Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
20. júní 2019

Nýjar veiðitölur

Það er óhætt að segja að laxveiðitímabilið hafi byrjað með mismunandi hætti þetta árið og má skýra það með stöðu vatnsbúskapar sem víða er bágborin og þá sérstaklega í dragám á suðvestur og vesturlandi. Hérlendis eru í grunnin fjórar gerðir vatnasvæða, lindá, dragá á móbergssvæði, dragá á blágrýtissvæði og heiða-votlendisá. Dragár eru sérstaklega viðkvæmar fyrir því veðurfari sem hefur verið ríkjandi undanfarið og við bætist að snjó leysti víða í apríl, jafnvel allt upp í 1200 metra hæð yfir sjávarmáli og fyrir vikið eru litlar birgðir af vatni sem leysist út í vatnakerfin með þeim hætti. Vatnsbúskapur er því mjög háður úrkomu sem mjög lítið hefur verið af til þessa.

 

Sólríkir heiðskýrir dagar með tilheyrandi úrkomuleysi og langvarandi norðlægar áttir hafa gert ástandið erfitt svo ekki sé dýpra með árinni tekið. Má nefna tvær af bestu laxveiðiám landsins, Norðurá og Þverá/Kjarará, þar sem vatnsbúskapur er sérstaklega bágborin og lítið hefur veiðst þetta veiðitímabilið m.a. af þeim sökum. Engu að síður þá er gott að hafa það í huga að veiði hefur farið misvel af stað í gegnum árin en veiði glæðst þegar liðið hefur á veiðitímabilið og heildarveiði verið ágæt að lokum. 

 

Hvað Þverá/Kjarará varðar má t.d. nefna árið 2006 en þá höfðu veiðst 63 laxar á svipuðum tíma, Lokatalan það árið var 2176 laxar. Árið 2007 höfðu einungis veiðst 14 laxar á svipuðum tíma og veiði fór ekki að glæðast fyrr en upp úr annari viku júlí mánaðar en lokatalan þetta ár var 2435 laxar. Til að setja þetta í betra samhengi þá var meðalveiði áranna frá 1974 til ársins 2008 í Þverá/Kjarará 1959 laxar.

 

Árið 2007 höfðu veiðst 45 laxar í Norðurá á svipuðum tíma en lokatalan það veiðitímabil var 1456 laxar sem er rétt undir meðalveiði sem er um 1570 laxar. Á svipuðum tíma árið 2008 höfðu veiðst 68 laxar en veiðin endaði í alls 3307 löxum eða sem nemur 1737 löxum umfram meðalveiði.

 

Af þessu má dæma að þó veiði hafi farið rólega af stað þá hefur það ekki endilega þýtt að úr verði lélegt veiðitímabil. En það er staða vatnsbúskapar og fyrrnefndar aðstæður sem virðist vera mesti áhrifavaldurinn nú um stundir.

 

En síðan er hægt að skoða önnur vatnakerfi þar sem vatnsbúskapur er með ágætum enda um ólíkan uppruna vatns að ræða og sést það í veiðitölum þrátt fyrir sólríka daga og lágt hitastig vatns.

 

Urriðafoss í Þjórsá er efst á listanum okkar en þar er veiðin komin í alls 256 laxa en í fyrra var veiðin á svipuðum tíma aðeins meiri eða alls 278 laxar. Alls er veitt á fjórar stangir á þessu svæði.

 

Blanda er í öðru sæti með alls 85 laxa en á svipuðum tíma í fyrra höfðu veiðst 118 laxar. Fram til þessa hefur verið veitt á fjórar stangir.

 

Brennan er í þriðja sæti en þar hafa veiðst 54 laxar samanborið við 76 laxa á þessum tíma í fyrra. Veitt er á þrjár stangir og má geta þess að lítið veiddist um tíma þegar jökullituð Hvítáin breiddi úr sér á svæðinu þar sem lítið vatnmagn úr Þverá/Kjarará og litlu Þverá náði ekki að halda Hvítánni í skefjum.

 

Í fjórða sæti er Miðfjarðará sem opnaði 15 júní en þar er núna veitt á 6 stangir og veiðin komin í 24 laxa. Veiði hófst 15 júní.

 

Í fimmta sæti er Grímsá en veiði var að hefjast, veitt er á fjórar stangir og skilaði opnun 8 stórlöxum.

 

Ekki hafa borist veiðitölur úr öllum ám, t.d. Langá á Mýrum, Norðurá, Laxá í Kjós, Þverá/Kjarará og í Straumum en það gerist vonandi fljótlega. Alls hafa 10  vatnakerfi á okkar lista opnað en það bætist hratt í hópinn í kjölfarið þar sem veiði hefst í mörgum ám 20 júní og má þar nefna Elliðaárnar, Haffjarðará, Straumfjarðará, Víðidalsá, Vatnsdalsá, Laxá á Ásum, Laxá í Aðaldal, Ytri-Rangá og Haukadalsá. Síðan bætast þær við listann hver af annari og þær síðustu opna um næstu mánaðarmót. Það verður fróðlegt að sjá hvernig tölurnar verða í næstu samantekt en hún verður í lok veiði miðvikudag 26 júní.

 

Þess má geta að við höfum átt mjög gott samstarf á liðnum árum við alla þá sem hafa liðsinnt okkur í þessari vikulegu söfnun veiðitalna. Án þeirra væri þetta ekki mögulegt og viljum við þakka kærlega fyrir þeirra framlag.

 

Athygli er vakin á því að þó við erum með 25 gagnagrunnsár, sem við söfnum vikulega gögnum frá, þá er velkomið að senda inn veiðitölur úr öðrum vatnakerfum og við birtum þær hér á vefnum. Einna best er að fá veiðitölur í lok veiði miðvikudags kvölds en það gerir samanburð fróðlegri og auðveldari.

 

Hægt er að senda inn veiðitölur á bjorn@angling eða hringja/senda sms í síma 852-3398