Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
5. mars 2008

Sveiflur í lífríki Mývatns útskýrðar

Tímaritið Nature birtir á morgun grein um stofnbreytingar í Mývatni, en þar eru mýflugur afar mikilvægar. Í greininni er fjallað um niðurstöður rannsókna sem beinast að því að útskýra þær miklu sveiflur sem orðið hafa í lífríki Mývatns undanfarna fjóra áratugi. Sveiflurnar hafa meðal annars orðið til þess að bleikjuveiði í þessu fræga veiðivatni heyrir nú sögunni til.

 

Forsvarsmaður þessarar rannsóknar er Anthony R. Ives, prófessor í stofnvistfræði við Wisconsin háskóla í Bandaríkjunum, en með honum rita þeir Árni Einarsson forstöðumaður Náttúrurannsóknastöðvar við Mývatn, Vincent Jansen, prófessor við Royal Holloway College, Lundúnum, og Arnþór Garðarsson, prófessor við Háskóla Íslands. Í greininni er kynnt nýtt reiknilíkan fyrir mýflugustofna, en fræðileg reiknilíkön sem fyrir voru hafa engan veginn dugað til þess að skýra sveiflurnar í Mývatni.

 

Mýstofnar geta sveiflast eftir áður óþekktum lögmálum

Nýja reiknilíkanið sýnir að mýstofnar geta sveiflast eftir lögmálum sem áður voru óþekkt í vistfræðinni. Þeir geta haldist í jafnvægi um hríð en síðan tekið að sveiflast af litlu tilefni. Lítils háttar röskun í umhverfinu getur valdið því að stofnarnir missa jafnvægið og taka að sveiflast.

Þeir geta náð jafnvægi á ný af álíka litlu tilefni. Tímabil jafnvægis og sveiflu skiptast hratt á og útkoman verður sveifla með óreglulegri tíðni sem líkist þeirri sem mælst hefur í Mývatni.

 

Reiknilíkanið spáir einnig um hæð og lægð mýsveiflunnar en þar ræður úrslitum hve mikið af fæðu berst mýlirfunum af grynnri hlutum vatnsins. Mýflugustofnar stjórnast af fæðuframboði fyrir ungviðið, mýlirfurnar sem alast upp í botnleðjunni í dýpri hluta vatnsins og nærast á lífrænum setögnum og kísilþörungum. Rannsóknin sýnir að lítils háttar röskun á tilflutningi fæðu af grunnsvæðum vatnsins til dýpri hluta þess getur valdið allsherjar fæðuskorti og hruni í átustofnum.

 

Smá röskun gefur valdið mikilli sveiflu

Niðurstöðurnar varpa ljósi á áhrif kísilgúrvinnslu á lífríki Mývatns. Stofnsveiflur mögnuðust fljótlega eftir að námugröftur á vatnsbotninum hófst árið 1967, en starfseminni var hætt árið 2004. Orsakasamhengið milli röskunar á botni Mývatns og átubrests í vatninu liggur nú ljóst fyrir, fræðilega séð, samkvæmt upplýsingum frá Árna Einarssyni.

 

Í stærra samhengi hafa niðurstöður rannsóknarinnar talsverða þýðingu. Þær sýna hvernig smá röskun á umhverfinu getur valdið margfaldri sveiflu í vistkerfinu og þannig haft afdrifarík áhrif á lífsafkomu okkar. Er vel hugsanlegt að svipuð lögmál komi við sögu í lífríki hafsins og nú hafa komið í ljós í Mývatni, segja Árni og þeir sem unnu að rannsókninni.

 

 

Þessa frétt er að finna á vefnum mbl.is