Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
2. mars 2019

Veiðivötn í 360° svo langt sem augað eygir

Veiðivötn eru eru vatnaklasi á milli Hofsjökuls og Mýrdalsjökuls sem samanstendur af allt að fimmtíu vötnum. Vötnin liggja í lægð sem er fimm kílómetra breið og um 20 kílómetra löng frá suðvestri til norðausturs.
 

Í fjórða þætti af Ferðastiklum ferðast Lára Ómarsdóttir á staði sem eiga það sameiginlegt að hafa orðið fyrir miklum áhrifum af jarðhræringum, hér að neðan má sjá 360° myndskeið frá Veiðvötnum sem tekið var upp við gerð þáttarins. Hægt er að stýra sjónarhorni myndavélarinnar með því að halda inni músartakkanum meðan músin er hreyfð innan myndflatarins.

 

Þessi ægifögru vötn eru umlukin móbergshrygg og öskugígaröð, hrauni, gervigígum og söndum, hrikalegt en einfalt landslag. Veiðivötn í núverandi mynd urðu til í einum mestu náttúruhamförum sem orðið hafa frá landnámi.

 

360 gráðu myndband við Veiðivötn. Aukaefni sem tekið var upp við vinnslu á þriðja þætti í þáttaröðinni Ferðastiklur 2019.

 

Veiðivatnagosið hófst líklega í Bárðarbungu sjálfri árið 1477 með mjög öflugu eldgosi. Enginn veit með vissu hve lengi gaus eða hvort gaus í langan tíma eða nokkrum sinnum með hléum en þó er vitað að Veiðivatnagosið er án vafa eitt mesta eldgos Íslands frá landnámi. Flest vötnin mynduðust í Veiðivatnagosinu og fljótlega fór fiskur að gera vart við sig í vötnunum, enda bera vötnin einnig nafnið Fiskivötn eða svo voru þau kölluð allt fram á nítjándu öld.

 

Ferðastiklur eru á dagskrá á fimmtudagskvöldum klukkan 20.05. Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni og nálgast eldri þætti í Spilaranum. 

 

Þessa frétt er að finna á vefnum ruv.is