Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
15. apríl 2005

Merkingar og sleppingar mælimerktra laxaseiða

Undanfarna áratugi hefur stærð laxastofna Atlantshafslaxins farið sífellt minnkandi.   Ástæður eru margvíslegar, búsvæði hafa horfið, mengun átt sér stað, fiskeldi hefur áhrif svo og aukin þéttbýlismyndun.   Þess utan hafa rannsóknir á laxveiðiám við Norður Atlantshaf  leitt í ljós aukin afföll laxa á dvalartíma þeirra í sjónum, sérstaklega hjá stofnum í ám sunnarlega í Evrópu og í Norður Ameríku. 

Á Íslandi hefur ekki orðið vart við sambærilega minnkun í stofnstærð, en tilfinnanleg fækkun hefur þó orðið hjá laxi sem dvelur 2 ár í sjó.  Þetta hefur gerst í veiðiánum okkar um allt land, en sá lax er mikilvægur bæði fyrir veiðina og hrygninguna í ánum.  Þessi þróun hófst um miðjan síðasta áratug og enn sér ekki fyrir endann á þessari lægð.

 Það vantar tilfinnanlega þekkingu á farleiðum og búsvæðum laxa í sjó sem skýrt þessa hnignun og er þessi þekkingarskortur þröskuldur skynsamlegrar nýtingar á tegundinni.  

 

Alþjóða laxverndarsamtökin (NASCO) hafa nú komið á fót laxverndarráði í samvinnu við þau lönd sem hagsmuna eiga að gæta við verndun og nýtingu þeirra auðlindar sem býr í laxastofnum við Atlantshafið og hefur ráðið að markmiði að stuðla að samvinnu landanna um rannsóknir á ástæðum þessarar hnignunar og hvort unnt sé að vinna á einhvern hátt á móti þessari þróun.  Verkefnið er afar fjárfrekt og kallar á fjármögnun umfram það sem löndin veita nú í rannsóknir á laxi. 

 

Íslendingar vilja leggja sitt af mörkum til verkefnisins og hefur Veiðimálastofnun í samvinnu við hátæknifyrirtækið Stjörnu-Odda og fiskeldisstöðina Laxeyri í Borgarfirði ákveðið að merkja gönguseiði með síritandi mælimerkjum.  Mælimerkin skrá í sig dýpi og hitastig á ákveðnu tímabili og þannig má sjá við hvaða hitafar og dýpi laxinn heldur sig í sjónum.  Eftir sjávardvöl í eitt eða tvö ár gengur laxinn aftur til heimkynna sinna og þá þarf að endurheimta merkið úr fiskinum.  Með því að bera saman slíkar upplýsingar um hitafar og dýpi við yfirborðshitamælingar í sjó frá gervitunglum, má kortleggja á hvaða hafsvæði laxinn heldur sig á mismunandi tímum, enda er laxinn uppsjávarfiskur. 

 

Mælimerkin eru ný framleiðsluafurð Stjörnu Odda (DST micro) og sumarið 2005 er í fyrsta sinn sem svo smá merki eru sett í laxagönguseiði.  Fyrirtækið hefur þróað merkin m.a. í samvinnu við Veiðimálastofnun og er nú í fyrsta sinn unnt að merkja niðurgönguseiði laxa með slíkum merkjum.  Unnt er að nota stór gönguseiði til merkinganna.  Notuð verða eldisseiði til merkinganna þar eð merkin eru enn of stór fyrir þorra náttúrulegra seiða. 

Merkingar seiðanna hófust þann 13. apríl í eldisstöðinni Laxeyri.  Starfsmenn Veiðimálastofnunar eru nú að ljúka við merkingu 300 seiða sem sleppt verður.  Ráðgert er að árlega verði sleppt 300 merktum seiðum í þrjú ár.

 

Verkefninu lýkur eftir 5 ár héðan í frá þegar allir laxar hafa skilað sér úr hafi.  Ráðgert er sambærilegt verkefni norðanlands þegar sleppingum vesta land lýkur. Veiðimálastofnun hefur verið að þróa aðferðir til að tryggja sem bestan árangur af verkefninu og hámarka endurheimtur seiðanna.  Meðal annars hefur þegar farið fram viðamikil tilraunamerking í eldisstöð Íslandslax er varðar merkjaþol seiða og merkingaraðferðir. 

 

Seiðunum verður sleppt í Kiðafellsá við sunnanverðan Hvalfjörð og hefur Veiðimálastofnun tekið ána á leigu meðan á verkefninu stendur. 

 

Verkefnið er stærsta einstaka verkefnið sem Veiðimálastofnun hefur sett af stað og er áætlað að um 70 – 80 milljónir kr. þurfi til að fjármagna verkefnið. 

 

 

 

Ingi Rúnar Jónsson fiskifræðingur við merkingar mælimerktra laxaseiða.

 

 

 

Innsetning mælimerkis í kviðarhol. 

 

 

 

 

 

Þessa frétt er að finna á vef Veiðimálastofnunar(15.04.05)

 

Viltu gerast áskrifandi að fréttum angling.is?