Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
15. apríl 2019

Segir að nefndin hafi fallið á prófinu

Formaður Landssambands veiðifélaga segir að umsögn umhverfis- og samgöngunefndar um fiskeldisfrumvarp séu mikil vonbrigði. Nefndin sinni ekki því hlutverki sínu að gæta að umhverfinu og vera mótvægi við atvinnuveganefnd.
 

Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis skilaði nýverið umsögn um frumvarp til laga um fiskeldi. Áður var haldinn fundur þar sem sérfræðingum og hagsmunaaðilum var boðið að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga, segir óeðlilegt að þeim hafi ekki verið boðið. „Þeir virðast hafa boðað þarna helst þá sérfræðinga, svona óháða sérfræðinga sem hafa verið að vinna með fiskeldinu. Skrifa geinargerðir til að gagnrýna áhættumat um erfðablöndun. Okkur þótti mjög sérstakt að umhverfisnefndin væri að velja sér viðmælendur á þennan hátt,“ segir Jón Helgi. 

 

Óraunhæf neyðarráðstöfun

Í umsögninni leggur nefndin áherslu á mótvægisaðgerðir gegn laxeldi í opnum kvíum og nefnir að kafarar geti leitað strokulaxa og fjarlægt úr ám. Samtökin Iceland Wildlife Fund gefa lítið fyrir þessar hugmyndir og segja þær algjöra steypu. Jón Helgi tekur undir það og segir að þetta sé ekki mótvægisaðgerð heldur óraunhæf neyðarráðstöfun. „Landssamband veiðifélaga hefur verið að reyna að leggja áherslu á að reglur í fiskeldi séu það strangar að til þess komi ekki,“ segir Jón Helgi. 

 

Þessar hugmyndir séu þó takt við annað í umsögninni sem sé mikil vonbrigði. Hann segir að nefndin hafi fallið á því prófi að vera umhverfisnefnd og mótvægi við atvinnuveganefnd og fiskeldisfyrirtæki. „Nefndin hefði átt að sína einhverja frumkvæðisvinnu og hitta aðila sem verða fyrir barðinu á þessum iðnaði, í staðinn fyrir að skila umsögn sem er í raunni léttvæg og gerir ákaflega lítið til þess að herða á umhverfisreglum.“

 

Þessa frétt er að finna á vefnum Ruv.is