Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
27. júní 2019

Nýjar veiðitölur

Flestar ár hafa opnað fyrir veiði þetta tímabilið en þær síðustu munu opna næstkomandi mánudag 1. júlí. Þrátt fyrir úrkomu undanfarið þá hefur bágborinn vatnsbúskapur haft verulega mikil áhrif á veiði undanfarna veiðiviku svo ekki sé meira sagt og ástandið víða erfitt af þeim sökum. Við bætist að jarðvegur er víða mjög þurr og hann tekið töluvert til sín af vætu sem hefði gjarnan mátt skila sér beint út í vatnakerfin. Það mun hinsvegar breytast hratt til betri vegar um leið og vætutíð hressir upp á vatnsbúskapinn og ekki ólíklegt að þá komi hressilegur kippur í veiðina.

Til gaman má geta þess að þekkt er sú þjóðtrú að ekki megi snúa hrífutindum upp þegar hrífan er lögð í grasið því slíkt myndi kalla fram rigningu. Hvort þessar ráðleggingar hafi það að megin markmiði að fyrirbyggja það að stigiði á tindana með tilheyrandi óþægindum og mögulega að auki fá skaftið í andlitið skal ósagt látið. En það er orðið freistandi að snúa nokkrum hrífum við...

Efst á listanum okkar er Urriðafoss í Þjórsá en þar er veiðin komin í 319 laxa og skilaði síðasta veiðivika 63 löxum. Veiðin á svipuðum tíma í fyrra, 27.06.18, var 391 lax og gengur veiðin ágætlega og ekki er verra að ekki þörf á að hafa áhyggjur af vatnsbúskap á svæðinu ólíkt mörgum öðrum vatnakerfum.

 

Blanda er í öðru sæti með 110 laxa og var vikuveiðin 63 laxar. Á svipuðum tíma í fyrra höfðu veiðst 175 laxar og fer veiðin aðeins hægar af stað þetta árið. Blanda býr einnig að góðum vatnsbúskap og verður fróðlegt að sjá hvernig veiðin mun þróast næstu daga.

 

Í þriðja sæti eru Eystri-Rangá og Brennan í Hvítá með 93 laxa. Í Eystri-Rangá skilaði veiðivikan 82 löxum og veiðin komin í 93 laxa sem er mun betri veiði samanborið við svipaðan tíma í fyrra en þá höfðu veiðst 17 laxar. Veiðin fer því mjög vel af stað í Eystri-Rangá þetta tímabilið og ekki spillir fyrir að vatnsdrög eru með þeim hætti að vatnsbúskapur er góður. Í Brennu hefur veiðst nánast jafnmikið og á sama tíma í fyrra og er töluvert af laxi en það hefur haft áhrif á veiði að jökullitað vatn hefur náð inn á svæðið sökum bágs vatnsbúskapar í Þverá/Kjarará en það horfir til betri vegar í þeim efnum. 

 

Hér fyrir neðan er listi yfir tíu efstu vatnakerfin en síðan er hægt að skoða allan listann með veiðitölum hér.

 

1. Urriðafoss í Þjórsá 319 laxar - vikuveiði 63 laxar.

 

2. Blanda 110 laxa - vikuveiði 63 laxar.

 

3. Eystri-Rangá 93 laxar - vikuveiði 82 laxar.

 

3. Brennan 93 laxar - vikuveiðin 39 laxar.

 

4. Miðfjarðará 63 laxar - vikuveiðin 39 laxar.

 

5. Ytri-Rangá 57 laxar - Opnaði 20 júní.

 

6. Laxá í Aðaldal 44 laxar - Opnaði 20 júní og Nessvæðið opnaði 24 júní.

 

7. Haffjarðará 40 laxar - Opnaði 20 júní.

 

8. Elliðaárnar 36 laxar - Opnaði 20 júní.

 

9. Grímsá og Tunguá 31 laxar - vikuveiði 21 laxar.

 

9. Norðurá 29 laxar - vikuveiði 18 laxar.

 

9. Þverá/Kjarará 29 laxar - vikuveiði 17 laxar.

 

10. Víðidalsá 29 laxar - Opnaði 20 júní. 

 

Nú hafa flestar ár opnað fyrir veiði þetta tímabilið og má geta þess að Stóra-Laxá opnar í dag fyrir veiði á svæði fjögur en hin svæðin opna um næstu mánaðarmót. Nokkrar eiga þó eftir að opna og má þar nefna Selá í Vopnafirði sem opnar á laugardaginn 29 júní, en í kjölfarið opna síðan nokkrar til viðbótar næstkomandi mánudag 1. júlí, það eru Breiðdalsá, Jökla, Miðá í dölum og Svartá í Húnavatnssýslu.

 

Veiðitölur hafa ekki borist úr öllum vatnkerfum sem hafa opnað en það færist vonandi til betri vegar fljótlega. Það verður spennandi að sjá hvernig tölurnar verða í næstu viku þegar öll vatnakerfi hafa opnað. Einhver væta er í kortunum sem vonandi skilar sér þannig að vatnsbúskapur færist í betra horf og þá má búast við að þeir njóti vel sem verða við veiðar þá.  

 

Athygli er vakin á því að þó við erum með 25 gagnagrunnsár, sem við söfnum vikulega gögnum frá, þá er velkomið að senda inn veiðitölur úr öðrum vatnakerfum og við birtum þær hér á vefnum. Einna best er að fá veiðitölur í lok veiði miðvikudags kvölds en það gerir samanburð fróðlegri og auðveldari. Einnig er gott að láta stangarfjölda fylgja.

 

Hægt er að senda inn veiðitölur á bjorn@angling eða hringja/senda sms í síma 852-3398

 

(Uppfært 27.06.2019 kl 22:20)