Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
1. apríl 2005

Ætla að drepa blóðögðuna með álsúlfati

Í næstu viku verður í fyrsta skipti ráðist í það verkefni að beita nýrri aðferð við að drepa blóðögðu eða gyrodactylus salaris, sem valdið hefur miklum skaða í mörgum norskum laxveiðiám. Í stað eiturefnis, sem drepur allt líf í ánum, verður notað álsúlfat.

Gyrodactylus salaris er sníkjudýr sem barst fyrir allnokkrum árum í laxveiðiár í Noregi og er talið að það sé þangað komið frá Svíþjóð. Blóðagða þessi getur leikið laxinn grátt og víða hefur hún gjöreytt laxastofnum í ám. Sníkjudýrið þolir ekki saltvatn þannig að það er bundið við árnar en talið er að m.a. kajakræðarar og jafnvel veiðimenn hafi átt þátt í útbreiðslu þess í Noregi.

 

Fram að þessu hefur eina meðferðin við þessum vanda verið sú að nota eiturefni eins og rotenon til þess að losna við sníkjudýrin úr vistkerfum ánna en gallinn við eiturefnameðferðina hefur verið sú að með henni er allt kvikt í ánum drepið. Hafa menn tekið klakfisk af stofni ánna og síðan ræktað árnar upp að nýju eftir að áhrifa eiturnefnisins hefur hætt að gæta.

 

Ekki er langt síðan að menn komust að því að aluminium súlfat hentar vel í baráttunni við blóðögðurnar. Með því að setja það efni í árnar lækkar sýrustig þeirra verulega og álsúlfatið verður að eitri sem drepur sníkjudýrin en ekki hýsil þeirra, laxinn. Meðferðin skaðar heldur ekki botndýralíf ánna.

 

Reiknað er með því að álmeðferðin hefjist í næstu viku og taki alls tvær vikur en síðan verði hún endurtekin í október nk. að því er fram kemur á vefsíðu IntraFish. 

 

Þessa frétt er að finna á vefnum skip.is (01.04.05)

 

Viltu gerast áskrifandi að fréttum angling.is?