Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
25. febrúar 2019

Bleikju fækkar um allt land

Stofn bleikju í Elliðavatni er nánast hruninn og víða um land hefur henni fækkað mjög mikið. Sambærilegir hlutir hafa átt sér stað í Noregi. Hilmar Malmquist, líffræðingur og forstjóri Náttúruminjasafns Íslands og Guðni Guðbergsson sviðsstjóri ferskvatnslífríkissvið Hafrannsóknastofnunar telja að loftslagsbreytingar séu helsta skýringin.

 

Bleikjustofninn í Elliðavatni nánast hruninn

Hilmar og Guðni hafa báðir komið að umfangsmiklum rannsóknum á lífríki í ferskvatni hér á landi. Rannsóknir á bleikju hafa staðið yfir mjög lengi. Meðal gagna sem stuðst er við eru veiðiskýrslur sem ná yfir meir en sjö áratugi og greina frá veiði í nánast öllum veiðiám hér á landi.  Nákvæmari rannsóknir á bleikjunni hafa ennfremur verið gerðar síðastu 30 ár víða um land meðal annars á bleikjunni í Elliðavatni. Hitastig vatnsins hefur líka verið mældur nokkrum sinnum á dag í langan tíma. Elliðavatn er mjög grunnt og sýna mælingarnar að það hefur hlýnað - og er hlýnunin mest á vorin og í júlí, ágúst og september.

 

Hilmar segir að hlýnunin hafi margvíslegar afleiðingar fyrir lífríki vatnsins.


„Þetta virðist koma hvað skýrast fram í bleikjustofninum. Hann hefur á sama tíma og vatnið hefur hlýnað nánast hrunið. Hann er ekki svipur hjá sjón.“

 

Hiti vatnsins hafi bein áhrif á lífstarfsemi fiskanna - sérstaklega ungviðsins. „Það getur verið rúmar 20 gráður fleiri daga og jafnvel heila viku á svæðum þar sem ungviðið heldur sig og þau einfaldlega þola þetta ekki.“

 

Gripið til veiðitakmarkana

Svipaðar breytingar hafa átt sér stað annars staðar á landinu. Guðni segir að sjá megi á skýrslum um skráða stangveiði í íslenskum veiðiám að sjóbleikju hefur fækkað alls staðar og einnig að sjóbirtingur hefur fjölgað sér á móti.

 

„Erum við að tala um mikla fækkun?  Við erum að tala um já mjög mikla fækkun og sumstaðar er það komið þannig að til þess að hamla gegn henni til þess að menn fari nú ekki að veiða síðustu bleikjurnar þá hefur verið gripið til veiðitakmarkana.“

 

„Mögulega er þetta tengt hnattrænum breytingum eða breytingu á loftslagi og hvernig það gerist það veit maður kannski ekki alveg nákvæmlega en það væri mjög mikil þörf á að kanna það mun betur.“

 

Guðni segir að hrigningatími bleikjunnar sé tengdur birtu. Mögulega hafi hækkandi hiti orðið til þess að seiðin klekjast of snemma.

 

Samskonar niðurstöður í Noregi

„Er þetta einstakt fyrir Ísland? Nei það vill svo til að við höfum verið að skoða þetta með starfsbræðrum í Noregi og það eru sambærilegir hlutir að gerast í norður Noregi.“ Og víðar á norðurhveli jarðar.

 

Hilmar: „Ef það heldur áfram að hlýna svona þá má búast við því að stofninn verði það veikur jafnvel að hann líði undir lok.“

 

Hætta sé á því að þeim afdrepum eða búsvæðum sem bleikjan getur þrifist á fækki. „Og þá er hætt við að tegundin verði aldauða og hverfi.“

 

Hér er hægt að lesa alla fréttina á vefnum ruv.is eða sjá frétt sem myndskeið.