Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
28. mars 2019

Ófrjór lax í sjókvíar í Fáskrúðsfirði í vor

Fiskeldi Austfjarða hefur fengið leyfi til að nær tvöfalda laxeldi sitt og ætlar að rækta ófrjóan lax í sjókvíum í Fáskrúðsfirði og Berufirði. Slíkt hefur aldrei áður verið gert hér á landi og hefur fyrirtækið ráðið tvo Norðmenn til verksins.

 

Fiskeldi Austfjarða hefur alið lax í Berufirði og hafði leyfi fyrir átta þúsund tonna eldi. Nýja leyfið heimilar aukningu um 1800 tonn þar og miðast leyfið nú aðeins við lax en ekki lax og regnbogasilung eins og áður. Stærri tíðindi eru í Fáskrúðsfirði. Þar hefur ekki verið starfrækt fiskeldi þrátt fyrir þrjú þúsund tonna leyfi fyrir regnbogasilungi. Það leyfi hefur nú verið stækkað upp í 11 þúsund tonn af laxi og hefst eldið í vor.

 

 

Lítið svigrúm var til að auka eldi á frjóum laxi í Fáskrúðsfirði því áhættumat takmarkaði slíkt eldi. Fiskeldi Austfjarða brást við með því að hefja eldi á ófrjóum fiski og hófst ræktun á slíkum seiðum á Rifósi í Kelduhverfi í fyrra. Seiðin eru gerð ófrjó með því að meðhöndla þau með þrýstingi eftir klak en það hindrar vöxt á kynfrumum. Í Fáskrúðsfirði verða 6000 tonn frjó og en 5000 ófrjó. Í Berufirði verða 6000 tonn frjó en 3800 ófrjó.

 

Við gerð umhverfismats hafði Skipulagsstofnun bent á að óvíst væri hvort ófrjór lax hentaði við Ísland. Meira af honum dræpist og hann væri frekar útlistgallaður. Guðmundur Gíslason, stjórnarformaður fiskeldis Austfjarða, segir að það eigi ekki lengur við. Árangur í ræktun á ófrjóum laxi hafi batnað í Noregi og tveir nýráðnir starfsmenn þaðan hafi góða reynslu af slíku eldi. Árangur hafi batnað eftir að hentugt fóður var þróað og sé nú svipaður og með frjóan fisk. Eldið verður í samvinnu við háskólann á Hólum, Stofnfisk og Hafrannsóknastofnun. Guðmundur telur að þetta geti verið ein af mögulegum leiðum til að koma til móts við áhyggjur af erfðablöndun við villta laxastofna.

 

Þessa frétt er að finna á vefnum ruv.is