Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
12. apríl 2005

Orri Skorar á Íra

Orri Vigfússon fer mikinn í írska stórblaðinu Irish Times í morgun og gagnrýnir ákaflega stjórnvöld í Írska lýðveldinu fyrir að beita sér ekki gegn umfangsmiklum reknetaveiðum á laxi. Þvert á móti hafi netakörlum verið heimilað að veiða 44% meira heldur en fiskifræðingar höfðu mælt með.

Orri beinir einkum spjótum sínum að Patrick Gallacher, hlutaðeigandi ráðherra í írsku ríkisstjórninni og segir hann bæði hunsa ráðgjöf færustu fiskifræðinga Írlands svo og óánægjuraddir frá nágrannalöndum Írlands sem öll hafa sett í gang verndunarferli til handa Atlantshafslaxinum og þola illa að á sama tíma séu reknetaveiðar leyfðar takmarkalítið úti fyrir Írlandsströndum. Það er ekki aðeins írskur lax sem flækist í netin. 

 

Í lok greinar sinnar, sem er afar harðorð, skorar Orri á írsku ríkisstjórnina að leggja fram nægilegt fé til að greiða 500 netakörlum skaðabætur, síðan muni NASF og aðrir verndunarsinnar sjá um afganginn, sem er annað eins í krónum talið. “Þetta hleypur á milljörðum”, sagði Orri í samtali við Vötn og veiði, en eðli málsins samkvæmt hafði hann engin viðbrögð fengið í dag.

 

Útlit er fyrir að írskum reknetakörlum verði leyft að veiða 139.900 laxa á þessu ári, en írskir fiskifræðingar höfðu talið að ekki mætti veiða nema 97.000 laxa. Talið er að með ólöglegum veiðum og afráni sela sem hirða laxinn grimmt úr netunum, verði raunverulegur netaafli 200.000 laxar. Á sama tíma og hver þjóðin af annarri hefur lagt út í verndunarferli hefur hlutur Írlands í aflatölum vaxið stöðugt. Er nú 50% en var 26% fyrir áratug.

 

Orri bætti við þetta að ljóst væri að vel flestir netamanna væru reiðubúnir að hætta veiðunum ef þeim væri séð fyrir skynsamlegum skaðabótum. Eftir slíkum línum hefur NASF löngum unnið og hefur það gefist vel í öllum þeim löndum þar sem sjóðurinn hefur látið til sín taka, m.a. á Íslandi, Grænlandi, Labrador, Nýfundnalandi, Færeyjum, Norður Írlandi, Wales, Englandi og Noregi, sem síðast bættist á listann. Eftir sitja Írar og halda áfram að moka laxi úr sjónum, ekki bara eigin löxum, ferðaþjónustunni til ama, heldur annarra þjóða löxum einnig. 

 

Þessa frétt er að finna á vefnum votnogveidi.is (11.04.05)

 

Viltu gerast áskrifandi að fréttum angling.is?