Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
25. apríl 2005

Umhverfisslys við Skorradalsvatn

Veiðimenn og sumarbústaðaeigendur við Skorradalsvatn hafa orðið vitni að ljótri meðferð á lífríki vatnsins sem hefur náð hámarki sl tvo vetur.

 

Þeir aðilar sem reka Andakílsárvirkjun hafa hækkað og lækkað í vatninu ótæpilega með þeim afleiðingum að gríðarlegur munur er á hæsta og lægsta vatnsborði vatnsins, landbrot og gróðurskemmdir hafa orðið og líklega verður erfitt að nokkru sinni mæla það tjón sem orðið hefur á lífríki vatnsins.

Þá hljóta menn að spyrja sig hvaða áhrif slíkar hræringar geta haft á lífríki Andakílsár sem er góð laxveiðiá og jafnframt með sterkan stofn sjóbleikju.

 

Þeir Ólafur Kr.Ólafsson deildarstjóri veiðideildar Intersports og Einar S. Einarsson, fyrrum forstjóri VISA eru í hópi húseigenda í Skorradalnum og segja þeir aðfarirnar lengi hafa verið ámælisverðar svo ekki sé meira sagt, en í vetur hafi gersamlega keyrt um þverbak.

 

“Ég get sagt ykkur, að í desember voru tveir metrar frá hurðum á bátaskýlinu okkar að vatnsborðinu, en í dag eru það 34 metrar. Virkjunin safnaði og safnaði allt fram í mánaðamót mars-apríl, en þá var bara tekinn tappi úr og vatnsborðið hefur gersamlega hrunið. Við erum að tala um 60 cm lækkun á vatnsborði í vatni sem er 14 km langt og að meðaltali 2 km á breidd, þannig að það er ekkert smáræði af vatni sem verið er að skola út. Ég hef verið að labba hér um og velta við steinum og undir hverjum einasta eru kuðungar og lirfur sem bíða þess eins að það þorni algerlega og þá drepst þetta allt saman. Þá sópaðist gríðarlegur massi af möl úr vatninu í einni asahlákunni og flóðinu sem í kjölfarið kom. Það segir mér enginn að þetta geti ekki haft alvarleg áhrif á lífríkið,” sagði Ólafur.

 

Einar tók í sama streng, “það hefur verið mikið landbrot í Skorradal sl. tvo vetur. Aldrei hefur verið jafn hátt í vatninu og í mars og aldrei jafn mikið útfyri, ef við getum kallað það svo, og nú í apríl. Um þetta eru allir kunnugir sammála og ég get vottað að sl. sex ár hefur hæðarmunur í vatninu stóraukist frá því sem áður var. Hér er umhverfisslys í fullum gangi af hálfu þeirra sem reka Andakílsárvirkjun, sem ekki virðast skeyta neitt um lífríki vatnsins eða gróðurskemmdir á bökkum þess,” sagði Einar. 

 

Þessa frétt er að finna á vefnum votnogveidi.is (25.04.05). Á vefnum er einnig hægt að sjá myndir tengdar viðkomandi frétt og sjá fleiri áhugaverðar fréttir og fróðleik.

 

Viltu gerast áskrifandi að fréttum angling.is?