Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
15. ágúst 2019

Rýnt nánar í nýjar veiðitölur

Vert er að skoða aðeins betur nýjar veiðitölur hér á vef Landsambands Veiðifélaga. Á listanum okkar eru alls 46 ár með skráða veiði. Ef allar ár á listanum sem eru með skráða veiði í lok síðasta miðvikudags 14. ágúst og jafnframt með skráða veiði á svipuðum tíma í fyrra (15.08.2018) eru teknar saman þá eru það alls 41 á sem uppfyllir það.  Samanlögð veiði úr þessum 41 ám er samtals 13.588 laxar í lok veiði í gær miðvikudag, Veiði í þessum sömu ám á svipuðum tíma í fyrra var samtals 26.710 laxar. Veiðin nú er því tæplega helmingi minni, samtals 13.122 löxum minni. Ef teknar eru út þær ár sem byggja nánast alfarið á gönguseiðasleppingum þá verður samanburðurinn óhagstæðari og er þá rúmlega helmingi minni veiði.

 

Eftir svona samanburð og tölur er nauðsynlegt að horfa til þess sem vel gengur. Að sökkva sér ofan í of mikið talnarýni með fremur neikvæðum niðurstöðum, svo ekki sé fastar að orði kveðið, er engum veiðimanni hollt í miklu magni. Það verður allt gert upp samviskusamlega að veiðitímabili loknu. 

 

Fyrst er að nefna að víða hefur vatnaveiði gengið með eindæmum vel og sumstaðar mikil veiði. Það væri ánægjulegt að fá meira af veiðitölum þaðan sem birtar yrðu hér á vefnum.

 

Síðan má geta þess að það gengur nefnilega ágætlega í sumum ám sem stundum gleymist þegar athyglin er nánast öll á þeim ám þar sem veiði er í sögulegu lágmarki.

 

Fróðlegt er að skoða þær ár sem eru með svipaða veiði eða betri veiði en á sama tíma í fyrra (15.08.2018), sjáum það nánar hér að neðan.   

 

Fyrst ber að nefna Selá í Vopnafirði en hún vermir annað sætið á listanum okkar með samtals 1002 laxa. Veiðivikan gekk mjög vel og skilaði 208 löxum og er veiðin samtals nánast jafnmikil og á svipuðum tíma í fyrra. Í fyrra höfðu veiðst 1029 laxar og munar þarna 27 löxum.

 

Laxá á Ásum er í 8. sæti á listanum og er komin í 502 laxa eftir góða veiðiviku sem skilaði 144 löxum. Veiðin í fyrra var 522 laxar á svipuðum tíma og munar því 20 löxum.

 

Hofsá og Sunnudalsá í Vopnafirði er í 9. sæti á listanum með alls 460 laxa. Síðasta veiðivika skilaði 68 löxum. Veiðin á svipuðum tíma í fyrra var 505 laxar og munar því 45 löxum.

 

Jökulsá á Dal, Jökla er í 14. sæti á listanum með 330 laxa. Veiðin á svipuðum tíma í fyrra var 360 og munar því 30 löxum. Þess má geta að þarsíðasta veiðivika skilaði 83 löxum en nýliðin veiðivika 10 löxum sem skýrist af því að Jökla fór á yfirfall í upphafi síðustu veiðiviku og hefur það áhrif en slíkt gerðist einnig í fyrra. Lokatala í fyrra var 528 laxar og verður fróðlegt að sjá hvernig veiði þróast.

 

Svalbarðsá er í 15. sæti og komin í 292 laxa sem er 68 löxum meiri veiði en á svipuðum tíma í fyrra en þá höfðu veiðst 224 laxar. Veiði hefur gengið mjög vel í þessari þriggja stanga á og skilaði síðasta veiðivika 69 löxum. Alls veiddust 337 laxar í fyrra og því stefnir í að veiðin fari umfram þá lokatölu.

 

Skjálfandafljót er í 18. sæti og er veiði komin í 240 laxa og gekk veiði mjög vel síðustu veiðiviku sem skilaði 89 löxum. Veiðin var 200 laxar á svipuðum tíma í fyrra og veiðin nú því orðin 40 löxum meiri. Einungis vantar 10 laxa til að jafna lokatölu í fyrra sem var 250 laxar.

 

Hafralónsá í Þistilfirði er í 21. sæti á listanum en þar leynast góðar fréttir. Veiðin nú er komin í alls 222 laxa sem er 28 löxum umfram lokatölu í fyrra sem var 194 laxar. Síðasta veiðivika skilaði 37 löxum og þarna eru leyfðar fjórar stangir. Á svipuðum tíma í fyrra höfðu veiðst 154 laxar og munar því 68 löxum. Það verður fróðlegt að sjá hvernig veiði gengur í Hafralónsá.

 

Deildará er í 28. sæti á listanum, þar eru leyfðar tvær stangir og þar er veiði komin í alls 131 lax og skilaði síðasta veiðivika 18 löxum. Á svipuðum tíma í fyrra höfðu veiðst 121 laxar og er því veiðin nú orðin 10 löxum meiri. Lokatala í fyrra var 162 laxar og ekki ólíklegt að veiðin þetta árið verði meiri.

 

Fnjóská er 33. sæti með 109 laxa og 189 silunga. Skilaði síðasta veiðivika 11 löxum og 9 silungum. Á svipuðum tíma í fyrra höfðu veiðst 99 laxar og 176 silungar. Veiðin nú er því 10 löxum og 13 silungum meiri.

 

Ekki kemur á óvart hvar þessi vatnakerfi eru staðsett og segir það sína sögu. En það er sem sagt ýmislegt jákvætt í gangi og svo má ekki gleyma því að ef vatnsbúskapur færist í betra horf og aðstæður til veiða batna þá er töluvert eftir af þessu veiðitímabili og tölur geta breyst til hins betra.

 

Hvort sem mikið eða lítið veiðist úr þessu þá er

ágætt er að hafa tilmæli Hafrannsóknastofnunar í huga um að veiðimenn og veiðiréttarhafar gæti hófs við veiðar og sleppi sem allra flestum löxum sem veiðast til að hrygningarstofn haustsins verði sem stærstur. Annars er hætta á að sá seiðaárgangur sem undan þeim kemur verði einnig smár og veiðiþol laxastofna minnki enn frekar.

 

Hér er hægt að lesa áskorun í heild sinni.