Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
18. febrúar 2019

HAFRÓ hafnar því að hafa ofmetið kynþroska

Hafrannsóknarstofnun vísar á bug gagnrýni um að stofnunin ofmeti kynþroska eldislax í áhættumati. Í fyrra veiddust 12 eldislaxar í laxveiðiám og reyndust allir nema einn vera kynþroska. Samkvæmt formúlum áhættumatsins hefðu 20 eldislaxar átt að veiðast í íslenskum ám í fyrra.
 

Fiskeldisfyrirtæki hafa gagnrýnt áhættumatið og meðal annars að ekki sé í því tekið tillit til mótvægisaðgerða sem fyrirbyggja að laxinn verði kynþroska fyrir slátrun.  Ólafur I. Sigurgeirsson, lektor í fiskeldi við Hólaskóla, tók undir þessa gagnrýni í athugasemdum við áhættumatið. Ekki væri rétt að miða við 15% kynþroska því rannsóknir sýndu að kynþroski eldislaxa við sláturstærð væri mun minni eða um 0-3%.

 

Í svari Hafrannsóknarstofnunar segir að þetta sé á misskilningi byggt. Áhættumatið geri ekki ráð fyrir því að 15% strokulaxa séu kynþroska heldur að 15% þeirra nái að verða kynþroska í sjó eftir að þeir sleppa. Þeir geti síðan gengið upp í ár til hrygningar. Í fyrra hafi 12 eldislaxar veiðst í íslenskum ám og allir nema einn reynst vera kynþroska og bera merki síðbúins stroks. Fiskarnir hafi allir náð að verða kynþroska 6-7 mánuðum eftir slysasleppingu í febrúar. Einn þeirra sem veiddist í Breiðdalsá á Austfjörðum sé ekki úr íslensku fiskeldi, en það þurfi að skoða nánar. Sjö fiskar komu úr kví Arnarlax við Hringsdal Arnarfirði og fjórir úr kví sama fyrirtækis við Laugardal Tálknafirði. Tilkynnt var um atvik á báðum stöðum 11. febrúar í fyrra en þá gekk norðvestan stormur yfir Vestfirði og mestar líkur er taldar á að fiskarnir hafi sloppið þá. Þeir virðist því duga 6-7 mánuðir til að ná kynþroska í sjó.
 

Fram kemur í svari HAFRÓ að þegar eldismagn á síðasta ári sé sett inn í reiknilíkan áhættumatsins hefðu 40 laxar átt að ganga upp í árnar: Miðað við að veiðiálag sé 50% hefðu því 20 eldislaxar átt að veiðast en þeir voru aðeins 12 og einn mögulega erlendur. HAFRÓ segir það ekki fjarri lagi og eðlilegt að matið sé hærra en rauntölur með tilliti til varúðarsjónarmiða.

 

Á vef HAFRÓ má lesa svör stofnunarinnar við ýmsum athugasemdum Ólafs I. Sigurgeirssonar.