Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
22. ágúst 2019

Nýjar veiðitölur

Komnar eru nýjar veiðitölur á vef Landsambands Veiðifélaga. Samantektin er frá veiði í lok síðasta miðvikudags 21. ágúst.

 

Eftir veiði síðustu viku bættust tvær ár á lista þeirra sem hafa farið yfir 1000 laxa markið en það eru Ytri-Rangá sem komin er í samtals 1106 laxa og Miðfjarðará sem komin er með samtals 1091 laxa. Aðrar breytingar á listanum eru að Þverá/Kjarará færist upp um eitt sæti, fer úr 7. sæti í 6. sæti og fyrir vikið færist Blanda niður um eitt sæti.

 

Síðasta veiðivika skilaði víðast hvar minni veiði samanborið við vikuna á undan. Það á þó ekki við um öll vatnakerfi og má nefna Þverá/Kjarará, sem komin er í samtals 651 laxa. Síðasta veiðivikan skilaði 119 löxum og er það besta veiðivikan til þessa. Jafnframt á það við um Hofsá og Sunnudalsá, sem komin er í samtals 533 laxa, en þar skilaði síðasta veiðivika 73 löxum.

 

Efst á listanum okkar er sem fyrr Eystri-Rangá með samtals 2556 laxa en síðasta veiðivika skilaði 240 löxum. Hún eykur forskot sitt og nú munar 1389 löxum á henni og Selá í Vopnafirði sem er í 2. sæti með samtals 1167 laxa.

 

 

Í öðru sæti er Selá í Vopnafirði með samtals 1167 laxa sem er 56 löxum meiri veiði en á svipuðum tíma í fyrra.  Veiðivikan gekk vel, skilaði 165 löxum og með þessu áframhaldi styttist óðum í að hún nái lokatölu í fyrra sem var 1340 laxar.

 

Í þriðja sæti er Ytri-Rangá sem komin er yfir 1000 laxa markið með samtals 1106 laxa. Síðasta veiðivika skilaði 112 löxum. 

 

Í fjórða sæti er Miðfjarðará sem einnig er komin yfir 1000 markið. Veiðin komin í samtals 1091 laxa og síðasta veiðivika skilaði 107 löxum.

 

Í fimmta sæti er Urriðafoss í Þjórsá en þar er veiðin komin í 729 laxa. Síðasta veiðivika skilaði 14 löxum.

 

Hér fyrir neðan eru tíu efstu vatnakerfin.

 

Til fróðleiks þá er veiði borin saman við svipaðan tíma í fyrra (22.08.2018) og í sviga má sjá hve miklu munar. 

 

1.  Eystri-Rangá 2556 laxar - vikuveiði 240 laxar. (-504)

 

2.  Selá í Vopnafirði  1167 laxar - vikuveiði 165 laxar. (+56)

 

3.  Ytri-Rangá 1106 laxar - vikuveiði 112 laxar. (-1450)

 

4.  Miðfjarðará 1091 laxar - vikuveiðin 107  laxar. (-948)

 

5.  Urriðafoss í Þjórsá 729 laxar - vikuveiði 14 laxar. (-482)

 

6.  Þverá/Kjarará 651 laxar - vikuveiði 119 laxar. (-1620)

 

7.  Blanda 572 laxa - vikuveiði 11 laxar. (-281)

 

8. Laxá á Ásum 566 laxar - vikuveiði 64 laxar. (+1)

 

9.  Hofsá og Sunnudalsá 533 laxar - vikuveiðin 73  laxar. (-37)

   

10. Haffjarðará  487 laxar - vikuveiði 52 laxar. (-866)

 

 

Hér er hægt að skoða lengri lista með veiðitölum úr tæplega 50 vatnakerfum. Sjá nánar hér. 

 

Ekki hafa borist veiðitölur úr öllum vatnakerfum en þær verða settar inn þegar þær berast. Það getur verið erfitt að ná tölum í hús þegar vel er liðið á veiðitímabilið og fyrir því eru nokkar ástæður. Má t.d. nefna að þegar þjónusta minnkar, veiðihús loka og veiðileiðsögumenn eru með minni viðveru verður torveldara að nálgast upplýsingar úr veiðibókum.

 

Í sumum vatnakerfum þarf að sækja upplýsingar úr fleiri en einni veiðibók og stundum þarf að bíða með birtingu veiðitalna uns allar hafa skilað sér. Síðan geta komið upp aðstæður þar sem menn forfallast, fara í frí og svo framvegis. Hafa má jafnframt í huga að ekki er alls staðar net, síma eða farsímasamband og dæmi um að menn þurfi að keyra drjúgan spöl til þess eins að ná símasambandi og koma veiðitölum til skila.

 

Söfnun veiðitalna væri ekki möguleg nema fyrir liðsinni fjölda aðila sem vikulega taka saman veiðitölur og má þar nefna veiðiverði, veiðileiðsögumenn, matreiðslumenn, starfsfólk veiðihúsa, leigutaka, veiðiréttarhafa, árnefndarfólk og fleiri. Eiga allir þessir aðilar þakkir skildar fyrir. 

 

Þar sem ljóst er að veiði verður víða töluvert minni en öllu jöfnu gengur og gerist þá er ágætt að hafa tilmæli Hafrannsóknastofnunar í huga um að veiðimenn og veiðiréttarhafar gæti hófs við veiðar og sleppi sem allra flestum löxum sem veiðast til að hrygningarstofn haustsins verði sem stærstur. Annars er hætta á að sá seiðaárgangur sem undan þeim kemur verði einnig smár og veiðiþol laxastofna minnki enn frekar.

 

Hér er hægt að lesa áskorun í heild sinni.

 

Athygli er vakin á að velkomið að senda inn veiðitölur úr öðrum vatnakerfum og við birtum þær hér á vefnum. Einna best er að fá veiðitölur í lok veiði miðvikudags kvölds en það gerir samanburð fróðlegri og auðveldari. Gott er að láta stangarfjölda fylgja og veiði á silung er auðvitað vel þegin.

 

Hægt er að senda inn veiðitölur á bjorn@angling eða hringja/senda sms í síma 852-3398