Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
9. júlí 2008

Landssamband veiðifélaga 50 ára

Landssamband veiðifélaga fagnar nú 50 ára afmæli sínu en það var stofnað í Borgarnesi 1958. Í tilefni afmælisins hefur Landssambandið gefið út mjög glæsilega afmælisbók upp á 200 blaðsíður.  

Úr fundarsalnum á aðalfundi LV. Fremstir á myndinni eru Jóhann G. Pétursson frá Stóru-Tungu á Fellsströnd og Þorkell Fjeldsted, Ferjukoti í Borgarfirði. Myndir: ÖÞ

Ritstjóri bókarinnar er Snorri Þorsteinsson, sagnfræðingur frá Hvassafelli í Norðurárdal en ritnefndina skipuðu þeir Óðinn Sigþórsson, formaður Landssambandsins, Árni Snæbjörnsson ráðunautur og Þorsteinn Þorsteinsson.

 

Ritið er mjög fjölbreytt efnislega og eru þar viðtöl við menn sem hvað mest hafa komið við sögu Landssambandsins, greinar um veiðimál og fleira. Fjölmargar ljósmyndir prýða ritið, bæði frá gamalli tíð og nýrri. Óðinn Sigþórsson sagði upphaflega hafa staðið til að gefa bara út blað í tilefni afmælisins, en þegar til kom var efnið það mikið að úr varð 200 blaðsíðna bók. Hann sagði ennfremur leitast við það með útgáfunni að fella í eina bók heimildir og frásagnir af forystumönnum veiðimála, sem hefðu átt þátt í mótun þess umhverfis sem menn búa nú við. Á þetta bæði við um veiðifélögin, samtök veiðimanna, stjórnsýslu og rannsóknir.

 

Sigurður Guðjónsson, forstjóri Veiðimálastofnunar, th. afhenti landssambandinu málverk að gjöf.

 

Aðalfundur Landssambandsins var haldinn í Borgarnesi dagana 13. og 14. júní sl. Auk venjulegra aðalfundarstarfa var haldin sérstök hátíðardagskrá að kvöldi 13. júní. Að sögn Óðins flutti Árni Mathiesen fjármálaráðherra hátíðarræðuna. Þá var Einari K. Guðfinnssyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra afhent fyrsta eintakið af afmælisbókinni.

Óðinn formaður ávarpaði stjórnmálamennina, afhenti þeim eintak af sögu L.V. og bað þá vel duga í sambandi við veiðimálin.

 

Fjölmargir góðir gestir voru boðnir til hófsins, sem var hið glæsilegasta. Þá voru heiðraðir fjórir menn, sem lagt hafa mikið af mörkum til veiðimála, með því að veita þeim gullmerki Landssambandsins og var þetta í fyrsta skipti sem það er gert. Þetta eru þeir Þór Guðjónsson fyrrverandi veiðimálastjóri, Einar Hannesson, sem lengi var framkvæmdastjóri Landssambandsins, Böðvar Sigvaldason frá Barði, sem var formaður Landssambandsins í 18 ár samfleytt og Þorsteinn Þorsteinsson frá Skálpastöðum, fyrrverandi formaður sambandsins, sem hefur unnið gríðarlega mikið starf á vettvangi veiðifélaga. (S.dór BBL)

Þorsteinn Þorsteinsson á Skálpastöðum th. og Þór Guðjónsson fyrrverandi veiðimálastjóri veittu viðtöku gullmerki L.V. á fundinum. Hér eru þeir ásamt formanninum, Óðni Sigþórssyni.

 

Hér þinga starfsmenn aðalfundarins, frá vinstri: Árni Snæbjörnsson framkvæmdastjóri L.V., Þórólfur Sveinsson sem var fundarstjóri og ritararnir Birna Konráðsdóttir og Jón Benediktsson.

 

Bragi Björgvinsson á Eiríksstöðum t.v og Gunnar Guttormsson Litla-Bakka, fulltrúar Veiðifélegs Jökulsár á Dal, glaðbeittir í fundarlok.

 

Þessa frétt er að finna í Bændablaðinu