Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
20. apríl 2005

Mýramosinn heldur fisknum ferskum

Flestir stangaveiðimenn vita að gott er að geyma veiddan fisk í mosa eða arfa ef þeir hafa ekki aðgang að kæli eða frysti í veiðihúsum. Í venjulegum mýramosa eru efni sem lengja geymsluþol ferskra matvæla og nú eru uppi áform um að rannsaka mosann betur með það að markmiði að vinna úr honum umrædd efni.

Fjallað er um þessi áform í Adressaavisen í Þrándheimi í Noregi. Þar kemur fram að þrír nemendur við tækniháskólann í Þrándheimi (NTNU) muni í byrjun næsta mánaðar halda til Austin í Texas ásamt líftæknisérfræðingum frá NTNU en þar í borg verður haldið heimsmeistaramót á sviði viðskiptahugmynda.

 

Norðmennirnir munu kynna rannsóknir sínar á mýramosanum (sphagnum) og viðskiptaáætlun um stofnun fyrirtækis sem unnið gæti umrædd efni úr mosanum. Fram kemur að efnin í mosanum eyði ekki örverum í matvælum ef þau geti aukið geymsluþol þeirra með því að binda ákveðin ensími í matnum. Aðstandendur þessa verkefnis hafa fulla trú á að stór markaður sé fyrir mosann, ekki síst í sambandi við flutninga á ferskum fiski milli landa, og þeir vonast til þess að kynning þeirra í Austin verði til þess að fjármagn fáist til þess að hrinda viðskiptaáætluninni í framkvæmd.

 

Kostir mýramosa hafa verið kunnir um aldir og m.a. hafi víkingar fyrri tíma vitað vel um þá. Þeir hafi t.d. kosið að hafa mýravatn með sér í langferðum sínum, einfaldlega vegna þess að það hafi haldist ,,ferskara” mun lengur en annað vatn sem völ var á. Í rannsóknum á mýramosa hefur komið fram að hann virkar betur eftir því sem hitastigið er hærra og verður það að teljast ótvíræður kostur. Því má segja að íslenskir útflytjendur á ferskum fiski ættu að lauma smá mosabrúski í frauðplastkassana sem notaðir eru undir ferskfiskinn. 

 

Þessa frétt er að finna á vefnum skip.is (20.04.05)

 

Viltu gerast áskrifandi að fréttum angling.is?