Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
12. september 2019

Nýjar veiðitölur

Komnar eru nýjar veiðitölur á vef Landsambands Veiðifélaga. Samantektin er frá veiði í lok miðvikudags 11. september.

 

Það er haustbragur á sumum þeim veiðitölum sem hafa borist og kemur það ekki á óvart þar sem styttist í að lokatölur berist úr þeim ám þar sem veiði hófst fyrst í sumarbyrjun. Komin er ein lokatala úr Búðardalsá sem lokaði 9. september með samtals 98 laxa. En þó árnar okkar fari að loka ein af annari, þa verður víða veitt til loka september. Síðan mun veiði halda áfram í Rangánum fram í október. Ekki er úrkomuleysi fyrir að fara þessa dagana og vatnsbúskapur með ágætum. Veiði hefur víða tekið töluverðan kipp í kjölfarið og skila margar ár góðri veiðiviku. Það telst helst til tíðinda að Þverá/Kjarará hefur bæst í hóp þeirra vatnakerfa sem farið hafa yfir 1000 laxa markið og er veiðitalan komin í 1025 laxa.

 

Ekki hafa borist veiðitölur úr öllum vatnakerfum en þær verða settar inn þegar þær berast. Það getur verið erfitt að ná tölum í hús þegar vel er liðið á veiðitímabilið, eins og lesa má í frétt með samantektinni fyrir nokkrum vikum síðan. Betur verður farið í veiðitölur síðar þegar allar tölur hafa skilað sér.

 

Hér er hægt að skoða lista með veiðitölum úr tæplega 50 vatnakerfum. Sjá nánar hér.

 

Söfnun veiðitalna væri ekki möguleg nema fyrir liðsinni fjölda aðila sem vikulega taka saman veiðitölur og má þar nefna veiðiverði, veiðileiðsögumenn, matreiðslumenn, starfsfólk veiðihúsa, leigutaka, veiðiréttarhafa, árnefndarfólk og fleiri. Eiga allir þessir aðilar þakkir skildar fyrir.

 

Ágætt að hafa eftirfarandi í huga ef grunur leikur á að veiddur lax sé eldislax. Mjög mikilvægt er að sleppa honum ekki og tilkynna viðkomandi stofnun.

 

Hér er hægt að kynna sér leiðbeiningar um samanburð á villtum lax og eldislax hér.

 

Geta má þess að hreistursýnataka af veiddum fisk er eitt mikilvægasta framlag veiðimanna til rannsókna. Fjölmargt má greina í hreistri og t.d. er hægt að sjá hvort fiskur sé af eldisuppruna. Sjá nánar fróðleik um hreistursýnatöku.

 

Í ljósi þess að mun minna er af laxi í sumum ám þá er ágætt að hafa tilmæli Hafrannsóknastofnunar í huga um að veiðimenn og veiðiréttarhafar gæti hófs við veiðar og sleppi sem allra flestum löxum sem veiðast til að hrygningarstofn haustsins verði sem stærstur. Annars er hætta á að sá seiðaárgangur sem undan þeim kemur verði einnig smár og veiðiþol laxastofna minnki enn frekar. Hér er hægt að lesa áskorun í heild sinni.

 

Athygli er vakin á að velkomið að senda inn veiðitölur úr öðrum vatnakerfum og við birtum þær hér á vefnum. Einna best er að fá veiðitölur í lok veiði miðvikudags kvölds en það gerir samanburð fróðlegri og auðveldari. Gott er að láta stangarfjölda fylgja og veiði á silung er auðvitað vel þegin.

Hægt er að senda inn veiðitölur á bjorn@angling eða hringja/senda sms í síma 852-3398.