Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
18. september 2007

Laxveiðiám fagnað í nýrri bók

Yfir fimmtíu laxveiðiám í tólf löndum, þar á meðal Íslandi, eru gerð skil í nýrri bók Verndarsjóðs villtra laxa, A Celebration of Salmon Rivers. Bókin kemur út á Norðurlöndunum, á Bretlandseyjum og í Norður-Ameríku á næstu dögum.

 

Karl Bretaprins skrifar formála að bókinni, en umsagnirnar skrifa rúmlega fimmtíu manns og skrifar hver um sína uppáhaldsá. Orri Vigfússon, stofnandi og stjórnarformaður verndarsjóðsins, segist afar stoltur af bókinni sem er unnin að nánast öllu leyti í sjálfboðavinnu. Allur ágóði sem hlýst af bókinni mun einnig renna beint í sjóðinn.

„Atlantshafslaxinn er alveg einstakur," segir Orri. „Þegar hann nær ákveðinni stærð yfirgefur hann sína heimaá, heldur til sjávar og er þar í eitt til fimm ár. Að því loknu finnur hann sína heimaá aftur."

 

Orri, sem er mikill laxveiðimaður, kom verndarsjóðnum á fót árið 1989 þegar honum þótti útlitið afar slæmt fyrir stofninn sökum ofveiði. Aðferðin sem sjóðurinn notar þótti nýstárleg á sínum tíma, en þar er sjómönnum og öðrum veiðimönnum greitt sérstaklega fyrir að veiða laxinn ekki.

 

Að sögn Orra hefur þessi aðferð skilað því að laxastofninn er nú aftur kominn í þokkalegt horf, og lítur út fyrir að staðan batni á næstu árum. 

 

Þessa frétt er að finna á vefnum visir.is (18.09.2007)