Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
26. nóvember 2007

Húsið við Norðurá

Hér fyrir neðan er áhugaverð samantekt frá Sturlu Friðrikssyni, en hún birtist í fréttamiðlinum Skessuhorni.

 

 

Í ár eru 100 ár liðin frá því fyrsta veiðihúsið við Norðurá var byggt. Húsið reisti faðir minn Friðrik Jónsson eigandi jarðarinnar Laxfoss í Stafholtstungum. Fékk hann vin sinn Jón Blöndal lækni í Stafholtsey til að velja húsinu stað og var það að hans tillögu reist á kletti rétt vestan við fossinn Laxfoss, eins og Björn J. Blöndal lýsir í bók sinni Norðurá fegurst áa.

 

Veiðihúsið á Rjúpnahæð við Norðurá ©BTh

 

Guðmundur Daníelsson í Svignaskarði flutti byggingarefni að Laxfossi. Fékk hann nafna sinn Guðmund Bjarnason, sem kallaður var stórsmiður, til þess að reisa kofann. Má enn sjá á veggjum hússins að fjalirnar voru merktar móttakanda með vaxlit.

 

Faðir minn stundaði laxveiðar á stöng í ánni fyrir Laxfoss-landi frá upphafi 20. aldar og bjó þá fyrst í tjaldi. Hann keypti fimm aðrar jarðir, sem áttu land að ánni, til þess að stækka veiðisvæðið. Lét hann taka upp lagnir og friða ána fyrir netaveiði. Þessi fyrstu ár var hann oft á veiðum með félaga sínum Guðmundi Magnússyni lækni og prófessor. Eftir að húsið var byggt árið 1907 bjuggu þeir í húsinu um veiðitímann. Þennan kofa kallaði Guðmundur prófessor, Fosshöll.

„Höll” þessi var að vísu aðeins skúr með tveimur herbergjum: Stofu, sem enn er í miðju húsi og suðurherbergi, sem þá var með glugga í austur að ánni. Var gengið inn í húsið að austanverðu upp trétröppur.

Þeim veiðifélögum þótti illt að hafa ekki matráðskonu. Úr því var bætt og byggt við eldhús og svefnherbergi inn af því árið 1913. Þá var loks komið lítið hús, sem með árunum óx og stækkaði í ýmsar áttir.

 

Faðir minn dvaldist aðeins skamman tíma við þessar veiðar, en tók fljótlega að leigja veiðina út til enskra stangveiðimanna. Fyrsti Englendingurinn sem kom til veiða við Norðurá var maður að nafni Cross, sem veiðistaðurinn Krosshola er nefnd eftir. Þarna veiddi einnig biskup af Aberdeen, sem þótti ágætur laxveiðimaður. Vera þessara manna við fossinn þótti nokkuð nýstárleg þarna í sveitinni.

Haustið 1925 föluðust tveir Englendingar eftir veiðinni í Norðurá og fengu ána leigða sumarið eftir, það voru þeir Geoffrey Aspinall og Malcolm A. Kennard. Báðir höfðu verið kapteinar í breska hernum. Var Aspinall þar síðan við veiðar næstu tíu árin. Eru herbergi hússins kölluð eftir nöfnum þessara manna og lifir minning þeirra þannig.

Guðbrandur Jónsson prófessor ritaði undir skáldaheitinu Einar Skálaglamm bókina Húsið við Norðurá um ófarir enskra laxveiðimanna við Norðurá, 1926. Bókin er fyrsta íslenska leynilögreglusagan, sem í dag er eitt vinsælasta skáldsagnarform íslenskra höfunda. Í byrjun sögunnar er húsinu lýst og talað um blóðrauðan lit þess, en þakið blasti við áberandi rautt í grænum skóginum og féll því vel inn í hið spennuþrungna andrúmsloft sögunnar.

 

Vorið 1930 var Kristjáni tíunda, Danakonungi boðið til veiða að Laxfossi, bjó þá hirðfólk konungs í veiðihúsinu og eru ýmsar minjar enn til frá þeim tíma. 

 

Sumarið 1939 bjó í húsinu, síðastur Englendinga, maður að nafni Pope og veiddi við Laxfoss, en um haustið skall síðari heimsstyrjöldin á. Upp frá því hefur áin verið leigð Íslendingum. Stangveiðifélag Reykjavíkur hefur lengst af haft ána á leigu og dvöldust félagsmenn til að byrja með í þessu húsi, þar til þeir reistu nýtt veiðihús á Rjúpnahæð í landi Litla-Skarðs.

 

Á árunum 1970-74 byggðu ég og kona mín, Sigrún Laxdal nýjan byrðing yfir gamla húsið. Var þá enn bætt við herbergjum og viðbyggingar frá ýmsum tímum sameinaðar undir nýju þaki. Gamla húsið stendur að mestu óhaggað innan þessa nýja ramma.

 

Við húsráðendur, ásamt dóttur okkar Sigrúnu Ásu og fjöskylda hennar, minntust 100 ára sögu hússins á Laxfossi fyrir nokkru að viðstöddum meðlimum úr stjórn Veiðifélags Norðurár.

 

Sturla Friðriksson, Laxfossi.

 

Þessa samantekt er að finna á vef Skessuhorns (23.11.2007)