Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
19. janúar 2019

Beiðni um frekari upplýsingar vegna fyrirhugaðs sjókvíaeldis Hafrannsóknarstofnunar

Landssamband veiðifélaga hefur sent Hafrannsóknarstofnun bréf, dagsett 17.01.2019, en þar er leitað svara við 13 spurningum er varða fyrirhugað "tilraunaeldi" á frjóum norskum laxi í Ísafjarðardjúpi. Um ræðir beiðni um frekari upplýsingar vegna fyrirhugaðs sjókvíaeldis Hafrannsóknarstofnunar á 3000 tonnum af frjóum norskum lax í Ísafjarðardjúpi. Bréfið er að finna hér að neðan en jafnframt er hægt að sækja það hér sem pdf-skjal.

 

Reykjavík 17. janúar 2019.
Hafrannsóknarstofnun
Sigurður Guðjónsson, forstjóri,
Skúlagötu 4
101 Reykjavík

 

Efni: Beiðni um frekari upplýsingar vegna fyrirhugaðs sjókvíaeldis Hafrannsóknarstofnunar á 3000 tonnum af frjóum norskum lax í Ísafjarðardjúpi.

 

Vísað er til svars Hafrannsóknarstofnunar, dagsettu 27. september 2018, við erindi Landssambands veiðifélaga þar sem óskað var upplýsinga um framangreind eldisáform Hafrannsóknarstofnunar í Ísafjarðardjúpi.

 

Í svari við erindi Landssambandsins kemur fram að Hafrannsóknarstofnun hafi ekki unnið kostnaðaráætlun vegna framkvæmdarinnar og því var spurningunni um áætlaðan kostnað vegna verkefnisins ekki svarað. Sú spurning er nú ítrekuð hér og óskað svars um heildarkostnað við framkvæmd sjókvíaeldis Hafrannsóknarstofnunar á norska laxinum í Ísafjarðardjúpi.

 

Því væntir Landssamband veiðifélaga þess að ítarleg svör berist við eftirfarandi spurningum:

 

1. Hver er heildarkostnaður framkvæmdarinnar sbr. hér að framan?

 

2. Hvert er fjárframlag Hafrannsóknarstofnunar til framkvæmdarinnar?

 

3. Rúmast þessi framkvæmd innan þeirra fjárlagaheimilda sem Hafrannsóknarstofnun nýtur?

 

4. Hverning verður fjárhagslegum tengslum samstarfsaðila og Hafrannsóknarstofnunar háttað?

 

5. Hver mun eiga búnað eldisstöðvarinnar?

 

6. Hver mun eiga lífmassa í laxeldinu?

 

7. Hver mun eiga/móttaka tekjur sem koma til við slátrun og sölu afurða?

 

8. Hvernig verður þessi rekstur færður til bókar hjá ríkisstofnuninni Hafrannsóknarstofnun?

 

9. Hver mun bera fjárhagslega áhættu af rekstri eldisstöðvarinnar?

 

10. Hverning verður fjármögnun háttað og verða gerðar kröfur um lágmarks eigið fé samstarfsaðila eða aðrar kröfur um fjárhagslega burði hans og þá hverjar?

 

11. Verður stofnað sérstakt fyrirtæki um eldisstöðina og rekstur hennar og ef svo er liggja heimildir fyrir um aðkomu Hafrannsóknarstofnunar að slíkum stórfelldum áhætturekstri í lögum og þá hvar?

 

12. Hefur Hafrannsóknarstofnun aflað tilskilinna leyfa fyrir rekstrinum, ef ekki, hyggst stofnunin afla slíkra leyfa og þá hvaða leyfa?

 

13. Mun eldisfyrirtækið Háafell njóta forgangs sem samstarfsaðili að einhverju leyti?

 

Varðandi síðustu spurninguna vísast til fréttaflutnings nú um hátíðarnar þar sem ekki verður af annað ráðið en umrætt fyrirtæki hafi fengið einhvern ádrátt stofnunarinnar eða valdaaðila um slíkt.

 

Þess er óskað að framangreinum spurningum verði svarað hið fyrsta.

 

Virðingarfyllst,
fh. Landssambands veiðifélaga

Jón Helgi Björnsson, formaður