Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
10. nóvember 2005

Fróðlegar niðurstöður um göngur laxa

Jorge H. Fernández Toledano hélt miðvikudaginn 12. október, fyrirlestur um meistaraprófsverkefni sitt við líffræðiskor raunvísindadeildar Háskóla Íslands.

Verkefnið snýst um rannsóknir hans á laxveiðum á stöng, göngur laxa í ár á Vesturlandi og lífsskilyrði þeirra í sjó. Athuganir á langtímaveiðigögnum á laxi benda til þess að

breytileika í laxagengd megi að stórum hluta rekja til þess tíma sem laxinn dvelur í sjó. Rannsóknir hafa sýnt að samband er á milli umhverfisskilyrða í sjó og laxagengdar og veiði. Þekking á þeim þáttum, sem áhrif hafa á laxagengd, er grundvallaratriði við veiðistjórnun.

Stór hluti laxveiðinnar á Íslandi er í ám á Vesturlandi. Í þessu rannsóknarverkefni var breytileiki í laxveiði í ám á Vesturlandi skoðaður og borinn saman við gögn um sjávarhita, gögn um dýrasvif og fleiri þætti. Niðurstöður verkefnisins benda til þess að umhverfisskilyrði í hafinu suðvestur af Íslandi hafi mikil áhrif á allt lífríki svæðisins og á viðgang laxins á Vesturlandi. Leiðbeinandi í þessu verkefni var Sigurður Guðjónsson, forstjóri Veiðimálastofnunar. Sigurður sagði í samtali við Bændablaðið að ýmislegt fróðlegt væri að finna í þessu meistaraprófsverkefni Jorge Fernández Toledano. Hann hafi skoðað laxveiðina á Vesturlandi sem endurspegli laxgengdina. Hann reyni að tengja laxagöngurnar við umhverfisþætti út í sjó. Hann notar gögn um sjávarhita og dýrasvif og finnur ákveðnar vísbendingar um hvar laxinn geti haldið sig suðvestur af landinu. ,,Hann sér að þetta svæði andar allt í takt, það er að segja menn sjá sveiflur í laxinum og sveiflur í dýrasvifinu á sama tíma. Þannig er vistkerfið og laxinn er bara hluti af því,“ sagði Sigurður Guðjónsson.

 

Þessa frétt er að finna í Bændablaðinu (08.11.2005)

 

Hægt er að sækja Bændablaðið í heild sinni, pdf-format á þessari vefslóð. Til þess að geta opnað skjölin þarf að vera með Acrobat Reader sem hægt er að nálgast hér. 

 

 

Viltu gerast áskrifandi að fréttum angling.is?