Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
28. apríl 2005

Mismunandi lífssaga laxastofna milli landshluta

Aðstæður í hafinu virðast ráða mestu

 

Mörgum eru kunnar miklar sveiflur í laxveiði frá einu ári til

Þórólfur Antonsson

annars og að sveiflurnar eru mun meiri norðanlands og austan, heldur en sunnanlands og vestan. Verulegur munur er, bæði milli einstakra áa og ekki síður landshluta, í stærð hrygningarstofns frá ári til árs, seiðaþéttleika, vaxtarhraða seiða, aldri gönguseiða, stærð gönguseiða og niðurgöngutíma þeirra.

Frumorsakir þessara þátta má rekja til breytileika í umhverfisaðstæðum. Þegar laxinn snýr síðan til baka úr hafi er einnig mikill munur á milli landshluta í dánartíðni í hafi, göngutíma úr sjó og dvalartíma þar. Rannsóknir í þremur lykilám á mismunandi landsvæðum hafa verið grundvöllur þess að nema og skýra þennan mismun í lífssögulegum þáttum frá einum landhluta til annars.

Þetta eru niðurstöður rannsókna sem Þórólfur Antonsson, líffræðingur með masterspróf í fiskifræði, hefur unnið að síðustu árin.

 

Hann hefur starfað við rannsóknir á laxfiskum á Veiðimálastofnun frá 1982. Hann flutti erindi um þetta mál í fundasal Landbúnaðarháskóla Íslands í Keldnaholti fyrir nokkru.

 

Meiri afrakstur í sunnlensku ánum

Í samtali við Bændablaðið sagði Þórólfur að aðstæður í hafinu ráði mestu um breytilega afkomuna hjá laxastofnunum frá einu ári til annars. Hann segir að ef farið er frá SVesturlandi vestur og norður fyrir land er vaxandi breytileiki í umhverfisskilyrðum, í stofnstærð og ýmsum lífsögulegum þáttum svo sem aldri í ferskvatni, göngutíma seiða eða hversu gamall fiskurinn er að skila sér úr sjó aftur. Ef farið er frá N-Austurhorni landsins vestur og suður fyrir er mikil aukning í þéttleika smáseiða, vexti þeirra og endurheimtu úr sjó. ,,Þetta þýðir einfaldlega meiri afrakstur af hverjum fermetra framleiðandi botns ánna á Suður og S-Vesturlandi en fyrir norðan og austan," segir Þórólfur.

 

Ástæðuna fyrir þessu segist hann tengja mest við umhverfisskilyrði bæði í hafinu og ánum. Í ánum kemur þetta þannig fram að í ám á Norðurlandi er styttri vaxtartími seiða þar sem sumarið er þar styttra og sveiflukenndara en á Suðurlandi. Þegar koma stífar

norðanáttir fellur allt í dróma í norðlensku ánum og vaxtarhraðinn minnkar. Eins ganga seiðin seinna í slíku árferði. Þau eru búin að vera nokkur ár í ánni en fjöldi gönguseiða er loka afrakstur árinnar.

 

Skilyrði í sjó skipta miklu

Þegar kemur að hafinu vitum við að fyrir sunnan og vestan er hlýr sjór ríkjandi en fyrir norðan er það að norðan ráða ríkjum eins og var á hafístímabilinu 1965 til 1970. Slík staða er mjög óhagstæð þegar seiðin eru að ganga til sjávar. Allt þetta eykur á breytileikann í endurheimtum og vextinum í sjónum. Þórólfur segir að lax hafi verið mjög lélegur á hafísárunum, einkum á Norð-Vesturlandi. Þetta tengist einhverjum aðstæðum og fæðuskilyrðum í hafinu en menn vita ekki nákvæmlega hvernig það ferli gengur til.

 

Þórólfur segir að endurheimtur þeirra seiða sem ganga til sjávar séu 2-3% í Norðurlandsánum á meðan þær eru frá 6-10% í ám á Suður- og Vesturlandi. Þar er aftur á móti mest um smálax, fisk sem hefur dvalið eitt ár í sjó en fyrir norðan er mun hærra hlutfall af tveggja ára laxi. ,,Síðustu einn eða tvo áratugina hefur hlutfall stórlaxins hins vegar verið að lækka. Það á ekki bara við Ísland heldur allt Atlantshafið. Menn vita ekki nákvæmlega hvað veldur þessu en það virðast tengjast beitarsvæðum í hafinu þar sem stórlaxinn heldur sig, sem hafa verið óhagstæð," segir Þórólfur Antonsson.

 

Þessa frétt er að finna í Bændablaðinu (26.04.05).

 

Hægt er að sækja Bændablaðið í heild sinni, pdf-format á þessari vefslóð. Til þess að geta opnað skjölin þarf að vera með Acrobat Reader sem hægt er að nálgast hér. 

 

Viltu gerast áskrifandi að fréttum angling.is?