Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
9. desember 2018

Stærsta sushi-keðja landsins hættir með lax úr sjókvíum

Stærsta sushi-keðja Íslands, Tokyo-sushi, er hætt að kaupa eldislax úr sjókvíaeldi Arnarlax, stærsta laxeldisfyrirtæki Íslands. Tokyo-sushi rekur sushi-staði í Glæsibæ, á Nýbýlavegi auk þess sem fyrirtækið rekur fjóra staði í verslunum Krónunnar á höfuðborgarsvæðinu. Í stað þess að kaupa lax úr sjókvíaeldi kaupir Tokyo-sushi nú lax frá landeldi sem Samherji rekur í Öxarfirði.  

 

Mikil umræða hefur skapast á Íslandi um framtíð sjókvíaeldis í opnum kvíum. Ein af spurningunum sem er undir er sú spurning hvort byggja eigi upp laxeldi í opnum sjókvíum eða hvort færa eigi laxeldið upp á land. Landeldi á laxi er dýrara og endurspeglast það í verði vörunnar en slíkt eldi er einnig umhverfisvænna þar sem það spillir ekki lífríki náttúrunnar og engin hætta er á að eldislaxinn blandist saman við villta laxastofna. Forsvarsmenn laxeldisfyrirtækjanna sem stunda sjókvíaeldi halda því fram að ekki sé raunhæft að byggja upp landeldi á Íslandi þar sem það sé svo dýrt.

 

Fyrir skömmu kom upp mál þar sem ósætti kom upp innan Kokkalandsliðs Íslands vegna þess að gerður var samstarfssamningur við Arnarlax um notkun á eldislaxi úr sjókvíaeldi. Einhverjir matreiðslumenn sögðu sig úr kokkalandsliðinu vegna þessa. Kokkalandsliðið og Arnarlax náðu svo sáttum. Málið sýnir hins vegar hvað spurningin um opið sjókvíaeldi er orðin umdeild á Íslandi.

 

Landeldi Samherja í Öxarfirði er eldi sem fyrirtækið tók yfir árið 2008 eftir að Silfurstjarnan hætti eldi þar. Silfurstjarnan hafði einnig rekið sjókvíaeldi í Mjóafirði en umhverfisslys sem kom upp í eldinu gerði það að verkum að fyrirtækið lagði upp laupana. Mikið magn marglyttna fór inn í fjörðinn sem drap stóran hluta af laxinum í sjókvíunum þar sem varnirnar gegn slíkum óhöppum í eldinu voru litlar. 

 

 „Nú fullnægjum við kröfum þeirra sem eru viðkvæmir fyrir eldislaxi úr sjókvíum og þetta er betri bisniss.“

 

Tvíþætt ástæða Andreys

Andrey Rudkov, stofnandi og eigandi Tokyo-sushi, segir að fyrirtækið hafi byrjað að kaupa landeldislax Samherja nú í sumar. Fyrirtækið kaupir Samherjalaxinn í gegnum fyrirtækið Eðalfisk í Borgarnesi. „Við einfaldlega fundum betri afurð og dreifingaraðila sem er traustari og sem við fáum lax frá allt árið. Við vildum ekki kaupa af Arnarlaxi meðal annars af því að á hverju sumri hættum við að fá lax frá Arnarlaxi og við þurftum að kaupa lax frá Færeyjum eða annars staðar frá og stundum var laxinn 10 daga gamall. Samherji selur okkur betri afurð af því hún er úr landeldi og vegna þess að laxinn er úr landeldi þá koma ekki upp neinar náttúruverndarspurningar sem í augum margra á Íslandi er orðið vandamál,“ segir Andrey og útskýrir að sjókvíaeldisfyrirtækin forgangsraði þannig að íslenski markaðurinn eftir eldislaxi mæti afgangi og fyrst sé eftirspurninni eftir laxi erlendis frá annað. Arnarlax selur til dæmis lax til bandarísku verslanakeðjunnar Whole Foods. 

 

Andrey segir kjarnann í ákvörðun Tokyo-sushi því vera bæði umhverfislega og eins viðskiptalega þar sem framboðið á laxinum er traustara. „Nú fullnægjum við kröfum þeirra  sem eru viðkvæmir fyrir eldislaxi úr sjókvíum og þetta er betri bisniss.“

 

Tokyo-sushikeðjan er ákveðin öskubuskusaga þar sem Andrey stofnaði fyrirtækið árið 2010 og hefur það stækkað jafnt og þétt síðastliðin ár. Veltan hefur þrefaldast frá árinu 2012 og nam 850 milljónum árið 2017. Í fyrra skilaði fyrirtækið 27 milljóna króna hagnaði og ráðgerði 53 milljóna króna arðgreiðslu. „Já, ég held að við séum stærstir í sushi á Íslandi. En það er ekkert sem við erum stolt af, þetta hefur bara gerst. Við erum hógvært fólk,“ segir Andrey.

 

Landelsislaxinn dýrari

Aðspurður segir Andrey að hann vilji kaupa Samherjalaxinn, landeldislaxinn úr Öxarfirði, þrátt fyrir að kílóaverðið af honum sé 80 krónum hærra en verðið á laxinum úr sjókvíaeldinu. „Ég er sjálfur laxveiðimaður og það er ein af ástæðunum fyrir því að ég vel þessa leið, að kaupa lax úr landeldi. Jafnvel þó ég þurfi að borga meira. Ísland hefur núna möguleika á að þróa landeldi á laxi. Það er fullt af landi, rafmagn er ódýrt og nóg af jarðvarma á Íslandi,“ segir Andrey sem ekki vill greina frá því hvað fyrirtækið greiðir fyrir kílóið af landeldislaxinum. „Ég get ekki sagt þér það. En við erum ánægð og við erum ekki að tapa peningum. Ekkert fyrirtæki sem tapar peningum getur gengið til lengdar.“

 

Andrey segir að fyrirtækið kaupi um 800 kíló af eldislaxi á viku. „Við kaupum um 800 kíló af flökum á viku. Ég meina, þetta er ekki há tala þanni, miðað við heildarneyslu af laxi á Íslandi,“ segir Andrey.

 

90 prósent vildu landeldislaxinn

Framkvæmdastjóri og einn eigandi Eðalfisks í Borgarnesi, Kristján Rafn Sigurðsson, segir að Tokyo-sushi hafi keypt lax af fyrirtækinu frá því í sumar. Hann segir að enn sem komið er sé lax úr sjókvíaeldi miklu algengari á Íslandi í dag en lax úr landeldi. „Ég veit að allur lax úr Krónunni er úr landeldi til dæmis,“ en söluaðilar eru nú í auknum mæli farnir að merkja landeldislaxinn sérstaklega til að aðgreina hann frá laxi úr sjókvíaeldinu. 

 

Kristján Rafn segir að hann hafi nýlega gert könnun á því meðal sinna viðskiptavina hversu margir gætu hugsað sér að kaupa land úr sjókvíaeldi í stað laxsins úr landeldinu og að um 90 prósent þeirra hafi sagt að þeir vilji kaupa landeldislaxinn áfram af honum á meðan um 10 prósent hafi sagt að viðkomandi væri alveg sama hvort þeir keyptu lax úr sjókvíaeldi eða landeldi.

 

Þessa frétt, eftir Inga Frey Vilhjálmsson, er að finna á vefnum Stundin.is. Hér er hægt að fá vefáskrift eða prentáskrift að Stundinni.