Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
16. nóvember 2006

Silungsveiði á Íslandi - vannýtt tækifæri

Landssamband Veiðifélaga hefur haft forgöngu um gerð frumskýrslu er varðar vannýtt tækifæri í silungsveiði á Íslandi. Hér að neðan er úrdráttur fumskýrslu.

 

"Á árunum 1980 til 1991 stóð Landssamband veiðifélaga fyrir útgáfu á ritaröðinni "Vötn og veiði". Alls komu út 12 rit þar sem veiðivötnum, allt í kring um landið er lýst, ásamt hagnýtum upplýsingum um aðstæður, aðkomu og sölu veiðileyfa. Inn í skrá þess voru teknar nokkrar silungsár, en við skráningu voru einungis tekin með veiðivötn þar sem seld voru veiðileyfi eða vitað að veiði var möguleg. Skráin nær til um 450 veiðivatna. Jafnframt kemur þar fram að í landinu séu um 1100 vötn þar sem silung er að finna. 

 

 

Í sömu heimild er þess getið að silungsveiði geti verið í nær öllum vötnum á Íslandi, sem þá eru talsvert fleiri eins og áður greinir. Þá er ótaldar laxveiðiár þar sem jafnframt er silungsveiði, auk silungsveiða í sjó sem víða eru stundaðar.

 

Erfitt er að fullyrða um fjölda silungsvatna. Í meðfylgjandi skýrslu verður gengið út frá skráningu veiðivatna eins og hún kemur fram í ritunum "Vötn og veiði" og eru þá meðtaldar rúmlega 70 silungsár. Í skýrslu þessari er miðað við 455 veiðivötn til silungsveiða. Þess ber þó að geta að víða liggja allmörg vötn saman og til einföldunar er það talið eitt veiðivatn. Þá eru silungsár augljóslega vantaldar í 3 ofangreindum heimildum. Auk þess er fjöldi laxveiðiáa þar sem jafnframt er silungsveiði.

 

Í fasteignamati frá 1942 eru 1709 jarðir skráðar með silungsveiði. Samkvæmt könnun á vegum Orkustofnunar árið 1988 eru um 1850 stöðuvötn á landinu stærri en 0,1 ferkílómetri (10 ha). Af þeim eru 190 stærri en 1 ferkílómetri.

 

Með vaxandi áhuga á stangveiði – ekki síst silungsveiði – er ljóst að miklir möguleikar eru fyrir hendi til aukinnar verðmætasköpunar til landeigenda, þjónustuaðila og annarra.

 

Vaxandi áhuga á silungsveiði í ám og vötnum þarf að fylgja eftir með markvissum aðgerðum. Til þess að ná betri árangri í skynsamlegri nýtingu hennar og auknum tekjum af greininni, þá er samstaða um aðgerðir á hverjum stað algjör forsenda. Ljóst er að veiðileyfi seljast mun betur þar sem aðstaða og aðgengi er gott og þar er vissulega verk að vinna.  Stangveiði framtíðarinnar mun byggjast á því að greiður aðgangur sé að þessum veiðum og að öll aðstaða sé sem best. Ungir sem aldnir, efnaðir og efnaminni þurfa allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Því þarf að leggja vegi, koma upp hreinlætisaðstöðu, byggja íveruskýli eða veiðihús og jafnvel gera bryggjur og hafa aðstöðu fyrir báta. Þá eru rannsóknir á veiðivötnunum nauðsynlegar, ásamt góðum og markvissum leiðbeiningum til veiðimanna, jafnvel leiðsögn. Náin samvinna við aðila í ferðaþjónustu er á allan hátt æskileg og góð. Ásamt verklegum aðgerðum og úrbótum þá er skipuleg markaðssetning og kynning undirstöðuatriði.

 

 

Til þess að svo megi verða er ljóst að aðgerða er þörf. Þar eru atriði eins og aðgengi, aðstaða og kynning grundvallaratriði. Í raun má taka til fyrirmyndar þó þróun sem orðið hefur við ræktun, sölu og uppbyggingu laxveiða.

 

Í skýrslu Hagfræðistofnunar frá 2004 kemur fram að tekjur af netaveiddum laxi fyrir þjóðarbúið sé aðeins 1/36 af meðalvirði hvers fisks sem veiddur er á stöng. Leiða má sterk rök að því að svipað hlutfall kæmi upp varðandi silungsveiði, ef vel væri búið að þeim sem vilja veiða silung á stöng. Þetta hefði gríðarleg áhrif fyrir ferðaþjónustu og þjóðarbúið í heild. Þar eru mörg ónotuð tækifæri sem bíða þess að verða fullnýtt.

 

Eins og fram hefur komið er aðstaða, aðbúnaður og kynning nauðsynlegir grunnþættir varðandi framtíðaruppbyggingu vegna silungsveiða. Aðstæður er afar breytilegar og því getur verið mismunandi hversu mikilla framkvæmda er þörf. Ef byggja á upp bætta aðstöðu til silungsveiða, líkt og gert hefur verið við laxveiðar, þá liggur fyrir að mjög víða verður að ráðast í verulegar framkvæmdir. Slíkar framkvæmdir eru kostnaðarsamar í byrjun, en eru nauðsynlegar með framtíðarmöguleika og auknar tekjur í huga.

 

Í skýrslu þessari eru tekin fyrir um 455 silungsveiðisvæði. Sýnt er fram á að með markvissri uppbyggingu silungsveiða, bæði við ár og vötn, þá má reikna með að slíkar aðgerðir skili verulegum/auknum verðmætum.

Í skýrslunni er reiknað er með að heildarfjáfesting sé veruleg eða um kr. 2.6 milljarðar. Niðurstöðurnar sýna jafnframt að með uppbyggingu og kynningu geti brúttóvelta silungsveiða verið 953 milljónir króna á ári að fimm árum liðnum og að hagnaður á fimmta ári orðið um 327 milljónir ári ef farið verður í markvisst átak til þess að nýta þessa auðlind. Þá er eftir að taka tillit til afleiddra tekna sem margfalda umræddar niðurstöður.

 

Í skýrslu Hagfræðistofnunar frá 2004 kemur fram að efahagsleg umsvif, sem lax-og silungsveiði hafa á hagkerfið, sé um 6 sinnum meiri en brúttótekjur veiðifélaga og leigutaka. Sterk rök má leiða að því að efnahagsleg áhrif af silungsveiðum verði meiri. Erlendir veiðimenn, sem koma til silungsveiða, dvelja lengur í landinu en þeir sem koma vegna laxveiða. Þeir njóti því meiri þjónustu annarra aðila í ferðaþjónustu en þeir sem koma eingöngu til laxveiða. Með rökum Hagfræðistofnunar má því telja að efnahagsleg áhrif silungsveiða geti orðið 5 – 7 milljarðar króna á ári.

 

Ítrekað skal að ekki er um tæmandi úttekt að ræða, skýrslan tekur einungs til helstu svæða til silungsveiða.

 

Hér er skýrslan sem Pdf-skjal

 

Hér er skýrslan sem Word-skjal

 

Viltu gerast áskrifandi að fréttum angling.is?