  Sú Ytri er komin í 3344 laxa, en  Eystri áin í 2666.  Hvor um sig hafa þær skilað vel yfir 1000 löxum í síðustu viku, sem ég hygg að ekki hafi skeð hérlendis áður.  Af öðrum ám er Norðurá efst með 2420 laxa.  Margar aðrar ár hafa nú þegar farið fram úr heildaraflanum frá í fyrra.

Þann 30. júlí síðastliðinn höfðu alls veiðst 19.237 laxar í þeim 25 ám, sem L.V. fylgist með veiði í.  Gangi það eftir, sem stundum er reiknað með, að veiði tvöfaldist frá mánaðamótunum júlí / ágúst, þá stefnir líklega í metár.  Þann 1. ágúst 2007 höfðu þessar sömu ár aðeins gefið 8.744 laxa.

 

 Margir glöggir veiðimenn hafa veitt því athygli að síðan á 8. áratugnum hefur aldrei brugðist að veiði er góð þau árin, sem ártalið endar á 8.  Ég fór að skoða þetta nánar, yfir 30 ára tímabil, frá 1974 til og með 2003.

Best er veiðin þau ár sem enda á 8, eða 46,981 lax að meðaltali.  Þá '6, með 38452;  '5, með 37.248; '9, með 35.158; '7, með 34.616; '3, með 34.134; '2, með 33.582: '1, með 29.737; '0, með 28.902; og loks ár sem enda á tölunni 4, með 28.577.

Þó svo að þessar tölur séu réttar sem slíkar, þá eru þær meir settar fram í gamni en alvöru.  Ekki veit ég hvort munurinn telst marktækur.  En eftir stendur þó að að þau ár, sem enda á tölunum: 0, 1, 2, 3 og 4, skila meðalveiði upp á  30.987 laxa, meðan árin sem enda á 5, 6, 7, 8, og 9, skila 38.491 laxi að meðaltali. Kannske er um tíu ára sveiflur að ræða víðar en í rjúpnastofninum.   Þ.Þ.