Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
17. nóvember 2018

Lögregla skal rannsaka tjónið í Andakílsá á ný

Lögreglustjóranum á Vesturlandi ber að rannsaka betur tæmingu Orku náttúrunnar á inntakslóni Andakílsárvirkjunar í fyrravor sem olli stórtjóni á ánni. Skorradalshreppur kærði málið til lögreglu, sem hætti rannsókninni í maí síðastliðnum. Ríkissaksóknari felldi þá ákvörðun úr gildi í september og gerði lögreglu að rannsaka málið betur.

Aur úr inntakslóni virkjunar í Andakílsá. Skjáskot ©Ruv.is

 

Frá þessu er sagt í nýjasta tölublaði Skessuhorns. Þar kemur fram að lögregla hafi tekið skýrslu af þeim starfsmanni Orku náttúrunnar sem stýrði úrhleypingunni úr lóninu, sem varð til þess að þúsundir rúmmetra af seti bárust í ána og spilltu gjöfulum laxveiðistöðum. Rannsókninni hafi verið hætt vegna þess að ekki lá fyrir refsikrafa frá landeigendum og veiðiréttarhöfum og auk þess hafi vafi leikið á því að vatnstæmingin hefði verið leyfisskyld. Því yrði erfitt að sýna fram á refsiverða háttsemi.
 

Ríkissaksóknari er ósammála þessu, að því er Skessuhorn greinir frá. Í vatnalögum sé skýrlega kveðið á um að brot á þeim varði refsingu og því beri að taka málið til rannsóknar að nýju á grundvelli kærunnar frá Skorradalshreppi, þar sem þess var krafist að fyrirtækið, auk þeirra starfsmanna sem hefðu gerst sekir um refsiverða háttsemi, yrði látnir svara til saka. Haft er eftir Jóni Hauki Haukssyni hjá lögreglunni á Vesturlandi að hin nýja rannsókn sé þegar hafin.

 

Forsvarsmenn Orku náttúrunnar lýstu yfir fullri ábyrgð fyrirtækisins á umhverfisslysinu. Orkustofnun sektaði fyrirtækið um eina milljón í júlí í fyrra og sú sekt var staðfest af atvinnuvegaráðuneytinu í apríl.

 

Þessa frétt er að finna á vefnum Ruv.is