Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
19. febrúar 2019

Vonar að fiskeldisfrumvörp fæðist fyrir febrúarlok

Sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra vonast til að geta lagt fram lagafrumvörp um fiskeldi innan tveggja vikna. Skiptar skoðanir eru um gjaldtöku á greinina, ekki síst í ljósi erlends eignarhalds, en ráðherra leggur áherslu á að fiskeldisfyrirtækjunum verði mörkuð skýr umgjörð og að markaðsaðstæður ráði för.

Um er að ræða tvenn frumvarpsdrög sem Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, segist vona að hægt verði að leggja fram á Alþingi fyrir febrúarlok, eins og þingmenn á borð við Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur varaformann atvinnuveganefndar Alþingis hafa kallað eftir. Fjölmargar umsagnir hafi borist um frumvarpsdrögin og því hafi verið í mörg horn að líta að sögn ráðherrans.

„Það hefur verið stefnt að því í nokkra mánuði að þessi frumvörp kæmu fram í febrúar,“ segir Kristján Þór. Þau líti því vonandi ljós á næstu tveimur vikum.

Kristján lagði fram frumvarp um breytingar á lögum um fiskeldi í fyrravor, sem atvinnuveganefnd náði ekki að afgreiða. Hann telur núverandi lagaramma greinarinnar henta illa þeirri starfsemi sem er í fiskeldi í dag. Því sé mikilvægt að tryggja greininni nýja, skýra umgjörð. 

 

Fram kom í vikunni að norska fyrirtækið Salmar hafi eignast meirihluta í Arnarlaxi, stærsta fiskeldisfyrirtæki landsins, og hyggist eignast fyrirtækið að fullu innan tíðar. Salmar er eitt stærsta fiskeldisfyrirtæki Noregs og eftir methagnað í fyrra hyggjast eigendur fyrirtækisins greiða sér 35 milljarða íslenskra króna í arð fyrir síðasta rekstrarár.

Í frumvarpsdrögunum er gert ráð fyrir að gjaldtaka ríkisins á fiskeldisfyrirtæki muni nema einum milljarði króna árið 2023. Það þykir fiskeldisfyrirtækjum íþyngjandi, ekki síst í ljósi þess að þau eru flest enn í vaxtarfasa, meðan aðrir telja þau of lág. Fyrirtæki sem greiði tugmilljarða í arð geti staðið undir hærri greiðslum.

Kristján Þór segir að eðli máls samkvæmt séu skiptar skoðanir um hvað teljist eðlileg gjaldheimta. Hann vilji í því sambandi benda á það að hann hafi lagt inn í Samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi um gjaldtöku í fiskeldi, sem geri ráð fyrir að hún verði sett á. „Í rauninni má segja að frumvarp, sem ég get vonandi lagt fram í febrúar, endurspegli afstöðu mína í þessum efnum.“

Aðspurður um hvort norskt eignarhald á stærsta fiskeldisfyrirtæki landsins muni lita frumvarpsdrögin segir Kristján það vera hlutverk stjórnmálamanna að leggja fram reglur og marka fyrirtækjum umgjörð til að starfa eftir. Það ráðist svo af markaðaðstæðum hverju sinni og áhuga manna hvar þeir fjárfesta, hvort sem það er í fiskeldi eða á öðrum sviðum. „Þannig byggir atvinnulífið upp sína starfsemi, á grunni þeirra reglna sem stjórnmálamenn setja með lögum frá Alþingi,“ segir sjávarútvegsráðherra.

 

Þessa frétt er að finna á vefnum visir.is