Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
10. júlí 2008

Afmælisrit Landssambands veiðifélaga

Í tilefni þess að Landssamband veiðifélaga er 50 ára á þessu ári þá ákvað stjórnin að gefa út veglegt afmælisrit á þessum tímamótum. Árið 2007 skipaði stjórn LV ritnefnd og var henni falið að hafa umsjón með verkinu. Ritnefndina skipuðu þeir; Óðinn Sigþórsson, Einarsnesi, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson, Skálpastöðum, og Árni Snæbjörnsson, framkvæmdastjóri LV. Ritnefndin leitaði til fjölmargra aðila um efnisval og var ritun og útgáfu lokið í byrjun júní.

Ritið er 208 blaðsíður að stærð og í stóru broti. Efnisval er fjölbreytt þar sem leitast er við að fella saman heimildir og frásagnir af forystumönnum veiðimála fyrr og síðar, ásamt sögu LV og þróun löggjafar veiðimála. Einnig er þar fjallað um þróun stjórnsýslu og rannsókna. Afmælisritið er ríkulega myndskreytt, en auk mynda frá líðandi stundu, þá hefur Rafn Hafnfjörð lagt ritinu til fjölda mynda sem tengjast veiðimálum fyrr og síðar. Snorri Þorsteinsson, sagnfræðingur, frá Hvassafelli í Norðurárdal, var ritstjóri verksins og Prentsmiðjan Viðey sá um útgáfu þess. Afmælisritið var síðan kynnt á aðalfundinum og afhent fulltrúum og gestum.

 

Stjórn LV hefur ákveðið að bjóða öllum veiðifélögum landsins eitt eintak af afmælisritinu án endurgjalds, ef þau óska þess, en greiða þarf fyrir sendingarkostnað.

 

Beiðni um að fá ritið skal berast til LV, Bændahöllinni 107 Reykjavík eða á angling@angling.is

 

Afmælisritið er til sölu hjá Landssambandi veiðifélaga og kostar, án sendingarkostnaðar,  kr. 3.500 án VSK.