Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
16. apríl 2005

Stangaveiðimenn eiga erindi á sýninguna Sumar 2005

Áhugamenn um stangaveiðar ættu að leggja leið sína í Fífuna í Kópavogi um helgina en þar stendur nú yfir sýningin Sumar 2005. Þar eru SVFR og Veiðikortið með veglegan sýningarbás og er markmiðið með þátttökunni að afla nýrra félaga í SVFR og selja hið margrómaða Veiðikort.

Páll Þór Ármann og Haraldur Eiríksson standa vaktina fyrir SVFR á sýningunni, auk þess sem stjórnarmenn taka þátt í kynningunni, en fyrir Veiðikortið eru á básnum þeir Ingimundur Bergsson og Vilhjálmur St. Eiríksson.

Á vegum SVFR er boðið upp á sérstakt inngöngutilboð og fá þeir, sem ganga í félagið á sýningunni, 5000 króna ávísun á veiðileyfi á svæðum SVFR. Þá er félagið með hlutaveltu þar sem fjöldi góðra veiðivinninga er í boði.

Veiðikortið er boðið á sýningunni á 4500 krónur til utanfélagsmanna í SVFR en allir félagsmenn fá kortið á 4000 krónur. Almennt verð er 5000 krónur. Þá geta menn einnig valið þann möguleika að kaupa Veiðikortið og fyrstu tvær Stangaveiðihandbækurnar (Suðurland og Vesturland/Vestfirði) á 6900 krónur.

Af öðrum veiðitengdum atriðum á Sumar 2005 má nefna að Útivist og veiði er með verslun á sýningunni og býður að auki upp á kennslu í fluguköstum og fluguhnýtingar eru sýndar. ESE – Útgáfa & fréttaþjónusta kynnir Stangaveiðihandbækurnar, sem eru á sérstöku tilboðsverði sýningardagana, Veiðiútgáfan kynnir Sportveiðiblaðið og Veiðisumarið 2005 og Krafla ehf. er með til sýnis og sölu flugur eftir Kristján Gíslason, s.s. Kröflurnar og fleiri fengsælar flugur, og Gylfa Kristjánsson, höfund Mýslunnar og Króksins.   

 

Þessa frétt er að finna á vefnum svfr.is (16.04.05)

 

Einnig má benda á fréttir og viðtöl frá sýningunni sem er að finna á vefnum votnogveidi.is

 

Viltu gerast áskrifandi að fréttum angling.is?