Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
12. september 2006

Sár eftir sæsteinsugu greinast á sjóbirtingum í Kúðafljóti

Nú síðsumars bárust fréttir af einkennilegum sárum á veiddum sjóbirtingum í Kúðafljóti í Vestur-Skaftafellssýslu. Fiskarnir voru yfirleitt með eitt eða tvö, djúp hringlaga sár á kviði milli eyrugga og kviðugga, en einnig fundust sár framarlega á baki. Úr einni veiðiferð greindust m.a. sár á fjórum  af fimm veiddum fiskum. Fljótlega varð sú tilgáta sett fram að um væri að ræða för eftir steinsugu líklega sæsteinsugu (Petromyzon marinus).

 

 

Ferskur fiskur með sár var sendur í sjúkdóma- og vefjarannsókn á Rannsóknadeild fisksjúkdóma að Keldum og hefur sú rannsókn gefið til kynna að ekki sé um neinn þekktan fisksjúkdóm að ræða. Þannig þrengdist hringurinn um mögulegan sökudólg. Aflað var álits hjá erlendum sérfræðingi í Bandaríkjunum, sem sérhæfir sig í rannsóknum á sæsteinsugu, skoðaði hann myndir af sárum og var sammála greiningu okkar á sökudólgnum. Sæsteinsuga er frumstæður fiskur af flokki hringmunna og um leið frumstæðasti hópur hryggdýra. Sár af völdum Sæsteinsugu hafa ekki áður verið greind á laxfiskum hér við land, en af samtölum við veiðimenn við Kúðafljót er þetta ekki fyrsta árið sem slík sár sjást, en aldrei fyrr í slíkum mæli sem nú. Verði veiðimenn varir við sár á sjógengnum fiskum væru upplýsingar um það vel þegnar á Suðurlandsdeild Veiðimálastofnunar.
 
Útbreiðsla: Sæsteinsuga finnst um norðanvert Atlantshaf, beggja megin atlantsála, en finnst einnig í Miðjarðarhafi en ekki í Svartahafi og fyrir botni Miðjarðarhafs. Hún hefur fundist all-nokkrum sinnum hér við land og er að öllum líkindum flækingur. Bjarni Sæmundsson getur þess í bók sinni Fiskarnir, frá árinu 1926, að tegundin sé ekki mjög sjaldgæf hér við land, en Jónas Hallgrímsson getur hennar fyrstur, á 19. öld, í handriti.
 
Lífsferill: Sæsteinsugan líkist helst álnum við fyrstu sýn, en samlíkingin endar með útlitinu, þar sem tegundin lifir sníkjulífi á heilbrigðum fiskum. Í stað kjálka hefur hún hringlaga sogmunn og inni í honum fjölda tanna, sem eru ætlaðar til að raspa og rífa hold hýsilsins. Hún lifir á holdi og líkamsvessum fórnardýrs síns og hefur í munnvatni sínu efni sem hindrar blóðstorknum, en þannig hindrar hún að sár lokist.
 
Sæsteinsuga hrygnir að vori eða snemma sumars í ferskvatni, á malarbotni, þar sem  stærð steina er sú sama og lax og urriði velja sér. Foreldrar vinna saman að holugeftri, þær eru oftast um 1 m í þvermál og u.þ.b. 15 cm djúpar. Hrygnan gýtur allt að 100.000 hrognum og getur hrygning staðið yfir í allt að tvo daga. Hængurinn frjóvgar hrogn á líkan máta og gerist hjá laxfiskum. Hrygnan drepst stax að lokinni hrygningu og hængurinn drepst eftir einn til tvo daga.  Hrognin klekjast út eftir u.þ.b. tvær vikur og er lirfan  gjörólík foreldrunum. Eftir viku til tíu daga yfirgefur lirfan riðaholuna og berst með straumi niður ána, þangað sem straumur er minni og botn fíngerðari.  Þar grefur hún sig  í árbotninn og lifir þar á lífrænum leifum og jafnvel smádýrum þar til hún nær 10 cm lengd eða meira (3-8 ára).  Þá myndbreytist hún og tekur á sig mynd foreldranna og gengur til sjávar. Í sjónum tekur hún upp sníkjulífi á ýmsum tegundum fiska. Sæsteinsuga dvelur í sjó í eitt til tvö ár, verður allt að 1,2 m að lengd við kynþroska. Þegar kynþroska er náð gengur hún aftur upp í ferskvatn og notar háþróað lyktarskyn til að finna leiðina að hentugum hrygningarstað, en talið er að lirfur sæsteinsugunnar losi lyktarhormón sem þær fullorðnu skynja og rata þannig á riðaslóð. 
 
Þessa frétt er að finna á vef Veiðimálastofnunar (11.09.06)
 
Viltu gerast áskrifandi að fréttum angling.is?