Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
3. september 2006

Brennihvelja og bláhvelja algengastar hér við land

Frekar lítið er vitað um lifnaðarhætti og útbreiðslu marglyttna hér við land og sérstök rannsókn hefur ekki farið fram í þeim efnum. Staðið hefur til að framkvæma slíka rannsókn, en fjármagn ekki fengist til þess enn sem komið er.

Eins og komið hefur fram í fréttum Morgunblaðsins hafa marglyttur skaðað eldislax í kvíum á Mjóafirði.

Marglyttan telst til svifdýra, enda svífur hún um í sjónum og hefur takmarkaða möguleika til hreyfingar af eigin rammleik. Ástþór Gíslason, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, segir að lítið sé vitað um útbreiðslu marglyttu hér við land miðað við annars staðar. Ljóst sé hins vegar að talsvert sé af henni, en tvær tegundir séu algengastar hér, svonefnd brennihvelja og bláhvelja. Sennilegast sé það brennihveljan sem hafi valdið skaðanum á Mjóafirði.

 

Þekkt hætta

Ástþór sagði að marglyttur lifðu í uppsjónum og gætu orðið allt að einn metri í þvermál þær stærstu. Marglyttan aflaði sér fæðu með löngum öngum, sem alsettir væru sérstökum frumum sem kallaðar væru stingfrumur. Í stingfrumunum væri broddur og eitur, sem gæti lamað smádýr í sjónum. Þetta væri það sem ylli skaðanum í fiskeldinu, því þegar hveljurnar kæmust í snertingu við fiskinn gætu þessir þræðir með stingfrumunum losnað frá og valdið sárum á búk og jafnvel tálknum fisksins og hugsanlega drepið hann.

 

Ástþór sagði að marglyttur væru þekkt hætta í kvíaeldi. Þær hefðu áður valdið skaða í þessum efnum og Hafrannsóknastofnun hefði haft uppi áform um að setja á stað rannsóknaverkefni til þess að skoða líffræði og vistfræði marglyttna. Sótt hefði verið um styrk til þess en hann hefði ekki fengist ennþá.  

 

Þessa frétt er að finna á vefnum mbl.is (03.09.06)

 

Viltu gerast áskrifandi að fréttum angling.is?