Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
16. nóvember 2005

Skil á veiðibókum

Veiðiréttarhafar og aðrir þeir sem sjá um skráningu á veiði eru beðnir um að koma veiðibókum með skráningu veiðinnar 2005 til Veiðimálastofnunar sem allra fyrst. Bent skal á að senda má ljósrit af bókunum.

Skráning laxveiði á Íslandi er með því besta sem gerist og má þakka það góðri samvinnu Veiðimálastofnunar, veiðiréttareigenda og veiðimanna. Mikilvægt er að allir veiddir fiskar séu bókaðir ásamt umbeðnum upplýsingum svo sem dagsetningu, veiðistað, tegund, kyni, þyngd og lengd eins og dálkarnir í veiðibókinni segja til um.

Með því að skrá númer veiðistaða í veiðibókina fæst yfirlit yfir fjölda veiddra fiska eftir veiðistöðum, en það getur m.a auðveldað mat á fiskræktaraðgerðum, tilfærslum á veiði og sparað mikla vinnu og kostnað við skiptingu arðs á milli veiðiréttarhafa. Æskilegt er að veiðistaðanúmer séu yfirfarin af einhverjum sem vel þekkir til staðhátta. Númer veiðistaða þurfa að vera heilir tölustafir á bilinu 1-999.

Skráning silungsveiði hefur batnað hér á landi þó enn megi þar bæta. Verðmæti og eftirspurn eftir silungsveiði hefur farið vaxandi á undanförnum árum og mikilvægt að hún sé einstaklingsskráð á sama hátt og tíðkast hefur með laxveiði.

 

Þegar veiðibækur berast Veiðimálstofnun eru þær tölvuskráðar og unnið yfirlit yfir mælda þætti. Að því loknu eru gömlu veiðibækurnar ásamt yfirliti endursendar, ásamt nýjum veiðibókum, til skráningar veiði á næsta veiðitímabili. Mikilvægt að veiðibækur séu merktar með nafni ár og nafni sendanda/viðtakanda. Það sama gildir um ljósrit ef þau eru send.

 

Þegar breytingar verða á umsjón með veiðiskráningu þarf að gera Veiðimálastofnun viðvart svo leita megi til réttra aðila. Frekari upplýsingar veitir:

Guðni Guðbergsson, Veiðimálastofnun, Vagnhöfða 7, 110 Reykjavík.  Sími 5676400,

Tölvupóstfang: gudni.gudbergsson@veidimal.is

 

Þessa frétt er að finna á vef Veiðimálastofnunar (15.11.05)

 

 

Viltu gerast áskrifandi að fréttum angling.is?