Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
14. febrúar 2019

Eltið peningana

Í umræðum um laxeldi í sjókvíum við Ísland er stundum látið eins og þetta sé ný atvinnugrein hér við land. Í fyrra sagði til dæmis sjávarútvegsráðherra „það er kannski eðlilegt á meðan það er verið að byggja upp atvinnugreinina að fyrsta fjármögnun komi úr ríkissjóði“ þegar hann var spurður út í Umhverfissjóð sjókvíaeldis. 

 

Staðreyndin er hins vegar sú að núverandi laxeldi í sjókvíum er hluti af þriðju bylgju sjókvíaeldis við landið. Fyrri bylgjurnar tvær enduðu með milljarða króna tjóni fyrir sjóði í almannaeigu og lánastofnanir.

Sjókvíaeldisfyrirtækin við Ísland eru engin nýsköpunarfyrirtæki. Stærsta sjókvíaeldisfyrirtæki landsins var stofnað 2009. Búnaðurinn sem fyrirtækin nota hefur varla breyst í áratugi. Sjókví er enn bara netapoki í sjó.

Þessi félög eru að stærstum hluta dótturfélög vellauðugra norskra fiskeldisrisa. Þeir eiga ekki að þurfa sérstaka aðstoð ríkisins, afslátt af lögum um mengunarvarnir né nánast ókeypis afnot af sameiginlegum auðlindum íslensku þjóðarinnar. Þó er öll þessi atriði að finna í þeim frumvarpsdrögum sem sjávarútvegsráðherra hefur lagt fram um breytingar á lögum um fiskeldi.

Ekki hefur farið fram hjá neinum að eigendur sjókvíaeldisfyrirtækjanna berjast hart fyrir sínum málstað. Það er skiljanlegt þegar skoðaðir eru þeir gríðarlega miklu persónulegu hagsmunir sem eru í húfi fyrir þá og þau fyrirtæki sem þeir tengjast. Eitt dæmi sem sýnir þessa stöðu í hnotskurn er Fiskeldi Austfjarða. Síðla árs 2017 var 45,2% hlutur í félaginu seldur fyrir 965 milljónir króna en í kaupsamningnum er klásúla um að kaupverðið muni fjórfaldast ef leyfi fást til aukinnar framleiðslu á næstu árum. Fer þá í 3,9 milljarða króna.

Þetta er dæmi um gríðarlega mögulega hækkun á innan við helmings hlut í einu fyrirtæki. Þegar það er yfirfært á markaðinn í heild margfaldast milljarðarnir. Söluvaran er aðgangur að íslenskri náttúru, sameign þjóðarinnar. Seljendurnir eru fáeinir einstaklingar. 

 

Þessa grein eftir Jón Kaldal er að finna á vefnum visir.is