Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
14. febrúar 2019

Freista þess að vísa málinu til Hæstaréttar

Veiðiréttarhafar í Haffjarðará á Snæfellsnesi, sem tapað hafa ógildingarmáli gegn Arnarlaxi, Matvælastofnun og Umhverfisstofnun, ætla að freista þess að skjóta málinu til Hæstaréttar. Landsréttur vísaði málinu frá á föstudag.
 

Héraðsdómur Reykjavíkur hafði komist að sömu niðurstöðu um að vísa frá kröfu um að fiskeldisleyfi í Arnarfirði á Vestfjörðum verði ógilt. 

 

Veiðiréttarhafar í Haffjarðará á Snæfellsnesi, fyrirtækin Akurholt ehf. og Geiteyri ehf., vilja að dómstólar afturkalli rekstrarleyfi Matvælastofnunar og starfsleyfi Umhverfisstofnunar fyrir sjókvíaeldi Arnarlax í Arnarfirði. Veiðiréttarhafarnir halda því fram að laxeldið skapi hættu fyrir villta laxastofna í landinu og lögvarða hagsmuni sína.
 

Sjá einnig: Staðfesta frávísun á máli gegn Arnarlaxi

 

Landsréttur, eins og Héraðsdómur Reykjavíkur, féllst ekki á þetta og þess vegna hefur Arnarlax enn leyfi til að stunda sjókvíaeldi í Arnarfirði. Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður veiðiréttarhafa, segir að þeir ætli að freista þess að skjóta málinu til Hæstaréttar. Kærufrestur rennur út í lok næstu viku.

 

Landsréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms en hækkaði upphæðina sem stefnendur eiga að greiða í málskostnað. Varnaraðilarnir í málinu eru þrír: Umhverfisstofnun, Matvælastofnun og Arnarlax ehf. Héraðsdómur vildi að stefnendur greiddu hverjum stefndu eina milljón króna en Landréttur hækkaði upphæðina um 200.000 krónur til hvers varnaraðila.

 

Þessa frétt er að finna á vefnum ruv.is