Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
20. mars 2019

Veiðimenn og veiðiréttareigendur snúa bökum saman

Fréttatilkynning

 

Landssamband veiðifélaga og Landssamband stangaveiðifélaga samþykktu harðaorða ályktun á sameiginlegum formannafundi á Hótel Sögu þann 18. mars síðastliðinn. Fundurinn átelur harðalega það samráðsleysi sem hefur verið viðhaft við undirbúning framlagðs frumvarps til breytinga á fiskeldislögum. Slík vinnubrögð séu ekki til þess fallin að ná sátt um þetta mikilvæga mál heldur þvert á móti er verið að stofna til átaka um náttúru Íslands.

 

Í ályktun fundarins segir að í fyrirliggjandi frumvarpi sé ekki að finna skýra stefnumörkun  um að þróa skuli fiskeldi til umhverfisvænni eldisaðferða í framtíðinni eða leiðir til að ná þeim markmiðum. Tillögur um að svokölluð samráðsnefnd um fiskeldi hafi það með höndum að gera tillögur að breytingum á áhættumati um erfðablöndun opnar leið til pólitískra afskipta af matinu.  Ákvæðið er augljóslega sett fram til að auðvelda ráðherra að hafa pólitísk áhrif á niðurstöður áhættumats erfðablöndunar og fer því alfarið gegn ákvæðum náttúruverndarlaga um meginreglur sem skylt er að hafa í heiðri til verndar náttúrunni.

 

Fundurinn hvetur til þess að ytra eftirlit með fiskeldi verði aukið og falið Fiskistofu. Þá varar fundurinn við að ákvæði frumvarpsins um heimildir Hafrannsóknarstofnunar til rannsókna virðist eiga að nota til að lauma norskum laxi í sjókvíar í Ísafjarðardjúpi, án þess að lögbundin leyfi liggi fyrir og undir því yfirskyni að um ,,tilraun“ sé að ræða.  Meiri ástæða væri til að auka grunn rannsóknir á lífríkinu og þeim áhrifum sem núverandi eldi hefur á umhverfið.

 

Samkvæmt nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskólans um virði lax- og silungsveiða, hafa 3.400 lögbýli tekjur af lax og silungsveiði í hinum dreifðu byggðum landsins. Þá leiðir skýrslan einnig í ljós að 60.000 Íslendingar stunda lax- og/eða silungsveiðar. Verndun þessarar auðlindar á að vera leiðarljós við alla lagasetningu um fiskeldi. 

 

Á fundinum var ákveðið að  veiðimenn og veiðiréttareigendur snúi bökum saman til varnar villtum laxastofnum og munu  berjast sameiginlega gegn  skaðlegum áformum sjókvíaeldisfyrirtækjanna.

 

Hér er fréttatilkynning í pdf-skjali.