Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
4. apríl 2005

Steingrímsstöðvarmálið verður rætt á Alþingi

Föstudaginn 1. apríl sl. rann út frestur þingmanna til að skila

Mynd fengin af LV.is
inn frumvörpum og þingsályktunartillögum sem þeir vilja að náist að mæla fyrir áður en þingi lýkur um miðjan maí. Meðal mála, sem tekin verða á dagskrá þingsins, er þingsályktunartillaga um að stíflumannvirki Steingrímsstöðvar við útfall Sogsins úr Þingvallavatni verði rifið.

Flutningsmaður er Magnús Þór Hafsteinsson (F). Í þingsályktunartillögunni segir:

,,Alþingi ályktar að fela ríkistjórninni að beita sér fyrir því í krafti eignarhluta síns í Landsvirkjun að stíflumannvirki Steingrímsstöðvar við Efra Sog verði rifið og að umhverfi stíflunnar verði fært í sitt náttúrulega horf.”

Í greinargerð með tillögunni segir:

,,Steingrímsstöð við Efra Sog var byggð á árunum 1958 til 1960. Með þessari virkjun var Efra Sog, hið náttúrulega frárennsli Þingvallavatns og lang vatnsmesta lindá Íslands, stíflað. Síðan hefur ein mikilfenglegasta náttúruperla þessa lands vart verið nema svipur hjá sjón.

Stíflan sér til þess að vatn sem áður streymdi úr Þingvallavatni um þröngan farveg Efra Sogs er nú að mestu leitt gegnum jarðgöng til rafmagnsframleiðslu í Steingrímsstöð á bökkum Úlfljótsvatns. Ljósmyndir af Efra Sogi teknar fyrir og eftir stíflugerðina sýna að ásýnd árvegsins þar sem áður streymdi tilkomumikið og tært bergvatn er dapurleg.

Stíflun Efra Sogs hafði einnig afdrifaríkar afleiðingar fyrir vitkerfi og lífríki Efra Sogs, Þingvallavatns og jafnvel Úlfljótsvatns. Mjög dró úr bitmýi sem gegnir lykilhlutverki í fæðukeðjunni í lífríki við Þingvallavatn. Einstæður stofn Þingvallaurriðans varð fyrir þungu áfalli sem enn sér hvergi fyrir endann á. Hrygningarstöðvar urriðans við efra mynni Efra Sogs voru eyðilagðar, og aðgengi hans hindrað að mikilvægum uppeldisstöðvum fyrir seiði í Efra Sogi. Þetta var mjög alvarlegt tilræði gegn möguleikum stofnsins til endurnýjunar. Urriðinn gegnir mikilvægu vistfræðilegu hlutverki í Þingvallavatni og því er hningnun hans mun alvarlegra mál en virðast kann við fyrstu sýn. Hætt er við að Þingvallaurriðinn muni smám saman hverfa úr vistkerfi vatnsins eftir því sem árin líða og stofninn býr við skerta möguleika til tímgunar vegna stíflunnar við Streingrímsstöð.

Markmið þessarar tillögu er að stuðla að því að endurheimta eina af helstu náttúruperlum Suðurlands, sem er Efra Sog með lífríki þess áður en Steingrímsstöð var reist. Slík aðgerð yrði þjóðinni til sóma, og fyrirmyndar á alþjóða vettvangi, þar sem sýnt væri fram á í verki að virkjanir fallvatna sem valdið hafa skaða á náttúrunni geta verið afturkræfar. Endurreisn umhverfis og lífríkis náttúrunnar á þessum slóðum myndi einnig án efa veita mikilvæg sóknarfæri á sviði frístundaveiði og ferðamennsku, og þannig verða heimamönnum og gestum til ánægju og yndisauka um ókomna tíð.”  

 

Þessa frétt er að finna á vefnum svfr.is (04.04.05)

 

Viltu gerast áskrifandi að fréttum angling.is?